Guðrún Hafsteinsdóttir gerði rétt í því að skipta um framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Ekki svo að skilja að sá sem vék hafi verið neitt slæmur en hann hefur verið náinn samstarfsmaður fyrrum formanns og því brýnt að skipta um og velja trúnaðarmann núverandi formanns eins og Guðrún gerði í síðustu viku.
Þetta er því miður það eina sem hægt er að hrósa Guðrúnu fyrir á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því hún bar sigurorð af frambjóðanda flokkseigenda og Morgunblaðsins í formannskjöri. Framganga hennar á Alþingi hefur valdið vonbrigðum. Hún tók þátt í innantómum skætingi í garð ríkisstjórnarinnar, einkum forsætisráðherra, vegna brotthvarfs fyrrum mennta-og barnamálaráðherra. Það var aumt. Guðrún hafði þá tækifæri til að hefja sig upp úr lágkúrunni og sýna að formaður Sjálfstæðisflokksins væri í alvörustjórnmálum en ekki í kjánalegum sandkassaleik.
Orðið á götunni er að núverandi formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skaði flokkinn í hvert sinn sem hún tekur til máls í þingsal og utan hans. Hildur Sverrisdóttir hefur fátt ef nokkuð vitrænt fram að færa, er beinlínis dónaleg í ræðustól Alþingis og gerir ekki annað en að undirstrika málefnafátækt og svekkelsi Sjálfstæðisflokksins. Ef Guðrún Hafsteinsdóttir skiptir henni ekki út strax og Alþingi kemur saman eftir páskaleyfi nær hún engum tökum á flokknum því að Hildur eykur einungis á skaða flokksins og veika stöðu hans. Sjálfstæðisflokkurinn er langt frá því að vera byrjaður að fóta sig í stjórnarandstöðu. Hann er valdaflokkur sem kann illa að sætta sig við valdaleysið. Þá er mikilvægt að talsmenn flokksins séu yfirvegaðir en ekki bjánalegir í framgöngu.
Vandi Guðrúnar er hins vegar sá að ekki er um auðugan garð að gresja þegar kemur að því að velja frambærilegan formann þingflokksins. Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er nú fátæklegra um að litast en nokkru sinni fyrr. Formaður, varaformaður og ritari flokksins eru öll úr landsbyggðarkjördæmum og geta ekki tekið að sér formennsku í þingflokknum.
Orðið á götunni er að flokkurinn hljóti að velja þingflokksformann af höfuðborgarsvæðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir koma varla til greina ef gera á tilraun til að halda friðinn í flokknum. Sama gildir um Diljá Mist Einarsdóttur sem tapaði á landsfundinum kosningu um embætti varaformanns. Jón Pétur Zimsen er algerlega óreyndur þingmaður, auk þess sem hann gerði sig að athlægi með sérkennilegri þingræðu um plasttappa, og kemur því ekki til greina.
Ekki getur Guðrún treyst Jóni Gunnarssyni eftir að hann réðist að henni á einstaklega lúalegan hátt daginn fyrir formannskjör á landsfundinum með ásökunum. Þannig að þá standa einungis eftir þrjár konur úr Suðvesturkjördæmi sem þarf þá að velja á milli. Bryndís Haraldsdóttir gegnir embætti 1. varaforseta þingsins sem gerir henni það ómögulegt að taka við stöðu formanns þingflokksins, auk þess sem erfitt er að sjá að val á henni væri framför frá Hildi. Rósa Guðbjartsdóttir er ný og óreyndur þingmaður og auk þess á fullu í bæjarmálastjórnmálum í Hafnarfirði, hefur ekki sleppt neinum embættum en tryggt sér ráðherralaun.
Orðið á götunni er að þá standi eftir langhæfasti þingmaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, 1. þingmaður Suðvesturkjördæmis og fyrrum ráðherra og varaformaður flokksins. Hún myndi gegna embætti formanns þingflokksins með sóma. Þórdís Kolbrún hefur sýnt það að hún getur lyft sér upp á hærra plan en gengur og gerist í þinginu og eftir því var tekið að hún flutti langbestu ræðuna af öllum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þannig að margir stóðu orðlausir eftir og spurðu sig hverju það sætti að flokkurinn væri að missa þessa konu úr fremstu forystu. Með því að taka að sér formennsku í þingflokknum héldist Þórdís Kolbrún þó í mikilvægu forystuembætti í flokknum og gæti gert gagn þar sem aðrir gera nú ógagn.
Orðið á götunni er að þeir sem töpuðu á landsfundinum muni seint skipa sér í sveit með núverandi formanni. Þeir eru vanir að hafa völdin og eiga mjög erfitt með að una við aukahlutverk og valdaleysi. Hermt er að þeir séu þegar farnir að huga að næsta landsfundi og undirbúa framboð á móti Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Alls ekki er víst að þá verði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur teflt fram enda hefur hún einatt tapað í átökum innan flokksins.
Flokkseigendur hugsa sitt og fróðlegt verður að sjá útspil þeirra vorið 2027 eða haustið 2027, verði landsfundur ekki haldinn fyrr en þá. Þá verður tekist á um stöðu flokksins og árangur eða árangursleysi eftir þau valdaskipti sem urðu á landsfundi fyrir rúmum mánuði. Þá verður horft til þróunar fylgis í skoðanakönnunum, til úrslita í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, einkum í Reykjavík, og þess hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla um samninga við ESB fór. Væntanlega verður meirihluti sjálfstæðismanna þá þversum á móti þótt þjóðarvilji kunni að sýna allt annað.
Orðið á götunni er að afgerandi svekkelsi stjórnarandstöðunnar hafi einkennt störf Alþingis undanfarnar vikur. Málþóf, tafaleikir og almennur bjánaskapur er stjórnarandstöðunni ekki til sóma og mun engu skila henni öðru en því að þurfa að þrefa lengur en ella á þingfundum. Ríkisstjórnin mun halda sínu striki og afgreiða þau mál sem hún vill afgreiða. Ef nýr formaður Sjálfstæðisflokksins nær ekki að lyfta sér á hærra plan en verið hefur í þinginu að undanförnu er ekki von á góðu.
Orðið á götunni er að sægreifar, aðrir flokkseigendur og Morgunblaðið hafi allt of lengi stýrt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og beitt þeim í hagsmunapoti sem hefur skaðað flokkinn og komið honum í þá stöðu að vera nú utan valda í ríkisstjórn og borgarstjórn Reykjavíkur á sama tíma. Það hefur ekki gerst oft í sögunni. Verkefni Guðrúnar Hafsteinsdóttur er að rífa flokkinn upp úr þessu fari og sýna sjálfstæðan vilja – jafnt utan þings sem innan. Hún hefur ekki langan tíma til þess.