Heildarendurskoðun verður að gera á Menntasjóði námsmanna vegna þess að reynslan hefur sýnt að hann stendur ekki undir því að vera félagslegur jöfnunarsjóður, eins og stefnt var að. Háir vextir undanfarin ár hafa gert það að verkum að styrkirnir sem áttu að vera ávinningur frá gamla kerfinu eru það í raun ekki. Gamla kerfið hefði verið hagstæðara. Þessu verður að breyta. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Logi Einarsson - 3
„Við gerðum grundvallarbreytingar á Menntasjóðnum árið 2019. Núna, sex árum síðar, liggur það fyrir og kom fram í skýrslu sem var gefin út fyrir einu eða tveimur árum síðan að sjóðurinn stendur ekki undir því markmiði að vera félagslegur jöfnunarsjóður,“ segir Logi.
Hann segir fara fækkandi þeim nemendum sem treysta sér til að taka lán þar og jafnvel séu vísbendingar um að þau sem eigi hvað veikasta baklandið geri það enn síður en aðrir. „Við réðumst strax núna í að gera nokkrar breytingar á honum til þess að lina líka erfiðleika þeirra sem hafa lent í þessum ofurháu vöxtum sem við erum búin að búa við hérna í tvo eða þrjú ár, en við boðum líka heildarendurskoðun á Menntasjóðnum með það fyrir augum að gera hann að félagslegum jöfnunarsjóði.“
Hann segist vera þeirrar skoðunar að þeir sem vilja eigi að hafa tækifæri á því að helgi sig náminu. „Þú átt að geta verið í námi í 3-5 ár og helgað þig því. Í dag er það nánast ómögulegt og mér finnst það leiðinlegt.“
Það má færa rök fyrir því að þjóðfélagið tapi á því að fólk sé að taka sér of langan tíma í að ljúka háskólanámi.
„Algerlega, og í gamla frumvarpinu, núverandi frumvarpi sem var samþykkt 2019, eru reyndar ágætis hvatar til þess að fólk sýni framvindu í námi …“
En það er, eins og þú bendir réttilega á, þeir hvatar – það hefur verið gagnrýnt í mín eyru að þeir hvatar hafi ekki náð utan um þennan félagslega jöfnuð sem á að felast í sjóðnum.
„Nei, ekki að öllu leyti. Við gagnrýndum það reyndar á sínum tíma, þegar verið var að samþykkja þessi lög, að þau tóku mið af þeim veruleika sem var þá, árið 2019, þegar vextir voru sögulega lágir. Þeir voru ekki lágir vegna þess að menn væri búnir að ná alveg stöðugleika í efnahagsmálum á Íslandi um aldur og ævi heldur vegna þess að það lokaðist allt samfélagið. Það hefur gert það að verkum að lánin, eins og þau eru núna, þeim er skipt upp í 30 prósent styrki, ef þú sýnir góða námsframvindu, og 70 prósent lán. Styrkirnir, sem áttu að vera ávinningur, eru það ekki vegna þess að þessir ofurháu vextir, sem hafa verið síðustu árin, hafa í rauninni gert þetta óhagkvæmara en gamla fyrirkomulagið sem við þekkjum þar sem var bara langur fyrirsjáanleiki, lágir fastir vextir, en allt var lán.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.