Það var Graydon Carter, 75 ára fyrrum ritstjóri Vanity Fair, sem skrifaði grein um Trump fyrir GQ árið 1984. Hann fylgdi Trump eftir í þrjár vikur til að kortleggja hann en Trump var allt annað en sáttur við afraksturinn. Carter skýrði frá þessu í viðtali við MSNBC.
„Það voru nokkur atriði sem honum líkaði ekki við, þar á meðal sú staðreynd að ég sagði að það væri eins og hendurnar hans væru of litlar fyrir líkamann. Honum líkaði þetta alls ekki, hann var ánægður með forsíðuna en ekkert annað. Hann lét því starfsfólkið sitt kaupa hvert einasta eintak sem það fann í blaðsölustöndum í New York,“ sagði Carter.
Í greininni fjallaði Carter um útlit Trump og sagði meðal annars: „188 cm á hæð, grannur en vel nærður. Litlar hendur sem eru vel hirtar. Jakkafötin eru blá og falleg.“
Skrif hans um handastærð Trump gleymdust ekki og má í því sambandi nefna að þegar Marco Rubio, núverandi utanríkisráðherra, atti kappi við Trump 2016 um að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, nýtti hann sér þetta gegn Trump og sagði: „Þið vitið hvað er sagt um menn með litlar hendur – þú getur ekki treyst þeim.“