Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, er launahæsti bæjarfulltrúi sveitarfélagsins. Á síðasti ári var hún með 16.852.320 krónur í laun setu í bæjarstjórn og hinum ýmsu ráðum og nefndum. Mbl.is greindi fyrst frá en upplýsingarnar koma fram í fundargerð frá síðasta fundi bæjarráðs Kópavogs.
Vekur nokkra athygli að bæjarfulltrúi í minnihlutanum sé með hæstu launin en það helgast af því að auk bæjarstjórnar situr Sigurbjörg Erla í bæjarráði, menntaráði, skipulagsráði, velferðarráði, öldungarráði og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins.
Meðallaunin hjá bæjarfulltrúunum voru hátt í 11 milljónir króna á ári. Eins og sjá var Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, launalægsti bæjarfulltrúinn en rétt er að benda á að auki er hún með ráðningasamning við Kópavogsbæ sem bæjarstjóri.
Talsverður styr hefur staðið um launakjör bæjarfulltrúa síðustu vikur. Í byrjun apríl var samþykkt sú hagræðingartillaga meirihlutans að lækka laun bæjarfulltrúa um 10 prósent á línuna og gagnrýndi minnihlutinn það harðlega að sú lækkun yrði aðeins tekin af bæjarstjórnarlaunum Ásdísar en ekki ráðningasamningi hennar sem bæjarfulltrúa.