fbpx
Miðvikudagur 16.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Eyjan
Miðvikudaginn 16. apríl 2025 06:00

Japanski fáninn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á ferð minni um Japan nýlega tók ég sérstaklega eftir því hvað allt umhverfi þeirra er þrifalegt, jafnt innandyra sem utandyra. Ég spurði hverju þetta sætti og var mér sagt að skólabörn væru alin upp í snyrtimennsku. Einkunnir barna fyrstu árin í skóla eru ekki gefnar eftir árangri í prófum heldur í kurteisi, hegðun og umgengni.

Í skólum landsins eru útiskór skildir eftir við innganginn og innandyra ganga allir í inniskóm. Nemendur sjá um öll þrif í skólunum og er litið á það starf sem uppeldisatriði, auk þess sparnaðar í kostnaði sem því fylgir.

Alls staðar í Japan verður ferðamaður var við þrifnað og snyrtimennsku. Lestar og brautarstöðvar eru tandurhreinar. Sama gildir um hótel, veitingastaði, gangstéttar og verslanir en þar eru innkaupavagnar hreinsaðir daglega að sögn starfsmanns sem ég ræddi við. Hvergi er rusl að sjá enda mjög lítið um ruslafötur, Japanir fara einfaldlega með ruslið sitt heim til sín og flokka það þar. Tyggjóklessur, sígarettustubbar eða  nikótínpúðar sjást hvergi á almenningssvæðum eins og algengt er í okkar landi.

Hvergi á ferð minni um Japan sáust bílhræ eða járnarusl meðfram vegum eins og allt of algengt er á Íslandi. Umgengni á ferðamannastöðum var til fyrirmyndar og hvergi rusl að sjá. Allir ferðamenn fara í skipulegar raðir og enginn troðningur á sér stað. Það sama á við á lestarstöðvum þar sem allir bíða þolinmóðir í röðum þar til farþegar út úr lestunum eru farnir. Stundvísi lestanna er með ólíkindum en meðaltafir á ári eru innan við eina sekúndu!

Það vakti athygli mína að Japanir ganga aldrei yfir götur á rauðu ljósi en það er eitthvað sem við gætum lært af þeim. Aldrei í ferð minni voru bílflautur notaðar. Agi og þolinmæði Japana er eitthvað sem við gætum lært af þeim.

Í verslunum, á hótelum og veitingastöðum er viðskiptavininum sýnd takmarkalaus virðing og kurteisi. Þetta er Japönum einfaldlega í blóð borið og kemur vestrænum ferðamönnum sífellt á óvart.

Virðing Japana fyrir náttúrunni er aðdáunarverð enda snúast trúarbrögð þeirra, Shinto og Búddatrúin, um náið samband við náttúruna og virðingu fyrir henni.

Það var því mikið áfall að koma heim eftir Japansferð og upplifa hvað við Íslendingar erum skammt á veg komnir í þrifnaði og snyrtimennsku. Meira um það síðar.

Staðreyndir og hagkerfið í Japan

Eftir seinni heimsstyrjöldina var efnahagur og flestar borgir í Japan í rúst. Fljótlega tókst þeim að byggja upp hagkerfi landsins og „Made in Japan“ varð fljótlega merki um gæði.

Í dag eru mörg helstu fyrirtæki í nýsköpun og tækni í heiminum staðsett í Japan.

Um er að ræða fyrirtæki í samgöngutækni, vélmennum, hugbúnaði, tölvuleikjum, samskiptatækni, lyfjaframleiðslu og ljósmyndatækni. Þekktustu fyrirtækin eru Mitsubishi, Toyota, Nissan, Nikon, Tripadvisor og Sony, sem er í dag tíunda stærsta fyrirtæki heimsins.

Matvælaframleiðsla Japana er mjög þróuð og gæði skína í gegn þegar gengið er um matvöruverslanir. Fiskur, núðlur og hrísgrjón eru algengur matur á borðum Japana sem einnig framleiða eitt besta nautakjöt í heiminum. Japanir veiða og rækta um 3,5 milljón tonna af fiski á ári enda er fiskur á borðum þeirra nánast daglega sem hugsanlega skýrir langlífi þeirra sem er það þriðja hæsta í heiminum. Drykkjarvatn er af hæstu gæðum enda rennur það gegnum hraun og er því lengi að síast og hreinsast eins og hjá okkur á Íslandi.

Í dag er Japan fjórða stærsta hagkerfið í heiminum og þjóðarframleiðsla á mann með tilliti til kaupmáttar gerir Japan að einu ríkasta landi heims. Þar er nú um 2% hagvöxtur, um 2% verðbólga og 2,5% atvinnuleysi. Vextir eru undir 1% og verðlag á vörum og þjónustu er almennt með því lægsta sem þekkist meðal ríkari þjóða.

Japanir eru í dag um 125 milljónir og fer fækkandi. Landið er um 378 þúsund ferkílómetrar (km2) að stærð sem er um fjórum sinnum stærra en Ísland. Í Japan búa um 340 manns á km2 en aðeins fjórir á Íslandi.

Tókýó svæðið er með um 37 milljón íbúa og er borgin sú stærsta í heiminum. Í miðborginni búa um 13,5 milljónir eða um 6.200 manns á km2. Til samanburðar búa um 400 manns á km2 á höfuðborgarsvæðinu okkar.

Óhreinar innkaupakörfur

Ég gat þess í upphafi þessa pistils að innkaupakörfur í japönskum verslunum væru þvegnar daglega. Mér var hugsað til þess við komuna til landsins eftir japansferðina.

Í fríhöfninni í Leifsstöð tóku á móti okkur Japansfarþegunum mjög skítugar innkaupakörfur á hjólum sem augljóslega hafa ekki verið þrifnar í marga mánuði.

Ég hvet starfsmenn Fríhafnarinnar til að læra af Japönum og þrífa innkaupakörfurnar.

Fyrir utan Leifsstöð eru sígarettustubbar, nikótínpúðar og alls kyns rusl í þúsundatali, eitthvað sem hvergi myndi sjást í Japan.

Á leiðinni frá flugvellinum til Garðabæjar tók ég eftir því að meðfram Reykjanesbrautinni er víða að finna járnarusl, bíldekk og plastdrasl sem er það fyrsta sem ferðamenn sem koma til landsins okkar taka eftir. Hvergi er slíkt að finna í Japan meðfram vegum.

Vonandi verður búið að kippa þessu í lag áður en ég fer í mína næstu Japansferð í haust með 30 manna hópinn minn sem leiðsögumaður.

Lærum af umgengni og umhverfisvernd Japana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð
EyjanFastir pennar
13.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
13.03.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?