Allir lifa stundir og sumir margar þar sem gæfan verður manni skyndilega ekki hliðholl. Þegar það sem þú óttaðist mest verður að veruleika. Þú ert dæmdur, misskilinn. Eitthvað gerist, eitthvað er sagt og þú veist að ekkert verður aftur eins og áður.
En þú situr uppi með það. Ekki af því að þú valdir þér það en samt er það núna þitt að bera. Skilnaður, dauði, sjúkdómsgreining, sannleikur, og kannski bara óbærileg þögn. Það er þungbært og þú finnur að eitthvað brestur innra með þér því sársaukinn er ótrúlega fljótur að mæta til leiks.
En þá mætirðu einhverjum sem sér þjáningu þína. Andlit einhvers birtist sem reynir ekki að lina þjáningar þínar heldur er einfaldlega reiðubúinn að standa þér við hlið. Stundum þarf ekki meira til.
Á þrautagöngunni berst stundum hjálp úr óþekktri átt. Óvænt er það, jafnvel skrýtið, en það léttir raunverulega undir. Einhver ber byrðarnar með þér þó það sé bara í stutta stund. Og þótt þú hafir ekki beðið um aðstoð finnurðu fyrir djúpu þakklæti.
Einhver sýnir þér vinahót. Einhverjum er annt um þig þótt þér þyki þú ekkert hafa til þess unnið. Það leysir ekki allan vanda en það er staðfesting á því að þú ert ástar verður þrátt fyrir allt.
Þú hrasar öðru sinni og nú finnast þér öll sund lokuð en samt stendurðu upp á nýjan leik. Ekki vegna þess að þú ert sterkur heldur vegna þess að þú verður.
Á píslargöngunni mætir maður öðrum sem þjást og þá skynjar maður sársauka annarra. Þú veist nú hvað það er að þjást og því finnurðu sársauka í fari annarra. Það gerir manni ljóst að sársaukinn er ekki bundinn við einhvern einn og stakann, heldur að þjáningin er hluti af lífi allra. Sú vitneskja meðtekin slær á einmanakenndina.
En erfið getur gangan orðið enn því aftur sekkurðu og nú dýpra en áður. Er þetta endirinn, hugsarðu? Þá er andardrátturinn kannski það eina sem minnir þig á lífið innra með þér og í andardrættinum er alltaf einhver von, um áframhaldandi líf, ekki satt?
Það þungbærasta er þegar allar varnir eru teknar frá þér. Þú stendur berskjaldaður, hugsanlega án hlutverks, fyrirætlanir orðnar að engu.
Fyrir allra augum jafnvel, en þú andar enn …
Á því augnabliki eru öll sund að því er virðist lokuð. Ekkert hægt að flýja en þú þolir samt við. Það er ekki styrkur heldur eitthvað miklu dýpra og eldra innra með okkur. Bálið er slökkt en það er enn líf í kolunum. Þú leggur frá þér tauminn, lætur af stjórn en gefst þó ekki upp.
Eitthvað deyr. Innra með þér. Kannski sá hluti af þér sem vildi halda um alla þræði. Kannski sá hluti af þér sem þú hélst að væri ósigrandi og myndi aldrei gefa eftir. Sorgin mætir á svæðið og með í för er kyrrðin.
Í kyrrðinni er fangið besta. Þú þarft ekki að berjast lengur, ekkert að látast. Hvíldu þig.
Þú valdir ekki að hvílast en með hvíldinni lýkur þú göngu þinni. Hvíldin er kannski ekki sú sem þú valdir þér en hvíldin færir þér að lokum svar sem kemur að innan: ,,Þetta er búið, slepptu tökunum.“
En þar endar gangan ekki því nú ertu stödd í augnablikinu þar sem eitthvað nýtt hefst. Því lífið heldur áfram! Tómleikinn er yfirþyrmandi en samt ertu heilli en nokkru sinni fyrr.
Jesús gekk þjáningarveginn fyrir okkur öll svo við mættum læra að upprisan stendur öllum til boða og leiðakerfið að upprisunni liggur nokkuð auðskilið fyrir og þar að auki öllum aðgengilegt sem vilja sér það nýta.
Gleðilega páska!