Byggðatryggð stórskipaútgerðarinnar á Íslandi er ekki meiri en svo að hún er svikul. Það sýnir sagan, svo ekki verður um villst.
Allt frá því ísfirska Guggan var seld skömmu fyrir síðustu aldamót – og því var heitið af nýjum eigendum að hún yrði „áfram gul og gerð út frá Ísafirði“ fóru sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið að tapa ásýnd sinni og upprunalegu hlutverki. Hafnirnar tæmdust, hver af annarri. Guggan landaði aldrei aftur á Ísafirði, sú gula, sem oft og tíðum var kölluð flaggskip íslenska flotans á liðinni öld. Hún hefur æ síðan verið táknmynd þess hvað íslenska kvótakerfið hefur leikið landsbyggðina grátt, þar sem skip og kvótar hafa verið keypt – og flutt annað á land með tilheyrandi efnahagskreppu sveitarfélaganna sem þau heyrðu áður til.
Þetta er landsbyggðarskatturinn. Sá eini raunverulegi. Og það er stórútgerðin sem leggur hann á landsmenn.
Ef farið er um landið réttsælis þá eru stórskipin farin frá Akranesi, Tálknafirði, Flateyri, Hólmavík, Skagaströnd, Raufarhöfn, Þórshöfn, Seyðisfirði, Stöðvarfirði, Þorlákshöfn, Sandgerði og Keflavík, svo fáein pláss séu nefnd á nafn. Og ásýnd síðastnefnda sjávarbæjarins er galtómur kajinn, sem áður var hulinn sperrtum og þéttum siglutrjám, en kvótinn þaðan fór reyndar í fyrstu til Sandgerðis, þaðan á Skagann og endaði í Reykjavík. Það er öll tryggðin. Eða öllu heldur hringavitleysan.
„Útgerðinni ber að greiða gjöld sín í samræmi við raunverulegt verðmæti sjávarafurðanna hér við land.“
Útgerðin fer nefnilega þangað sem henni sýnist. Henni er nákvæmlega sama um stað og stund, svo fremi hún geti hámarkað gróða sinn, sem er auðvitað helsta keppikefli hennar. Og ef fram fer sem horfir má ætla að hún verði einvörðungu staðsett á fjórum stöðum á landinu, í það mesta, í Reykjavík, Eyjafirði, Fjarðabyggð og væntanlega áfram í Vestmannaeyjum. En aðrar hafnir geti í besta falli fengið keyrðan afla yfir þvert og endilangt landið, fyrir allt annað og margfalt hærra verð en útgerðin selur sjálfri sér.
Því hvað segja fisksalar landsins? Þeir sem neyðast til að kaupa aflann á markaðsvirði? Á sannan kapítalískan kvarða? Eins og menn!
Þar er liggur nefnilega fyrir leiðrétta verðið sem komist hefur í hámæli á síðustu dögum. Og fer hér vel að tala íslensku. Það gerir í það minnsta Kristján Berg, einn kunnasti fisksali landsins, sem sagðist á dögunum undrast harmakvein stórútgerðarinnar á Íslandi vegna leiðréttra veiðigjalda. Sjálfur hefði hann aldrei fengið nokkurn afslátt af fiskverði, heldur hefði hann ævinlega keypt hann á hæsta verði, án þess að barma sér. „Þessar útgerðir eru að fá fiskinn á 30 til 60 prósenta lægra verði en ég er að fá hann á,“ sagði Kristján á skýrri tungu, og kann samt að græða á geira sínum.
Hér er aðalatriði málsins komið. Það varðar upprunalegt markmið veiðigjalda. Útgerðinni ber að greiða gjöld sín í samræmi við raunverulegt verðmæti sjávarafurðanna hér við land. Þó það nú væri. Það heitir með öðrum orðum markaðsleiga fyrir aðgang að þjóðarrauðlind.
Átökin um þetta efni snúast um að útgerðin fái áfram að borga minna, undir markaðsvirði, sem merkir á mannamáli að útgerðin geti enn um sinn hýrudregið sjómenn, sameiginlega sjóði sveitarfélaganna og hafnir þeirra, vegna þess að hún kaupir fiskinn af sjálfri sér á undirverði.
Það er hinn raunverulegi landsbyggðarskattur. Það er stórútgerðin sem leggur hann á landsmenn. Og hún vill bara áfram vera í þeim bissness sínum að borga sem minnst til samfélagsins, og vera með þeim hætti í reynd á ríkisstyrk.
Enda er gróðinn af því ævintýralegur.