fbpx
Laugardagur 12.apríl 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

Eyjan
Miðvikudaginn 9. apríl 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er þjóðarsport okkar Íslendinga að rífast og þrátta um oftar en ekki tilgangslausa hluti. Hneykslast og blammera sem mest í efsta stiginu. Drögum í dilka, flokkum og stimplum. Yfirleitt höfum við bara athyglisspönn í eitt umræðuefni í einu. Sem við ræðum á kaffistofum landsins, á samfélagsmiðlum, í fjölskylduboðum, í heita pottinum og í fjölmiðlum. Ræðum og ræðum þangað til við verðum fjólublá í framan. Búin að skilgreina tvö lið og pakka okkur vel saman ofan í skotgrafir. Lokum þar fyrir og komum okkur svo þægilega fyrir í bergmálshellinum okkar. Fullviss um að „okkar lið“ hafi sigrað í þessari atrennu. Þegar staðreyndin er sú að allir tapa á þessari samskiptaleið.

Í þessari viku var umræðuefnið um vókisma (e. woke). Umræða sem undirstrikar þá rotþró sem íslensk umræðuhefð byggir á. Sólveig Anna sagðist ekki þola þennan ömurlega vókisma og Hallgrímur Helgason kallaði hana Trumpista fyrir vikið (baðst síðar afsökunar á því). Niðurstaðan af þessum orðaskiptum tveggja einstaklinga í sunnudagsspjalli á Samstöðinni er sú að „vókið sé loksins dautt“. „Ánægjulegt að fá fleiri um borð. Til sigurs,“ skrifaði þingmaður Miðflokksins.

Sem fékk mig til að hugsa: Hvað er það raunverulega sem meintur dauði vóksins er að sigra? Um borð í hvað? Og það sem meira er, hvað er þetta vók?

Svart hvítur heimur

Það sem umræðan síðastliðna daga hefur hið minnsta kristallað er að vók virðist vera nákvæmlega það sem fólki finnst að það eigi að vera. „Dauði rétttrúnaðarins“ segir einn „manngæska og samúð“ segir hinn. „Fasismi og nornaveiðar“ segir einn „að vera vakandi fyrir réttindum annarra og standa með þeim sem jaðarsettir eru í samfélaginu“ segir hinn.

Það er því ekki nema von að ekki gangi vel að ná einhverri röklegri niðurstöðu í þessa umræðu. Til að skilja hvað það er sem pirrar fólk við vókisma. Og hvað það er sem særir þegar vókismi er dreginn í efa. Þegar þetta er grundvöllurinn er auðvitað mjög freistandi að skila bara auðu og taka ekki þátt. En það er nákvæmlega það hættulega við þann svart-hvíta heim sem ákveðin öfl í samfélaginu okkar eru að reyna að teikna upp. Heim tvenndarinnar. Og kannski þess vegna fundu menn upp á því að nota þetta hugtak sem skammaryrði til þess að setja niður fólk sem berst fyrir auknum réttindum.

Ég var því nokkuð spennt að vera boðuð í Morgunútvarpið á Rás 2 til að ræða vókisma við þingkonu Sjálfstæðisflokksins og kollega minn sem einmitt nýtti tímann í landsfundarræðu sinni til að lýsa því yfir að „vók-ið væri búið.“ „Raunveruleikinn er snúinn aftur,“ sagði hún svo. Raunveruleikinn, já. Kem betur að honum síðar í pistlinum.

Vond stemning

Í útvarpsviðtalinu áttum við ágæt orðaskipti. Ég lýsti því þar yfir að mér þætti þessi umræða og hugtakanotkun – sem er með öllu innihaldslaus – vera einhvers konar fjarvistarsönnun til þess að ræða ekki raunveruleg vandamál. Eins og aukið bakslag í réttindabaráttu fólks. Um kynbundið ofbeldi, kúgun jaðarsettra hópa, aukna skautun og útlendingaandúð. Það er búið að búa til eitthvert hugtak og pakka öllu inn í það til þess að snúa uppgangi mannréttinda á hvolf. Setja þau sem berjast gegn jaðarsetningu í skammarkrókinn. Andúðin við vókisma sprettur einmitt vegna þess að háværar raddir aktívisma þegar það kemur að réttindum einstaklinga fóru að hafa samfélagsleg áhrif. Þeim fylgdu aukin réttindi. Aukið pláss. Ég spurði þingmanninn hvað það væri nákvæmlega sem færi svona í taugarnar á henni og þeim sem fagna meintum dauða vókismans? Hvaða hópar hafa öðlast of mikil réttindi? Mig langaði nefnilega að skilja þetta betur.

