fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Eyjan
Sunnudaginn 27. apríl 2025 16:30

Kvöldið fyrir próf. Olímálverk rússneska málarans Leonid Osipovich Pasternak (föður skáldsins Boris Pasternak). Myndin er frá árinu 1895 og varðveitt á Musée d‘Orsay í París.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjólfur Bjarnason, einn helsti leiðtogi íslenskra sósíalista á tuttugustu öld, var menntamálaráðherra í Nýsköpunarstjórninni sem tók við völdum haustið 1944. Þá voru starfandi tveir menntaskólar hér á landi. Umsækjendur um skólavist þurftu að þreyta inntökupróf, en aðeins takmarkaður fjöldi fékk inngöngu. Til undirbúnings prófunum var ekki eiginlegt skólanám heldur sóttu menn gjarnan tíma hjá einkakennurum svo börn efnafólks höfðu forskot til náms.

Fyrir forgöngu Brynjólfs voru sett ný fræðslulög 1946 þar sem innleitt var landspróf miðskóla sem var samræmt próf á landsvísu sem veitti inngöngu í menntaskólana tvo og Kennaraskólann, að tilskilinni lágmarkseinkunn, 6,00. Landsprófsgreinar voru íslenska, danska, enska, landafræði, náttúrufræði, stærðfræði og eðlisfræði.

Með nýju fræðslulögunum var komið á fót landsprófsdeildum við gagnfræðaskóla og héraðsskóla og prófin þreytt samtímis um land allt. Mikið var lagt upp úr samræmi við undirbúning fyrir prófin á landsvísu og yfirferð í höndum nefndar óháðrar skólunum svo sama mat yrði lagt á úrlausnir nemenda hvarvetna.

Að búa fólki jöfn tækifæri

Líklega er tilkoma landsprófs stærsta skref sem stigið hefur verið hér á landi til aukins jafnræðis í námi óháð búsetu og efnahag; stúdentum stórfjölgaði á næstu árum án þess að dregið væri úr kröfum til nemenda. Mér eru kunnar ótal sögur af fólki víðs vegar að af landinu sem hafði til að bera námsgáfur og dugnað og gat í krafi landsprófsins komist til framhaldsnáms en hefði ekki getað ella. Þetta á raunar við um ýmsa af okkar fremstu menntamönnum á síðari hluta tuttugustu aldar. Samfélagið auðgaðist stórum af því að fólk fengi ræktað hæfileika sína — enda æðsta takmark sérhvers samfélags að sem flestir komist til sem mests þroska.

Árið 1977 leystu samræmd próf landspróf af hólmi sem tæki til að meta nemendur til inngöngu í menntaskólana, en þau voru þreytt í íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði. Þau voru allir látnir undirgangast, ekki einasta þeir sem hugðu á bóknám. Ég tel að hér hafi að einhverju marki orðið afturför, því ekki er rétt að leggja sama bóknámsmælikvarðann á alla nemendur. Alvarlegustu mistökin voru þó gerð löngu síðar í menntamálaráðherratíð Katrín Jakobsdóttur þegar samræmd próf voru hreinlega aflögð sem mælitæki til inngöngu í framhaldsskóla.

Síðan þá hefur orðið hrun í námshæfni íslenskra ungmenna samkvæmt þeim prófum sem Efnahags- og framfarastofnunin leggur fyrir reglulega (en við höfum engar aðrar samræmdar mælingar). Í stað almennra prófa sem hlutlægs mælikvarða hafa verið tekin upp huglæg viðmið sem virka ekki betur en svo að algengt er að ungmenni brautskráist með vitnisburð sem á að jafngilda ágætiseinkunn en viðkomandi kann samt ekki skil á þeim grundvallaratriðum sem til er ætlast. Sama hefur átt sér stað í mörgum framhaldsskólum, þar sem prófum hefur verið ýtt til hliðar við námsmat og sem dæmi má nefna er algengt að nemendur brautskráist með stúdentspróf en séu ófærir um að koma frá sér sómasamlegum texta á íslensku.

Hvernig sem á það er litið blasir við að skýrari og almennari mælikvarða skortir í bóknámsgreinum, jafnt í grunnskólum sem framhaldsskólum. Kennarinn getur ekki að öllu leyti verið dómari í eigin sök — utanaðkomandi prófdómarar verða að koma að málum.

