Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur hafið tollaheimsstyrjöld. Á sama tíma hefur hún kippt stoðunum undan trúverðugleika NATO.
Fyrir vikið er efnahagsleg staða Íslands eins og annarra þjóða í uppnámi. Og öryggi landsins, sem áður var tryggt, hangir í lausu lofti af því að trúverðugleikinn á bak við skuldbindingar Bandaríkjanna byggir nú á getgátum en ekki trausti og sameiginlegum gildum.
Boðskapur ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu er samhljóma um eitt: Nú þarf að gæta að hagsmunum Íslands.
Spurningin er bara: Hvernig á að gæta hagsmuna landsins við þessar nýju aðstæður?
Þegar hlustað er eftir svörum við þessari spurningu dofnar samhljómurinn.
En er vit í því að gera eitthvað annað en að fylgja þeirri grundvallarhugmyndafræði, sem verið hefur hornsteinn utanríkisstefnunnar í áratugi? Það er vandséð.
Ísland á heima í bandalagi með þeim þjóðum, sem standa vörð um fullveldi, frjáls viðskipti, lýðræði og velferð.
Klípa Íslands eins og annarra þjóða í Evrópu er sú að Bandaríkin hafa sagt sig frá samfélagi þeirra þjóða, sem byggja á þessum gildum.
Það gjörbreytir ekki aðeins efnahagslegri stöðu heldur veikir einnig þær ytri öryggistryggingar, sem fullveldi landsins hefur byggt á.
Þetta þýðir einfaldlega að til þess að geta haldið fast í grundvallarhugmyndafræði utanríkisstefnunnar þurfum við að stíga ný skref til virkara samstarfs við þær þjóðir, sem byggja á sömu gildum.
Kyrrstaða skilur Ísland eftir í tómarúmi. Við gætum ekki íslenskra hagsmuna með því móti.
Tollaheimsstyrjöld er ekkert frábrugðin vopnuðum átökum að því leyti að árásarríkið fær sitt fram ef enginn tekur á móti.
Einhliða aðgerðir af Íslands hálfu yrðu hins vegar aldrei annað en kjánalegt vindhögg. En stóra spurningin er: Viljum við að Bandaríkjunum takist að byggja upp heim tollmúra og vöruskiptasamninga?
Ef svarið er nei verðum við að treysta á samstöðu annarra þjóða til þess að taka til varna fyrir frelsið.
En er það trúverðug gæsla íslenskra hagsmuna að standa utan við og leggja ekkert af mörkum en ætlast jafnframt til að njóta ávaxta af sameiginlegu átaki annarra?
Er það ekki svolítið eins og þáverandi ríkisstjórnin hefði á sínum tíma sagt að hagsmuna Íslands væri best gætt utan NATO í þeirri trú að fullveldi landsins yrði varið hvort sem er?
Þegar rætt er um hagsmuni Íslands komumst við ekki hjá því að svara grundvallarspurningum af þessu tagi.
Grænlendingar og Norðmenn eru í sömu sporum. Aukin áhersla utanríkisráðherra á samtöl við þessar grannþjóðir er afar þýðingarmikil.
Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra tala um að við þessar aðstæður þurfi Ísland umfram allt annað að vera trúverðugur bandamaður.
Þessi skilaboð svara ekki öllum spurningum. Eigi að síður skiptir það miklu máli þegar þrír pólitískir leiðtogar, innan og utan ríkisstjórnar, tala fyrir þessum sameiginlega skilningi á stöðu Íslands.
Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafa ákveðið að þjóðin sjálf greiði atkvæði um það hvort Ísland tryggi viðskipta- og öryggishagsmuni sína frekar með fullri aðild að Evrópusambandinu. Það er öflugasti sameiginlegi vettvangur þjóða til varnar fullveldi, lýðræði, frjálsum viðskiptum og velferð.
Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja leggjast gegn því að þjóðinni verði falið að taka þessa ákvörðun, jafnvel þótt Bandaríkin hafi snúið heimsmyndinni á hvolf.
Tveir minni flokkarnir í stjórnarandstöðu vilja svo við upphaf tollaheimsstyrjaldar setja EES- samninginn í uppnám með því að hafna bókun 35. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn klofnaði um málið í utanríkisnefnd.
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir tala fyrir aukinni íslenskri tollvernd á sama tíma og þeir telja eðlilegt að Evrópusambandið fari með okkur eins og við séum innan tollabandalagsins.
Það er ekki heil brú í utanríkispólitík af þessu tagi.
Alvarlegast er þó að stjórnarandstöðuflokkarnir hafna þjóðaratkvæðinu án þess að benda á aðra raunhæfa leið. Það er sama og að skila auðu í ljósi þess að óbreytt staða getur ekki tryggt þau grundvallargildi, sem utanríkisstefnan hefur verið reist á í áratugi.