fbpx
Mánudagur 14.apríl 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Blaut tuska ríkisstjórnarinnar í andlit meirihluta þjóðarinnar – Ber Inga Sæland ábyrgð?

Eyjan
Sunnudaginn 13. apríl 2025 06:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. janúar síðastliðinn birti Vísir könnun Prósents um afstöðu landsmanna til Evrópusambandsins, hvort kjósa skyldi um framhaldsviðræður, annars vegar, og hvort menn vildu aðild, ganga í ESB eða ekki, hins vegar.

Afstaðan til þjóðaratkvæðis um framhaldsviðræður sterk og skýr

Spurningunni um það hvort kjósa skyldi um framhaldsviðræður svöruðu 58% landsmanna með „Já-i“, 15% voru ekki með afstöðu og 27% sögðu „Nei“.

Ef við tökum þá sem ekki tóku afstöðu – ekki er ósennilegt að þeirra afstaða verði svipuð og afstaða hinna, þegar á reynir – skiptist afstaðan þannig:

68% landsmanna eru hlynnt framhaldsviðræðum, og þá auðvitað þjóðaratkvæði um þær sem allra fyrst, og aðeins 32% eru andvíg þjóðaratkvæði.

Reyndar skilur undirritaður ekki hvaða ástæður liggja að baki hjá þessum 32%-Nei-hópi, hví ekki megi kjósa um framhaldsviðræður sem auðvitað eru með öllu áhættulausar og til þess eins fallnar að fá botn í hvaða kjör og skilmála ESB myndi bjóða okkur bezt, sérstaklega á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, án nokkurrar fyrir fram skuldbindingar af okkar hálfu.

Afstaðan til aðildar í sömu könnun var sú að 56% vildu aðild og voru þá bara 44% gegn aðild, ef hlutlausir eru aftur teknir út.

Við hvað er Nei-hópurinn eiginlega hræddur? 

Vonandi liggur hans afstaða ekki á svo lágu plani að hann óttist að ESB muni bjóða okkur „of góðar lausnir“ sem enginn maður með viti gæti svo staðið gegn í endanlegum kosningum að aðild!?

Það er auðvitað athyglisvert, að 44% landsmanna skuli vera gegn aðild án þess að hafa á þessu stigi hugmynd um hverjir endanlegir aðildarskilmálar geta orðið. Þeir liggja auðvitað þá fyrst fyrir, þegar búið er að semja.

Virðist ótrúlegt afturhald og afdalamennska ríkja í hugum þess Nei-hóps. Þeir hefðu eflaust riðið til Reykjavíkur með hópi bænda 1905 til að mótmæla símasambandi við útlönd, hefðu þeir verið á stjái þá.

Í vikunni var svo birt önnur ESB-könnun Þjóðarpúls Gallup sem í grunninn sýnir sömu afstöðu.

Afgerandi meirihluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæði um framhaldssamninga – Kom ríkisstjórninni til valda

Það liggur því fyrir, hefur gert það síðustu misseri, að afgerandi meirihluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæði um framhaldsviðræður. Er sjálfgefið að stór hluti þeirra, sem greiddi Viðreisn og Samfylkingu atkvæði sitt í kosningunum 30. nóvember koma einmitt úr þessum hópi. Það er því líka ljóst að þessi hópur, skýr meiri hluti landsmanna, sem vill þjóðaratkvæði um framhaldsviðræður, auðvitað sem allra fyrst, kom þessari ríkisstjórn til valda.

Í ljósi þess, er það með ólíkindum, að ríkisstjórnin skuli hafa leyft sér, að setja þjóðaratkvæði um framhaldsamninga fyrst á dagskrá 2027, eða ekki síðar, eins og þau orða það, þó að þyngdin hafi greinilega legið á 2027.

2027 blaut tuska í andlit meirihluta þjóðarinnar

Fyrir undirrituðum var og er tilkynningin um 2027 blaut tuska í andlit meirihluta þjóðarinnar, í rauninni ekkert nema svik við margyfirlýsta stefnumörkun sem margir treystu á og kusu Viðreisn og Samfylkingu út á.

