Það á ekki að velta sér upp úr mistökum heldur læra af þeim og gera betur í framtíðinni. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, var gagnrýndur fyrir enskukunnáttu er hann ávarpaði alþjóðlega ráðstefnu daginn eftir að hann tók við embætti. Hann segist hafa gert mistök og mun framvegis nota túlk. Guðmundur Ingi er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Guðmundur Ingi - 4
Ég verð að koma inn á það, þú varst gagnrýndur fyrir ræðuna þína. Ég lít nú svo á að það hvort að menn tali lýtalausa ensku eða ekki sé ekki mælikvarðinn á það hvort þeir geti gert góða hluti sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og við höfum alveg dæmin til að sanna það. Fyrir forsetakosningarnar síðustu kom Jón Gnarr í viðtal til mín. Hann lýsti því yfir að hann myndi, yrði hann kjörinn forseti, beita sér fyrir því að íslenskan heyrðist víðar og hann myndi tala íslensku, hann myndi bara hafa túlk. Íslenska væri fallegt tungumál, þetta er merkilegt tungumál, og við eigum ekki að bera kinnroða vegna hennar. Við eigum að vera hreykin af henni og halda henni á lofti. Mér fannst dálítið til í þessu hjá honum. Er eitthvað sem mælir gegn því að íslenskur ráðamaður tali bara íslensku ef hann þarf að ávarpa samkomu erlendra ráðamanna?
„Ég mun gera það háðan í frá. Ég hefði gert það þarna ef það hefði verið hægt. Það var röð tilviljana sem verð þess valdandi að ég las þessa ræðu fyrst, ég var ekki einu sinni búinn að lesa hana yfir. Ég gerði ýmis mistök, ég reif blaðið upp í staðinn fyrir að hafa það á borðinu. Þetta voru bara mistök mín. Ég hugsaði bara: Ókei, ég er búinn að gera þessi mistök. Þau eru bara búin, þau eru liðin, nú get ég ekki gert annað en horft fram á veginn,“ segir Guðmundur Ingi.
„Skilaboðin eiga að vera þessi: Við gerum öll mistök. Ég vil sérstaklega senda það út til Barnanna og unglinganna okkar að það er allt í lagi að gera mistök. Við lærum af mistökum. Ef við gerum engin mistök þá erum við sennilega í slæmum málum vegna þess að þá erum við ekki að læra eins og við eigum að gera.“
Ef við teljum okkur ekki gera mistök erum við í afneitun.
„Ekki velta sér upp úr mistökunum. Þau eru liðin. Þú getur ekki breytt þeim en þú getur breytt framtíðinni.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.