Ásmundur Friðriksson fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir forystu flokksins í Reykjanesbæ og segir hana hafa bolað sér í burtu af framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. Það hafi átt sinn þátt í að flokkurinn hafi misst eitt þingsæti í kjördæminu.
Ásmundur var fyrst kjörinn á þing fyrir Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum 2013. Hann vildi bjóða sig aftur fram í kosningunum 30. nóvember síðastliðinn en Sjálfstæðisflokkurinn afþakkaði að hafa hann á framboðslistanum í kjördæminu.
Ásmundur er búsettur í Reykjanesbæ og í nýlegu viðtali við Víkurfréttir lýsir hann yfir miklum áhuga á að bjóða sig fram í næstu bæjarstjórnarkosningum, sem eiga að fara fram eftir rúmt ár. Hann segir þó ekkert ákveðið í þeim efnum og það sé einnig mögulegt að hann bjóði sig fram í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og það hafi raunar verið rætt við hann. Hljóðið er almennt gott í Ásmundi í viðtalinu en þó ekki þegar talið berst að því að vera hans á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var afþökkuð. Ásmundur fer ekki í grafgötur með hverjir innan flokksins beri ábyrgð á því og hvaða áhrif hann telji þetta hafa haft á fylgi flokksins í kjördæminu:
„Það eru bæði hinn almenni sjálfstæðismaður og ekki síður fólk úr þverpólitísku umhverfi, hinn almenni bæjarbúi, sem hefur stutt mig frá því að ég fór á Alþingi. Minn styrkur liggur í stuðningi hins almenna kjósanda, sem yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þá þriðja sætinu og fyrsta þingsæti Suðurkjördæmis. Það gerðist eftir að forystan hér í bæ kom mér út af listanum og við töpuðum öruggu þingsæti. Þeir kjósendur sem réru þá á önnur mið, standa enn við bakið á mér og það fólk fylgir mér hvað sem ég geri.“
Ásmundur nefnir engin nöfn á því forystufólki Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem beitt hafi sér fyrir því að koma honum af listanum. Helsta forystufólk flokksins í bænum teljast væntanlega vera Margrét Sanders oddviti flokksins í bæjarstjórn og formenn flokksfélaganna í Reykjanesbæ, ásamt formanni fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í bænum. Umræddir formenn eru, samkvæmt heimasíðu flokksins, Sigurgeir Rúnar Jóhannsson, Einar Þór Guðmundsson, Guðbergur Reynisson og Logi Þór Ágústsson.
Í alþingiskosningunum 2021 fékk Sjálfstæðisflokkurinn um fjórðungsfylgi í Suðurkjördæmi og þrjá þingmenn, þar á meðal var Ásmundur.
Í kosningunum 2024 fór fylgið niður í 19,6 prósent og þingsætunum fækkaði í tvö.
Þrátt fyrir það sem á undan er gengið hefur Ásmundur haldið tryggð við Sjálfstæðisflokkinn og hafnaði umleitunum annarra flokka um að fá hann í framboð í Suðurkjördæmi. Hann tók síðan virkan þátt í kosningabaráttu Guðrúnar Hafsteinsdóttur í formannskjöri í flokknum. Það er því varla við öðru að búast en að fari Ásmundur fram í næstu sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ eða annars staðar á Suðurnesjum að það verði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.