Það sem gerir málið ennþá verra er það að mögulegt þjóðaratkvæði um framhaldssaminga fyrst 2027 er hvorki fugl né fiskur. Í raun bara sýndarmennska eða fyrirsláttur.

Ef kosið yrði fyrst þá um framhaldssamninga og ef „Já“ fengist, sem ætla má, gætu aðildarsamningar fyrst hafizt 2027/2028, en valdatími ríkisstjórnarinnar rennur auðvitað út 2028.

Þar sem þessir samningar taka minnst 2 ár, kannski 3, væri þá engan veginn hægt að ljúka málinu í hennar valdatíð og væri þá í reynd til einskis af staðið farið því enginn veit hér hvað tekur við eftir 2028.

Evrópusambandið hefur heldur engan áhuga á að hefja framhaldsamninga við ríkisstjórn hverrar valdatími væri að enda. Í raun er það sem ríkisstjórnin hefur gert í þessu máli bara látalæti eða sjónarspil.

Ber Inga Sæland ábyrgð á vanefndum Viðreisnar og Samfylkingar?

Þegar gengið er á stjórnarliða með þessa broguðu afstöðu og glórulausu tímasetningu, stefnusvik fyrir undirrituðum, er helzt að heyra á mönnum, að Inga Sæland og Flokkur fólksins beri hér alla ábyrgð. Samfylking og Viðreisn hafi viljað halda þjóðaratkvæði um framhaldssamninga miklu fyrr.

Inga Sæland lýsti því ítrekað yfir fyrir kosningar, að hún væri algjörlega hlynnt því að kosið yrði um framhaldssamninga, það væri réttur landsmanna að tjá sig um það, af eða á, en hún lýsti því jafnframt yfir að óvíst væri hvort hún styddi aðild, eða ekki, þegar að slíkri atkvæðagreiðslu kæmi.

Þetta tel ég góða og rétta afstöðu hjá Ingu, enda hef ég ekki staðið hana að óheilindum, en staðreyndin er sú að hvorki Inga né aðrir geta á þessu stigi vegið og metið, tekið málefnalega afstöðu til þess hvort aðild sé æskileg, eða ekki, þar sem þá fyrst þegar búið er að semja, 2-3 árum eftir að framhaldssamningar hefjast aftur, getur Inga og aðrir vitað hver býtin eru, hver kjör og skilmála ESB myndi í lok dags bjóða okkur eða fallast á.

Ríkisstjórn, takið nú á ykkur rögg – 28. september góður dagur

Undirritaður skorar hér með á ríkisstjórnina, í nafni þess þjóðarmeirihluta, sem kom henni til valda, að taka á sig rögg og stofna til þjóðaratkvæðis um framhaldssamninga eins fljótt og verða má. Væri sunnudagurinn 28. september þar ekki illa tilfallinn. Þannig mætti framhalda samninga-umleitunum við ESB í lok þessa árs, 2025, og ljúka þeim um áramótin 2027/2028.

Þjóðaratkvæði um aðild, eða ekki, gæti svo farið fram sumarið/haustið 2028, eftir hálfs árs öfluga umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar, en allar hliðar málsins, kjör og skilmálar, lægju þá, og þá fyrst, fyrir.

Tvær fylkingar ríkjandi víðast

Margar þjóðir heims eru nú klofnar í tvær fylkingar. Annars vegar fara þeir sem til vinstri standa ásamt með græningjum, miðjufólki og frjálslyndum, hins vegar standa hægri menn, hægri-hægri og fasistar.

Það undarlega er að þessar fylkingar eru oft ámóta stórar og sterkar. Meirihlutar verða þá oft naumir og minnihlutar líka, sem verða þó að una því. Enginn getur breytt þessari þróun eða stöðu, sameinað eða samstillt ólíkar fylkingar, gert úr þeim bræður og systur, ekki heldur forsætisráðherra landsins þó hún vilji og henni gangi gott eitt til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt