fbpx
Mánudagur 07.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna

Eyjan
Sunnudaginn 6. apríl 2025 16:21

„Orphée charmant les bêtes sauvages avec sa lyre“ eða „Orfeifur heillar villidýrin með hörpuslætti sínum“. Verk þýska málarans Franz von Stuck frá árinu 1891.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forngríska goðsagan um Orfeif og Evridísi er saga af sambandi skáldskapar, ástar, dauða og ódauðleika. Orfeifi er lýst sem ákaflega heillandi garpi sem mun hafa leikið svo vel á hörpu og sungið svo fagurlega að áheyrendur tilbáðu hann sem guð. Sömuleiðis er sagt að hann hafi með rödd sinni einni tamið villidýr og tré og klettar lyfts af grundvelli sínum til að fylgja hljómnum frá hörpu hans.

Er hans fagra kona, Evridís, andast liggur Orfeifi við sturlun. Hann tekst á hendur ferðalag niður til Hadesarheima og með unaðslegum söng og hörpuslætti telur hann sjálfan undirheimaguðinn og eiginkonu hans, Persefónu, á að fá að leiða Evridísi aftur til heims ljóssins en með því skilyrði að hann liti ekki undan. Altekinn af kvíða yfir því að hún hefði dregist aftur úr lítur hann til baka, þá kominn á síðasta þröskuld til hins bjarta lífs. Þar með var Evridís í annað sinn hrifin til undirheima þaðan sem hún átti ekki afturkvæmt. Þýska tónskáldinu Gluck þóttu það raunar afleit málalok og í óperu hans kippir Eros í örlagaþræðina og sameinar elskendurna á nýjan leik. Meistari Megas tók sér ekki slíkt skáldaleyfi heldur orti um eftirsjá Orfeifs:

Hún var falleg og hún var góð,

hún var betri en þær

og þegar hún sefur við síðuna á mér

þá sef ég góður og vær.

Orfeifur hafnaði nefnilega blíðu annarra kvenna, Evridís var betri en þær, og þær náðu sér niðri á honum með því að rífa hann í tætlur. Höfuð hans söng samt enn þó leyst væri frá búknum. Það var loks grafið í klettaskarði einu á eynni Lesbos þar sem síðar var véfrétt.

Franski rithöfundurinn Maurice Blanchot segir í frægri grein sinni „Le regard d’Orphée“ eða „Augnarráði Orfeifs“ að goðsagan sé myndlíking um þá kröfu skáldskaparins að skáldið skilji sig frá umheiminum. Við listiðkun þurfi að fórna sér fyrir verkið og sönn listaverk lifi listamanninn, líkt og rödd Orfeifs. En sjálfur lauk Orfeifur ekki ætlunarverkinu — hann helgaði sig ekki nógsamlega þeim guðlegu fyrirmælum sem honum voru gefin og Evridís gekk honum úr greipum.

Göfugri trú en hin fyrri

Eftir því sem forngrískri siðmenningu vatt fram dró úr átrúnaði á hina breysku himnaguði og hvers kyns launhelgar urðu þeim mun meira áberandi, þar sem dularfull tákn og helgisiðir voru um hönd hafðir. Þar var minnst þjáningu, dauða og upprisu einhvers guðs og með tíð og tíma urðu launhelgar tengdar Orfeifi öðrum yfirsterkari — líklega fyrir austræn áhrif. Dýrkendur Orfeifs trúðu því að sálin héldi eftir dauðann niður til Hadesarheima til að hljóta dóm frammi fyrir undirheimaguðunum. Þarna eru þegar komnar fram hugmyndir um hreinsunareld og syndaaflát. Platón lýsir raunar á einum stað í Ríkinu andstyggð sinni á aflátssölu, andstyggð sem er engu minni en sú sem Lúther hafði á ámóta iðju kaþólsku kirkjunnar.

Orfeifskan setti mönnum ströng hátternisboð — hún var á þann hátt göfugri en lausung og frjálsræði sem einkennt hafði gömlu guðina. Þarna komu fram meinlætamenn sem lifðu eftir ströngum siðaboðum sem við sjáum síðar aftur birtast í klausturlifnaði kirkjunnar. Æði margt í kristnum sið á sér þannig djúpar rætur í vestrænni menningu.

Ekki eins og hver önnur lífsspeki

Norska nóbelsskáldið Jon Fosse snerist til kaþólsku fyrir rúmum áratug en hann hefur látið svo um mælt að mótmælendur hafi fjarlægt hið dulræna og ljóðræna úr trúnni. Þar með hefði texti ritningarinnar glatað hluta af merkingu sinni. Frásagnir Biblíunnar þurfi að lesa sem myndlíkingar og trúartilfinningin verði að vera dulræn. Þetta er skarplega athugað í því samhengi að kristin trú er dulhyggjutrú friðþægingar, vonar og endurlausnar.

Á okkar dögum fá menn sjaldast svalað miklum trúarhita í sunnudagsguðsþjónustu íslensku þjóðkirkjunnar og leita því annað sem leiðir þá oft á glapstigu. Stundum hef ég á tilfinningunni að margir prestar trúi hreinlega ekki á pínu Krists, fórnardauðann og upprisuna — þeir boði bara kristni eins og hverja aðra lífspeki (og stundum varla það). Einar Baldvin Árnason listmálari gerði þetta að umtalsefni í grein á Vísi nýverið og komst svo að orði að ekki mætti draga kristnina „niður í svað samtímans og hinna veraldlegu raka“. Þar er vel að orði komist, veraldlegir mælikvarðar verða ekki lagðir á hið andlega og höfum í því samhengi hugfast að trúleysið í okkar samtíma er afsprengi útlegginga mótmælenda — að hægt sé að velja sér trú, trúa á alheimsanda, ellegar trúa alls ekki.

Sem þjóðkirkjumaður er ég þó ekki fyllilega sammála Fosse þegar hann segir mótmælendatrúna of fjarri hinu dulræna og ljóðræna. Fjarlægðin sem hann lýsir held ég að sé fremur einkenni hnignandi þjóðkirkna í norðanverðri álfunni og daprari trúarskilnings. Þegar kristnin kemur fram í Rómaveldi voru hin gömlu trúarbrögð úrkynjuð og úr sér gengin, hofprestar spilltir af hvers kyns óeðli og musterin í niðurníðslu. Himnaguðirnir veittu rómverskum borgurum ekki andlega svölun. Kristnin færði þá nær svörum um ást, dauða og ódauðleika, en þá sem nú getur slíkt ekki orðið nema fyrir hið dulræna og ljóðræna, því almættinu verður hvorki lýst né það fangað af nokkurri vísindalegri nákvæmni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Enginn treystir Trump

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu
EyjanFastir pennar
07.03.2025

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður
EyjanFastir pennar
02.03.2025

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna