Skilin milli hins raunverulega og þess skáldaða verða stöðugt bjagaðri. Á sama tíma breikkar gjáin á milli hópa, kynslóða og yfir landamæri. Ég hef verulegar áhyggjur af vangetu okkar til að bregðast við þessari þróun. Þar sem við erum öll blekkt án þess að átta okkur á því.
Við erum búin að koma okkur vel fyrir í okkar þægilegu bergmálshellum. Þar hjúfrum okkur undir hlýju og mjúku teppi og látum algríminn fóðra okkur á upplýsingum sem styrkja okkar eigin sannfæringu. Gagnrýnin hugsun fýkur út í veður og vind, dópamín-alsælan tekur við. Svo skrollum við áfram. Aftur og aftur.
Við búum í heimi þar sem meðalskjátími eru samkvæmt nýjustu rannsóknum 6 klukkustundir og 40 mínútur á dag. 41% bandarískra ungmenna eru með skjátíma sem fer yfir 8 klukkustundir á dag. Ef þú átt ungmenni í þínu nærumhverfi skora ég á þig að spyrja þau um skjátímann sinn – og svo skoða þinn eigin. Við vitum að þetta er ekki hollt, en samt höldum við áfram. Kannski erum við á sama stað og reykingafólk á sjöunda áratugnum sem reykti jafnvel upp í rúmi: vissum að þetta væri skaðlegt, en það var bara svo þægilegt að þurfa ekki að hugsa um það.
Staðreyndin er að við höfum ánetjast skjánum og kunnum ekki að takast á við fíknina. Hvernig eigum við að greina rétt frá röngu? Hvernig finnur unga fólkið okkar birtu í heimi þar sem neikvæðni og sundrung ræður rækjum? Það er ekki skrýtið að mælingar á andlegri heilsu unga fólksins okkar eru sláandi. Það eru rauð flögg á lofti allt í kringum okkur. En við höldum bara áfram að skrolla.
Það er því ekki nema von að ákveðin öfl, hvort sem er í pólitískum eða markaðslegum tilgangi, kjósi að beina sjónum sínum að okkur skjáfólkinu. Sautján ára sonur minn sýndi mér myndband sem var augljóslega unnið af gervigreind, en samt tekið sem heilagur sannleikur. Út frá því spunnust umræður okkar á milli um bergmálshellana okkar. Þá fór hann að segja mér hversu einhæfir og leiðinlegir samfélagsmiðlarnir hans væru orðnir eftir að Trump varð forseti. Þegar hann skrollaði TikTok birtust endalaus myndbönd af Trump, Elon Musk og hinum ýmsu MAGA (Make America Great Again) aðgöngum. Ef það voru ekki myndbönd af þessum mönnum þá voru það TikTok af mönnum að tala um hvað þeir væru frábærir menn. „Mamma ég hef ekki einu sinni fylgt þessum aðgöngum – þetta bara kemur“ sagði hann. Hann hafði hvorki fylgt þessum aðgöngum né óskað eftir slíku efni. Hann tilkynnti efnið og endurstillti algríminn – án árangurs.
Á miðlinum X (áður Twitter) sem er í eigu Musk, fékk hann jafnvel tilkynningar í símann sinn í hvert sinn þegar Trump eða Musk póstuðu. Hann hafði aldrei fylgt þessum aðgöngum eða sóst eftir því að fylgja þeim. Samt komu sérstakar tilkynningar á heimaskjáinn hans. Algjörlega óumbeðið. Hann eyddi að lokum X úr símanum sínum.
Sem betur fer hefur sonur minn gagnrýna hugsun og ræðir þessi mál við okkur. En hversu margir gera það? Hvers vegna er þetta svona? Eru sautján ára strákar markhópur sem íhaldsöfl í Bandaríkjunum (og víðar) vilja hafa áhrif á? Líklega. Og sennilega er það að takast. Því ekki fæ ég, 36 ára móðir hans, sömu skilaboð, sama efni – sömu fóðrun.
Á mínu interneti er meira um andspyrnu gagnvart einmitt þessum öflum. Konur að tala um hvað þetta sé allt saman sorglegt og ömurlegt. Myndbönd sem mótmæla þrengingum þessara manna að réttindum einstaklinga og svo framvegis. Og svo fæ ég sannarlega minn skerf af hinum ýmsu þrifamyndbönd og sniðugum leiðum til að losna hratt við aukakílóin. Grínmyndbönd af buguðum foreldrum og ráð til að gefa börnunum rétta næringu eða leiðir til að fá þau til að sofa. Eitthvað sem 36 ára kona hefur áhuga á ekki satt?
Í þessum heimi skipta sterkar lýðræðislegar stofnanir og öflugir fjölmiðlar miklu máli. Í heimi þar sem algrímar móta sýn okkar á raunveruleikann, verðum við að finna leiðir til að brjóta niður veggina á milli okkar. Við verðum að spyrja: hver hagnast á tortryggni gagnvart fjölmiðlum, veikingu lýðræðisins og aukinni sundrung?
Rannsóknir hafa sýnt að oft séu um að ræða eins konar þjarka (e. bots) sem eru sérstaklega hannaðir til að búa til óreiðu. Einn daginn pósta þúsundir svona þjarka stuðningspóstum á X um Trump á ensku. Einhverju síðar síðar tala sömu aðgangar frönsku og styðja Marie Le Pen eða tala þýsku og tortryggja yfirvöld í Þýskalandi. Þannig er tugþúsundum falsaðra aðganga stjórnað frá einni miðlægri tölvu. Gagngert til að styðja öfgafulla stjórnmálamenn, ala á tortryggni gagnvart lýðræðinu og dreifa falsfréttum.
Þessum þjörkum er ætlað að hafa áhrif á kosningar og á þær ákvarðanir sem við tökum. Öll samfélög eru undir. Það er hluti af þjóðaröryggi okkar að skilja hvernig þessi áhrif birtast. Við verðum að hætta að skrolla fram hjá þessu vandamáli og opna augun.
Til þess að standa vörð um lýðræðið þurfum við að skilja hvernig því er ógnað. Þegar við sjáum grunsamlega athugasemd eða færslu sem virðist ætla að kveikja elda milli hópa – þá skulum við spyrja okkur: Hver hagnast á þessu? Og hver býr að baki? Það eru ekki alltaf saklausir einstaklingar með skoðanir – stundum eru það forritaðir þjarkar með pólitískt plan.