Í ársskýrslu Seðlabankans, sem kynnt var á ársfundi bankans í gær, kemur fram að Ásgeir Jónsson fékk launahækkun upp á tæplega 1,1 milljón á mánuði í fyrra. Árslaun hans hækkuðu um tæpar 13 milljónir, fóru úr 30 milljónum árið 2023 í 43 milljónir 2024. Hækkunin stafar m.a. af launaleiðréttingu og uppgjöri orlofs.
Þetta er hækkun upp á 43 prósent á einu ári. Mánaðarlaun hans hækkuðu úr ríflega 2,5 milljónum á mánuði í tæplega 3,6 milljónir á mánuði. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu, hækkaði á sama tíma úr 2,2 milljónum á mánuði í 2,46 milljónir á mánuði, eða um tæp 12 prósent.
Til samanburðar voru gerðir stöðugleikasamningar á íslenskum vinnumarkaði á síðasta ári þar sem samið var um mjög hóflegar launahækkanir einmitt til að greiða fyrir lækkun verðbólgu og vaxtalækkunum. Íslenskt launafólk samdi um 3,25 prósenta launahækkun á síðasta ári og samkvæmt samningunum munu laun á vinnumarkaði hækka um 3,5 prósent á þessu ári og næstu tvö ár.
Launahækkun Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, á síðasta ári var því meira en þrettánföld á við þá hækkun sem samið var um á almennum vinnumarkaði í prósentum talið. Í krónum talið er hækkunin 45 sinnum sú hækkun sem kom á lágmarkslaun samkvæmt stöðugleikasamningunum á vinnumarkaði. Ef seðlabankastjóri hefði fengið launahækkun í samræmi við kjarasamningana hefðu hún átt að nema ríflega 81 þúsund krónum á mánuði en ekki 1,07 milljónum.
Ásgeir Jónsson hefur ekki farið dult með þá skoðun sína að óhóflegar launahækkanir í samfélaginu, bæði hjá launafólki og stjórnendum fyrirtækja séu eitur í hans beinum í baráttunni við verðbólgu og stór orsakavaldur þess að vextir hér á landi eru svo háir sem raun ber vitni. Frægt er þegar Ásgeir skammaðist út í þá Íslendinga sem leyfðu sér að fara til Tenerife og birta tásumyndir ef sér á Facebook.
Eyjan leitaði skýringa á þessari miklu launahækkun seðlabankastjóra hjá Seðlabankanum, hvort mögulega væri um innsláttarvillu að ræða í ársskýrslunni. Seðlabankinn staðfesti að talan í ársskýrslunni væri rétt. Ástæður hinnar miklu hækkunar væru þær að þurft hafi að leiðrétta laun seðlabankastjóra afturvirkt vegna niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 39/2023 „þar sem niðurstaða dómsins varð sú að ákvörðun um breytingu á viðmiði sem notað er við að reikna út launabreytingar bankastjóra var dæmd ólögmæt og að óheimilt hafi verið að endurkrefja um hluta greiddra launa. Gera þurfti afturvirkar launaleiðréttingar frá 1.7.2022.“
Þá hafi á síðasta ári verið gert upp orlof við seðlabankastjóra frá fyrra skipunartímabili hans, allt frá 2019.
Eyjan hefur óskað eftir sundurliðun á því hver voru regluleg laun seðlabankastjóra á síðasta ári, hversu há fjárhæð kom til vegna launaleiðréttingar á grundvelli hæstaréttardómsins og hversu há fjárhæð kom til vegna uppgjörs á orlofi.
Í samtali við Eyjuna segir Vilhjálmur Birgisson að mikilvægt sé að fá það upp á borðið hversu mikið regluleg laun seðlabankastjóra hafi hækkað á síðasta ári. „Þessar tölur gefa ekki til kynna að hann eða Seðlabankinn yfirleitt sé á sömu vegferð og launafólk í landinu þegar kemur að því að sýna ábyrgð. Seðlabankinn og æðstu stjórnendur hans verða að fara á undan með góðu fordæmi annars er trúverðugleiki bankans enginn.“
Eftir að fréttin birtist hafði Seðlabankinn samband við Eyjuna og óskaði eftir því að fram kæmi að regluleg laun Ásgeirs Jónssonar hefðu hækkað um 2,5 prósent 1. júlí 2024. Bankinn telur villandi að taka heildarlaunagreiðslur til hans á síðasta ári og deila með 12 til að fá fram mánaðarlaun hans þar sem hækkunin frá fyrra ári stafi nær eingöngu af leiðréttingu samkvæmt hæstaréttardóminum og uppgjöri orlofs.
Fréttin hefur verið uppfærð.