Orðið á götunni er að uppnám hafi orðið á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins í Hádegismóum í gær. Forsaga málsins er sú að Kolbrún Bergþórsdóttir birti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þrumupistil þar sem hún fer hörðum orðum um Sjálfstæðisflokkinn, einstaka þingmenn hans og ekki síst þingflokksformanninn, Hildi Sverrisdóttur, fyrir framgöngu flokksins í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur.
Kolbrún skrifar: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að gera þetta mál að pólitísku máli. Það skal djöflast í forsætisráðherra eins og hægt er og saka Kristrúnu Frostadóttur um illar hvatir. Flokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir, hefur komist nálægt því að gjaldfella sjálfa sig með stöðugu rápi upp í ræðustól Alþingis og farið þar með sömu fáránlegu ásakanirnar um meint trúnaðarbrot og lygar forsætisráðherra.“
Hún heldur áfram: „Maður hlýtur að spyrja sig á hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn sé. Þjóðin hafnaði flokknum rækilega í síðustu kosningum og sitthvað hefðu sjálfstæðismenn átt að læra af því. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hjalað um það í allnokkurn tíma að breikka þurfi flokkinn og koma stefnumálum vel til skila svo að þjóðin fáist til að kjósa flokkinn. Nú virðist enginn hafa tíma til að sinna þessum brýnu verkefnum því það er talið svo ofur nauðsynlegt að gala á forsætisráðherrann.“
Þá skammar Kolbrún Jón Gunnarsson fyrir „mafíósa-tal“ og hnykkir síðan út með því að óska flokknum langrar setu í stjórnarandstöðu, enda sé flokkurinn nálægt því að vera óstjórntækur.
Þessi skrif Kolbrúnar virðast hafa farið alvarlega fyrir brjóstið á ritstjóra Morgunblaðsins, enda er blaðið málgagn Sjálfstæðisflokksins og almennt illa séð að blaðamenn tuski flokkinn til, líkt og Kolbrún gerði um helgina.
Orðið á götunni er að Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra, hafi verið sendur út af örkinni til að eiga lítið samtal við Kolbrúnu og leiða henni fyrir sjónir að óæskilegt sé að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn og þingflokksformann hans með svo beinskeyttum hætti. Sérstaklega mun hafa sviðið undan orðum Kolbrúnar um stöðugt ráp þingflokksformannsins upp í ræðustól Alþingis með „með sömu fáránlegu ásakanirnar um meint trúnaðarbrot og lygar forsætisráðherra.“
Orðið á götunni er að Andrési hafi ekki tekist að halda samtalinu við Kolbrúnu á jafn lágstemmdum nótum og að var stefnt. Viðbrögð hennar hafi verið snögg og afdráttarlaus og langt frá þeim tónstyrk sem Andrés lagði upp með. Ekki hafi farið fram hjá neinum nærstöddum er hún þrumaði yfir Andrési að ef yfirmenn blaðsins hefðu eitthvað við hennar skrif að athuga yrðu þeir einfaldlega að reka hana. Hún væri með sex mánaða uppsagnarfrest sem þeir mættu þá gera sér að góðu að borga.
Orðið á götunni er að það hafi verið niðurlútur Andrés Magnússon sem fór á brott með þessi skilaboð Kolbrúnar Bergþórsdóttur til yfirstjórnar blaðsins. Spennandi verði í framhaldinu að fylgjast með því hver vinni störukeppnina sem hafin er í Hádegismóum