Það er engum vafa undirorpið að frjáls verslun og öflug alþjóðaviðskipti hafa stuðlað að þeim góðu lífskjörum sem Íslendingar búa við. Og þar er undirstaða allra framfara þeirra komin. Opið hagkerfi – og afneitun einangrunar og nesjamennsku – hefur gert Ísland að einu ríkasta landi heims.
Þessi sannindi skipta sköpum í tilviki smárra hagkerfa, þar sem þau eru ekki sjálfum sér nóg í sama mæli og stór hagkerfi, og treysta því yfirleitt meira á milliríkjaverslun en tíðkast hefur í fjölmennustu þjóðlöndunum á kringlu jarðar. Það er því afar brýnt fyrir smá og meðalstór fyrirtæki í fámenninu að leita að alþjóðlegum viðskiptatækifærum, til að vaxa og ná stærðarhagkvæmni í framleiðslu, og styrkja bönd sín við stórmarkaðina beggja vegna Atlantsála, og raunar í hvaða álfu sem er.
Faðir hagfræðinnar lagði línurnar í þessum efnum, sjálfur Adam Smith, sem hafði á orði að ef annað land gæti séð okkur fyrir vöru á lægra verði en við getum sjálf framleitt hana, ættum við að kaupa hana af þeim með hluta afurða okkar sem út af stendur. Það héti hagkvæmni. Það kæmi fólki og fyrirtækjum best. Og hvorir tveggja, kaupandinn og seljandinn, högnuðust ríkulega.
Donald Trump er trúður hagfræðinnar. Það sanna gjörðir hans í vikunni. Hann fer þveröfuga leið en allir helstu fræðimenn í hagfræði hafa talað fyrir frá því Adam Smith var uppi á átjándu öld.
Bandaríkjaforseti hefur afráðið með tollastríði sínu að draga úr framleiðni og viðskiptum. Það verða allir fátækari fyrir vikið, hagvöxtur skreppur saman og hlutabréfaverð hrynur. Tollar eru nefnilega réttilega nefndir viðbótarskattar – og hafa aldrei virkað fyrir lífskjör almennings.
„Heimssagan tekur það ótvírætt fram að þjóðlönd sem hafa lokað sig af með tollum og verndarstefnu hafa yfirleitt orðið undir í samkeppni.“
Í tilviki Íslendinga mun ákvörðun Bandaríkjastjórnar hafa talsverð áhrif á útflutningsdrifið smáríki sem reiðir sig á opið og stöðugt alþjóðlegt viðskiptaumhverfi. Tollar vesturheimskra munu auka verð á íslenskum vörum þar í landi, og draga þess utan úr ferðaþjónustu sem er einmitt sérlega viðkvæm fyrir alþjóðlegum niðursveiflum.
Heimssagan tekur það ótvírætt fram að þjóðlönd sem hafa lokað sig af með tollum og verndarstefnu hafa yfirleitt orðið undir í samkeppni. Argentína er sláandi dæmi – eitt ríkasta land heims um 1900, en misvitrir leiðtogar þess fóru leið tollverndar, íhlutunar og einangrunar á síðustu öld. Svo mikilvægt þótti þeim fullveldið vera. Þeir gætu þetta einir – og væru engum háðir. Niðurstaðan var tap á samkeppnishæfni og framleiðni, svo og stöðug hnignun. Aftur á móti fóru ríki eins og Suður-Kórea, Taívan og Kína þá leið að opna hagkerfi sín, byggja upp útflutningsdrifna nýsköpun og styrkja samkeppnisstöðu sína. Þau lönd hafa náð miklum framförum á meðan Argentína hefur staðið í stað.
Íslenskir hægrimenn, sem seinni árin tala gegn nánara samstarfi við Evrópulöndin, vita manna best að eftir því sem tryggðaböndin eru treyst við útlönd, vex hagur Íslendinga. Ekki eru nema tuttugu ár frá þeir tóku saman orð í þá veru á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál, en þar segir harla afdráttarlaust: „Undanfarinn áratug hefur Ísland siglt hraðbyri í frjálsræðisátt. Fjármagnsflutningar hafa verið gefnir frjálsir, skikki komið á ríkisfjármálin og skuldir greiddar, ríkisfyrirtæki einkavædd, skattar á fyrirtæki lækkaðir og rammi hagstjórnar er orðinn eins og best verður á kosið. Á minnsta kosti einu sviði hefði þó mátt ganga hraðar fram – á vettvangi alþjóðaviðskipta.“
Undir þetta rita Tryggvi Þór Herbertsson, Halldór Benjamín Þorbergsson og Rósa Björk Sveinsdóttir.
Þau undirstrika, eins og aðrir sem gerst þekkja til hagsældar, að alþjóðavæðing Íslands hratt af stað ferli sem sennilega á sér enga hliðstæðu í sögunni. Í einni sviphendingu varð grundvallarbreyting á kjörum og viðskiptaumhverfi Íslendinga sem áttuðu sig loksins á því að þeir höfðu ekkert grætt á innantómu fullveldi sínu, heldur sæktu þeir hraðast fram í nánu samstarfi við önnur þjóðríki.