Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunar í Neskaupstað, hefur sent frá sér þriggja vasaklúta grátskýrslu um þær hörmungar sem hann heldur fram að bíði fyrirtækisins þegar veiðileyfagjöld hafa verið hækkuð um 10 milljarða á allan sjávarútveginn eins og ríkisstjórnin boðar. Sægreifar hafa staðið fyrir trylltum áróðri vegna þessa og samtök þeirra reka nú rándýra auglýsingaherferð sem hefur vægast sagt farið öfugt ofan í landsmenn. Nú um helgina skoruðu sægreifarnir tilþrifamikið sjálfsmark með því að fá einn leikaranna úr norsku Exit-þáttunum til að leika í rándýrri auglýsingu, sem ekki gerir annað en að draga sérstaklega fram hversu mikla fjármuni þeir hafa til að bera sérhagsmunaáróður sinn á borð fyrir landsmenn.
Gunnþór segir í grátskýrslu sinni að þeir muni þurfa að segja upp fólki og endurskipuleggja reksturinn þegar veiðileyfagjöldin hafa verið hækkuð. Hér er um að ræða greiðslu fyrir afnot af eign sem sjávarútvegurinn á ekki, heldur íslenska þjóðin. Um frádráttarbæran rekstrarkostnað er að ræða en forstjórinn reynir að beita sömu blekkingum og aðrir sægreifar og talar um skatta og skattahækkun þegar um frádráttarbæran rekstrarkostnað er að ræða. Þetta er lýsandi dæmi um þann falsáróður sem sjávarútvegurinn velur að beita um þessar mundir.
Síldarvinnslan hefur verið eitt arðsamasta fyrirtæki landsins um árabil og hefur skilað gífurlegum hagnaði á hverju einasta ári, allt upp í 10 milljarða króna eftir skatta. Arðgreiðslur til hluthafa hafa verið myndarlegar, fjármunamyndun í fyrirtækinu mikil og unnt hefur verið að endurnýja skipaflota og aðrar eignir af miklum myndarskap án þess að það hafi íþyngt fyrirtækinu. Allt gott er um það að segja. En þegar forstjórinn leggur út í áróður af því tagi sem grátskýrsla hans er verður ekki hjá því komist að minna á að samhliða myndarlegum fjárfestingum inni í fyrirtækinu hefur Síldarvinnslan leikið sér að því að kaupa upp heilu fyrirtækin og þau ekki af smærri gerðinni. Má þar nefna Vísi, Grindavík, sem keyptur var af fyrri eigendum fyrir 18 milljarða.
Eigendur Vísis voru einkum fjölskylda, kvótaerfingjar, sem seldi fyrirtækið í heild með skipum, vélum tækjum og húsakosti – en þó var mesta söluverðmætið fólgið í fiskveiðikvóta sem Vísir hafði aðgang að en átti ekki. Íslenska þjóðin á fiskinn í sjónum en ekki fyrirtækin sem fá tímabundin afnot að fiskimiðunum með úthlutun veiðikvóta. Hér er um að ræða enn eitt dæmið um það þegar tímabundnar fiskveiðiheimildir eru seldar eins og eign á milli aðila. Síldarvinnslan keypti einnig eignir og fiskveiðiheimildir frá Berg-Huginn í Vestmannaeyjum og eins frá Seyðisfirði fyrir milljarða í hvoru tilviki. Gunnþór gerir mikið úr því í skýrslu sinni að lífeyrissjóðir eigi hluti í fyrirtækinu en lætur þess ógetið að langstærsti hluthafinn er Samherji sem fer með ráðandi hlut í Síldarvinnslunni ásamt nánum viðskiptafélögum sínum.
Orðið á götunni er að sægreifar Íslands vanmeti þjóðina og haldi að hún sé svo heimsk að sjá ekki í gegnum blekkingar og falsáróður þeirra. Auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem gengur út á að allt gott í einstökum byggðarlögum komi frá sjávarútvegi sem allt byggist á. Ekki þarf að gera lítið úr mikilvægi atvinnugreinarinnar en á vinnubrögðum hennar eru því miður einnig ljótar skuggahliðar. Bubbi Morthens vandar þeim ekki kveðjur og kallar sægreifa „ofsa ríka yfirstétt“ sem hafi lagt af stað í herferð „til að villa um fyrir landsmönnum.“ Hann bendir á að þeir séu komnir með ítök langt út fyrir útgerð og fiskvinnslu. Bubbi segir: „Stórútgerðin hefur ryksugað upp kvótann í þorpi eftir þorp og skilið eftir sviðna jörð.“
Það er einmitt kjarni máls. Fiskveiðistjórnunarkerfi er nauðsynlegt til að vernda fiskistofna þjóðarinnar í sjónum kringum landið. En eftir að Framsóknarflokkurinn hafði forgöngu um það á sínum tíma að framsal kvóta var gert mjög aðgengilegt nýtti stórútgerðin sér það grimmilega til að „ryksuga“ upp veiðiheimildir frá byggðarlögum hringinn í kringum landið og skildi mörg þeirra eftir í sárum. Það er nú öll manngæskan sem nú er verið að verja miklum fjárhæðum til að auglýsa upp í fjölmiðlum. Auðvitað átti þetta ekki að fara svona en stjórnvöld og löggjafinn hafa ekki gripið inn í til að sporna gegn þessari öfugþróun og stórútgerðin hefur gengið á lagið.
Orðið á götunni er að mörgum hafi brugðið í brún þegar vefmiðillinn Miðjan birti nýlega lista yfir 28 byggðir sem hafa farið illa út úr framsali kvóta sem áður tilheyrði þessum byggðum. Stórútgerðin hefur keypt kvóta burt úr byggðunum og kjör fólksins hafa verið skert. Listinn mun þó ekki vera tæmandi:
Akranes, Tálknafjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Ísafjörður, Hólmavík, Hvammstangi, Skagaströnd, Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Reyðarfjörður, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Djúpivogur, Stokkseyri, Eyrarbakki, Þorlákshöfn, Sandgerði, Reykjanesbær, Vogar, Hafnarfjörður.
Á mörgum þessara byggðarlaga eiga íbúarnir um sárt að binda eftir að lífsbjörgina hvarf frá fólkinu í greipar stórútgerðarinnar. Með blekkingarleik sínum gera Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (vel að merkja hétu þau áður LÍU en skiptu síðan um nafn og kennitölu til að milda ásýnd sína) ekki annað en að snúa hnífnum í sári allra þeirra sem hafa farið illa út úr þessari þróun.
Orðið á götunni er að viðbrögð sægreifa einkennist af frekju, hroka, græðgi og yfirgangi. Þjóðin stendur með áformum ríkisstjórnarinnar og víst er að hún hefur nægan stuðning til að koma áformum sínum í framkvæmd. Reyni stórútgerðin að beita hótunum og þvingunum eru ýmsar leiðir færar til að svara því. Hafa verður í huga að fiskveiðiheimildir eru eign þjóðarinnar og afnotaréttur tímabundinn. Ef þörf krefur er unnt að breyta reglum um úthlutun kvóta og það verður gert ef stórútgerðin treystir sér ekki til að starfa af heilindum í kerfinu eftir þær breytingar sem fram undan eru.