Lestin á Rás 1 hefur undanfarið fjallað um svokallaða konungssinna í Kísildal Bandaríkjanna, stóra aðila innan tæknigeirans sem telja að lýðræðið sé komið á endastöð og að taka þurfi aftur upp einveldi. Í þættinum í dag var rætt við Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um Trump, frjálshyggju og hægristefnuna.
Ein ummæli Hannesar vöktu sérstaklega athygli Gunnars Smára Egilssonar, ritstjóra Samstöðvarinnar, en Hannes rakti þar aðferð pólitíkurinnar að búa til óvin og freista þess að fylkja kjósendum gegn þessum óvini.
„Og þetta gera vinstrimenn með sægreifunum. Sægreifarnir hér gegna hjá vinstrimönnum sama hlutverki eins og Gyðingar hjá nasistum. Vondu mennirnir sem þarf að klófesta peningana frá. Sem betur fer er nú ekki verið að reka þá inn í gasklefa en þetta er sama hugtakið – að búa til óvin og reyna eins og þú getur að sameina fólk gegn þessum óvini.“
Gunnar Smári trúði vart eigin eyrum þegar hann heyrði þetta og skrifaði á Facebook: „Hannes Hólmsteinn er í útvarpinu mínu að líkja íslenskum sægreifum við þýska gyðinga, að þeir séu ofsóttir af vinstri m önnum á sama hátt og gyðingar voru ofsóttir af nasistum.“
Hannes fór að venju mikinn gegn vinstrimönnum, sem stundi það margir að tala niður sínar eigin þjóðir og virðast ekki vera sáttir með sjálfa sig.
„Vinstrið er algjörlega hugmyndasnautt og þurrausað og það eina sem það getur gert það er að nöldra. Vinstrimenn eru menn sem líður illa. Vinstrimenn eru menn sem horfa í spegil og segja: Mér líkar ekki það sem ég sé. Hægrimenn eru menn sem horfa í spegil og segja: Mér líkar það sem ég sé. Það er eflaust dálítið dónalegt að segja þetta, en núna lifum við á algjörri gullöld þannig að það er eitthvað fráleitt við það að fara að reyna að breyta heiminum eins og vinstrimenn vilja gera.“
Eins tali þeir fyrir stjórnlyndi og vilja skattpína almenning til að fjármagna meint góðverk sín.
„Minn góði vinur, Milton Friedman, sem ég hitti oft á meðan ég var gestafræðimaður í Stanford, hann sagði að ellefta boðorðið ætti að vera: Þú skalt ekki gera góðverk sín á kostnað annarra. En það er þetta ellefta boðorð sem er brotið af flestum vinstrimönnum. Þetta eru félagslegu frjálshyggjumennirnir.“
Svo séu það íhaldssamir frjálshyggjumenn sem leggi áherslu á einkaeign, frjáls alþjóðaviðskipti og að takmarka ríkisvaldið. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sé bara með eitt af þessu þrennu – einkaréttinn. Hann sé á móti frjálsum alþjóðaviðskiptum og á móti valddreifingu.
„Hann er hins vegar ekki fasisti eins og margir vinstrimenn telja. Það er algjör einföldun á hugtakinu fasisma, að telja hann fasista.“
Trump hafi hafnað mörgum grunnkenningum hefðbundna hægrisins. Hann vill nálgast rekstur ríkisins eins og fyrirtækjarekstur.
„Það eigi að reka Bandaríkin eins og eitt stórt fyrirtæki og það eigi að hámarka hagnað þessa fyrirtækis. Og ef þið lesið bók hans, The Art of the Deal, sem auðvitað draugaskrifari samdi eftir forsögn hans sjálfs, þá sjáið þið alveg að það er allt það sem hann er að gera núna. Hann er að nota samningatækni sem menn nota stundum í samningum.
Það sem hann gerir er að gera ýtrustu kröfur og þreyta andstæðinginn og jafnvel niðurlægja hann, lítillækka hann og varpa honum út í horn. Og síðan kemur hann og býður samning, miklu betri en sá sem andstæðingurinn, keppinauturinn eða viðskiptavinurinn hélt að kæmi. Þannig að hann leikur tvo leiki og allir þekkja þetta úr bíómyndum – hann er annars vegar tough cop og hins vegar soft cop.“
Hannes tekur fram að stéttabaráttan í dag sé svo ekki barátta á milli fjármagns og hinna vinnandi stétta. Þetta sé nú barátta milli talandi stétta og vinnandi stétta. Þeirra sem eyða peningum annarra og þeirra sem skapa verðmætin. Líklega séu allir hlustendur Lestarinnar úr talandi stéttinni og Hannes segir fræðimenn við háskólana tilheyra stéttinni líka. Þetta sé hópur fólks sem elskar ekkert meira en að halda fundi.
„Þeir hafa gaman af að sitja á löngum fundum, og fundirnir eru því betri sem þeir eru bæði lengri og fleiri á þeim. Og um hvað eru þessir fundir? Þeir eru alltaf um það hvernig skuli eyða þeim peningum sem tekst að klófesta frá almenningi, fólkinu sem nuddar stírurnar úr augnum þegar það er að bíða eftir strætó í Breiðholti og er að fara í einhverja verskmiðju að vinna og er síðan að greiða 30-40% af sínum tekjum í skatt.“
Sjálfur lítur Hannes á sig sem uppreisnarmann þó að hann eigi tæknilega að teljast til talandi stéttarinnar.
„Ég er nú eins og alþjóð veit, góður vinur hans Davíðs Oddssonar, og hann leit alltaf svo á að hann væri liðsmaður alþýðunnar, skattgreiðenda og neytenda gegn þessum hrokafullu háskólagaurum sem voru alltaf að reyna að maka krókinn á kostnað annarra. Þetta var svona okkar hugmynd um okkur sjálfa hér í gamla daga þegar við beittum okkur fyrir öllum þessum breytingum sem urðu á Íslandi upp úr 1991, að við værum að flytja valdið frá embættismönnum og atvinnustjórnmálamönnum yfir til almennings.“
Trump sé að reyna einmitt það – að taka völdin frá embættismönnum og fína fólkinu sem stöðva allar framfarir. Trump átti sig þó ekki alveg á því að hann geti ekki rekið ríkið alveg eins og fyrirtæki og að það þurfi að setja valdi skorður og fara eftir sérstökum leiðum. En Hannes telur þó ekki að um einræðistilburði sé að ræða. Trump sé bara í kjarnann fasteignasali og það ráði för hans í embætti forseta.