Rökleysur ráðherrans

Nýr menntamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, var gestur í hlaðvarpsþætti Ólafs Arnarsonar blaðamanns hér á þessu miðli fyrir nokkrum dögum og fór mikinn um gildi jafnræðis til náms en lét í sömu andrá svo um mælt að samræmd próf væru tímaskekkja. Orðrétt sagði ráðherrann: „Það á alls ekki að fara aftur í fortíðina vegna þess að fortíðin er búin. Við verðum að horfa til framtíðar. Staðan í menntamálum og öðru, kröfurnar eru bara allt aðrar en þær voru áður.“

Þetta skýrir ráðherrann ekki frekar, en það er ekki sjálfstæð röksemd að eitthvað sé úrelt af því að það hafi verið „notað í fortíðinni“ og „fortíðin sé búin“. Óboðleg röksemdafærsla hjá ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem er í ofanálag í mótsögn við sjálfan sig. Vitaskuld hafa orðið miklar þjóðfélagbreytingar frá því að fræðslulögin voru samþykkt 1946 og þess sést stað í kennsluháttum. Þær hafa samt ekki í neinu haggað gildi samræmdra óháðra mælinga á getu nemenda.

Ekkert fær haggað mikilvægi prófa

Fátt er nýtt undir sólinni og menn hafa lengi deilt um gagnsemi prófa. Á hinum Norðurlöndunum urðu til próflausir alþýðuskólar á ofanverðri nítjándu öld og þeirrar hreyfingar sáust merki hér líka. Menn töldu prófin ekki mælikvarða á raunverulega þekkingu nemendanna og þau trufluðu skólastarfið. Nemendur þyrftu „vinnufrið“ fyrir eilífum prófum.

Á móti koma þau rök að nemendur þurfi að finna að erfiði þeirra og viðleitni beri árangur og prófin eru, eins og framan nefndi, tæki til að meta framvindu nemenda — hvort þeir séu hæfir til áframhaldandi náms og þá á hvaða sviði. Hafi nemendur ekki yfirvofandi próf verður mun minna gagn af náminu en ella. Ég þekki það sjálfur sem kennari að nemendur bera minni virðingu fyrir námsgreinum þar sem lokapróf er ekki viðhaft eða fögum þar sem lokaprófin eru álitin fremur létt.

Fleiri röksemdir má tína til: Próf reyna á okkur líkt og hverjar aðrar þrautir og auka með mönnum sjálfstraust. Takist sæmilega upp verðum við ódeigari við að takast á hendur vandasamari viðfangsefni. Verði árangurinn lakari en menn vonuðust til hleypir það þeim kapp í kinn að taka sig á. Prófin leiða okkur líka í sannleik um eigin takmarkanir og jafnvel í sannleik um að við ættum að finna okkur önnur viðfangsefni.

Að komast til sem mests þroska

Nám krefst stöðugrar endurtekningar, upprifjunar. Tónlistarneminn þarf í sífellu að endurtaka sama hljómaganginn og íþróttamaðurinn sömu hreyfinguna. Að sama skapi þarf skólanemandinn að endurtaka efnið í sífellu og þá gagnast prófin til upprifjunar, sífelldrar upprifjunar, svo efnið festist honum í minni. Sé engin upprifjun í námi er það kák eitt.

Á okkar tímum eru ýmsar furðuhugmyndir ríkjandi um að ekki þurfi að leggja á minnið orð, reikniaðferðir og staðreyndir því öllu megi fletta upp á augabragði. Þetta eru örgustu öfugmæli því sönn menntun felst í því að hafa í minni sér forða þekkingar á ólíkum sviðum, fræðilegan grunn til að byggja á.

Próf gera það líka að verkum að nemandinn finnur ábyrgðina hvíla á sér. Hann þarf að standa á eigin fótum. Þetta er kannski þeim mun mikilvægara á tímum þegar börn og ungmenni eru gjarnan ofvernduð og fá ekki næg tækifæri til að þroska með sér ábyrgðartilfinningu. Gamalreyndur skólalæknir benti mér eitt sinn á að í prófatíð batnaði heilsufar nemenda, veikindadögum fækkaði. Þetta væri raunar fróðlegt rannsóknarefni.

En mest er um vert að almenn samræmd próf á landsvísu tryggja að allir nemendur fái setið við sama borð, að tryggt sé jafnrétti til náms og að sem flestir borgarar komist til sem mests þroska.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi
EyjanFastir pennar
26.03.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
22.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu