Jörðin brennur, heimsmarkaðinum stýrt úr gjaldþrota spilavíti og engin veit hvert stefnir. Hvernig tímarnir hreyfa við okkur stýrist kannski að einhverju leyti af því hvenær við erum fædd og hvaða kynslóð við tilheyrum.
Eftirstríðsára-kynslóðin fædd 1946-1964 sem áður treysti opinberum stofnunum klórar sér í höfðinu. Sú kynslóð, tilfinningalega lokuð, sem hlær að sálarfræðum, panikerar ekki heldur reynir að leita lausna án yfirgangs. Nú fer sú kynslóð sér hægt. „Nú er lag að bera á pallinn“, „ferðast innanlands“ enda ekki „skynsamlegt“ að spenna bogann í fallvaltri veröld.
Það má búast við hæglátu hopi og stöðnun sem viðbrögðum þessarar kynslóðar.
X-kynslóðin svokallaða fædd 1965 -1980 kvakar háðsk:
„Okkur var sagt að ganga menntaveginn en nú eru gráðurnar okkar bara eins og upplitaðir klukkustrengir í Góða Hirðinum“.
X-in héldu að kjarnorkusprenging myndi granda þeim en vita nú að mesta ógnin stafar af billjónerum jarðarinnar. Þau eru svona um það bil að fatta að AI mun færa þau í tossabekk og gera þau svo með öllu óþörf sem er vitanlega skellur.
Viðbrögð X-kynslóðarinnar verða líklega kaldhæðni, ofdrykkja og hroki.
Aldamótakynslóðin 1981-1996 er hugsjónafólkið sem kýs að vinna í opnum vinnurýmum. Kynslóðin sem trúði því að hún myndi breyta heiminum en fékk efnahagshrun í fangið. Aldmætingar hafa einkarétt á skilgreiningu á „WOKE“, telja sig tölvulæsa, búnir að vinna yfir sig og bera sig saman við allt og alla. Þessi kynslóð ofhugsar allt, fer reglulega í kulnun á meðan hún stúderar Instagram-speki um það hvernig á að koma sjálfum sér í lag.
Aldamótakynslóðin útbýr nú play-lista, skrollar í gegnum yoga-öppin sín og segir: „Við höfum reynt allt“ og leggur sig.
Z-kynslóðin fædd 1997-2012 skrifar: „Við munum öll deyja“ en bætir svo „LOL“ við á eftir dómsdagsúrskurði sínum. Þau vita að þeirra er að takast á við umhverfisvá sem þau hræðast og vonlausan framtíðarefnahag. Þessi kynslóð er læsari á tölvur en bók og fædd í stjórnlausum heimi og fáránleiki er þeim því ekki framandi.
Allur bölmóður andlegur og veraldlegur verður áfram efniviður Zetanna í tik-tok myndbönd eða „meme“ með sorglegu lagavali og dansandi beinagrindum.
Kynslóðir bregðast ólíkt við enda er ójafnt gefið. Núverandi heimsástand virðist hins vegar hafa skapað einskonar ringulreið þar sem kynslóðirnar neyðast til að standa saman því leiðtogum er augljóslega ekki treystandi fyrir húshorn.
Í því samstarfi heldur eftirstríðsára-kynslóðin á hamri og nagla í bílskúrnum heima hjá sér, X-kynslóðin ranghvolfir augunum, aldamótakynslóðin reynir án árangurs, að „bæta orðræðuna“ og Zeturnar greina frá öllu saman í rauntíma á samfélagsmiðlum.