Og það stóð ekki á svörum:

„Þessi umræða snýst um það að það er verið að lýsa því yfir að ákveðin stemning í samfélaginu er búin.“ „Fólk fékk nóg af því að vera tiplandi á tánum og ótta við að vera bannfærður fyrir einhverja skoðun“

Aha! Þar höfum við það. Vókismi er sem sagt í huga þeirra bara sú leiðinlega stemning sem myndaðist við það að aktívistar fóru að opna út og lofta. Þegar sáru leyndarmálin, þöggunin, skömmin og óréttlætið brutust fram og upp á yfirborðið. Þegar þögnin var rofin og fólk krafðist réttlætis. Ábyrgðar. Og svo almennt greinilega þegar jaðarsettir einstaklingar benda á jaðarsetninguna, veggina og hindranirnar. Algjör múdkiller.

Smánarblettir mannlegrar tilveru

Ég get alveg tekið heilshugar undir með þingmanninum – það er ekki skemmtileg stemning að tala um þessa smánarbletti mannlegrar tilveru. Það er ekki og verður aldrei gamanefni að ræða nauðganir og kynbundið ofbeldi. Það er ekkert fyndið við það að taka á móti stöðugu öráreiti vegna húðlitar eða kyntjáningar. Nei það er sannarlega ekki skemmtilegt. Auðvitað fylgir því leiðinleg og erfið stemning. Líkt og þekkt er með meðvirku fjölskyldu alkóhólistans þá er oft lenskan að eyðileggja ekki „stemninguna“ með því að benda á hið augljósa. Keisarinn er ekki í fötum og allt það.

Að horfast í augu við raunveruleikann

Nei – staða jaðarsettra hópa og skert frelsi þeirra verður seint að efni í uppistand í Þjóðleikhúskjallaranum. Það er miður að þær hugrökku raddir sem þorðu að hafa hátt og taka pláss hafi með því eyðilagt stemninguna í samfélaginu fyrir þessum einstaklingum. Það var örugglega ekki ætlunin. Ætlunin var væntanlega að fá upp á yfirborðið raunveruleikann (já ég er að vísa í sama raunveruleika og í landsþingsræðu þingmanns Sjálfstæðisflokksins). Því raunveruleikinn er því miður sá að kynbundið ofbeldi er staðreynd. Mismunun jaðarsettra hópa er staðreynd. Þrengingar að tilverurétti hinsegin fólks er staðreynd. Það gerast ljótir hlutir í samfélaginu okkar og um allan heim. Því miður.

Ég vildi óska þess að þetta væri ekki staðan. Að stemningin væri betri og tilveran björt. En það er ekki reyndin. Við hljótum að vilja vinna að því að jafna stöðuna og tryggja jöfn réttindi. Tryggja frelsi allra. En í staðinn ákveður fólk að ergja sig yfir stemningsleysi og að þurfa að sýna aðgát í nærveru sálar. Þessu ergelsi er svo bara pakkað í hentugt hugtak – vók – sem þau bera svo fyrir sig eins og skjöld. Skjöldur sem ver þau frá því að ræða það sem raunverulega ergir þau.

Ég er því með frumlega tillögu. Hættum að draga okkur í dilka og gera hugtök að óvinum. Hættum að hneykslast og blammera. Förum úr efsta stigi í miðstig og mokum yfir skotgrafirnar.

En fyrst og fremst: Horfumst bara í augu við raunveruleikann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Eru refsingar of vægar?

Björn Jón skrifar: Eru refsingar of vægar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?
EyjanFastir pennar
12.03.2025

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu