Leyniþjónustur og greiningaraðilar stórveldanna máttu sín lítils gagnvart hyggjuviti og þekkingu þeirra nágranna Rússlands, sem best þekkja Rússland, þegar spáð var í spilin hvernig mál myndu þróast ef Rússar létu verða af innrás sinni í Úkraínu fyrir þremur árum. Sú temprun valds sem bandaríska stjórnarskráin segir fyrir um virkar ekki sem skyldi nú þegar einn flokkur og einn maður hefur jafn sterka stöðu og raun ber vitni um í Bandaríkjunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
„Ef maður bara rifjar upp fyrst eftir allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu þá var það metið sem svo ef menn ætluðu að kaupa hjálma og vesti að þá væri það stigmögnun þannig að þetta hefur auðvitað breyst gríðarlega mikið og þegar svona helstu bandamenn, sem lengst vilja ganga, þekkja Rússland hvað best …“
Já, þetta eru nefnilega ríkin sem þekkja Rússland.
„Nákvæmlega, og það hefur verið mikill lærdómur fyrir mig. Ég man eftir fundum bara nokkrum sólarhringum fyrir innrás, hverju menn voru að spá: ef Rússar gera þetta þá muni Kiev falla á nokkrum dögum, þá muni verða búið að taka yfir landið á örfáum vikum og þau muni bara leggja niður vopn og svo þurfi bara að finna út úr því saman hvað gerist. Þá heyrði maður frá þessum ríkjum bara. Heyrið þið hvað þið eruð að segja? Þetta verður ekki svona. Þeir munu berjast.“
Þórdís Kolbrún segir það áhugavert að stóru ríkin séu með miklu stærri stofnanir og meira fjármagn í að greina hlutina og hvað muni gerast. „Svo siturðu bara við hliðina á fólki sem kemur frá mjög fámennu svæði og getur ekki keppt í þessari greiningargetu en bara þekkir sitt fólk, er bara með þetta í fingrunum og segir bara: Þetta verður ekkert svona. Þekkir sitt fólk þá bæði gagnvart Úkraínu en sömuleiðis gagnvart því hvað Pútín myndi gera. Ef fólk meinar það þegar það segist ætla að læra af því að hafa ekki hlustað nóg, þá er eins gott að hlusta bara, líka þegar það verður óþægilegt.“
Já, eins og þú segir, það er allt sem bendir til þess að núna séum við að hlusta. En það þurfti mikið til.
„Já, það eru þessi miklu viðbrögð þegar þessar stóru breytingar virðast vera að eiga sér stað hjá núverandi stjórnvöldum í Bandaríkjunum.“
Það er alveg rétt að það eru núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum sem eru að kúvenda stefnunni sem hefur verið allt frá lokum Seinni heimsstyrjaldar, en þegar maður horfir á pólitíska sviðið í Bandaríkjunum þá eru þessi núverandi stjórnvöld orðin nokkuð ráðandi afl, virðast vera með meirihluta. Það er mjög langt síðan það hefur gerst að sami flokkurinn hafi verið með forsetaembættið, hafi verið með meirihluta í báðum þingdeildum og líka hafi skipað meirihluta hæstaréttardómara og Hæstiréttur Bandaríkjanna er pólitískur upp að vissu marki. Þetta er mjög óvenjuleg staða sem við erum í og það er ekkert sem segir okkur að þetta sé nú bara eitthvað sem við þurfum að sitja af okkur í fjögur ár, svo verði allt eðlilegt aftur. Það getur alveg orðið framhald á þessu eins og pólitískir vindar blása í Bandaríkjunum.
„Já, það er alveg rétt. Hann er með gríðarlega sterka stöðu, bæði persónulega hjá kjósendum í Bandaríkjunum og sömuleiðis út frá þessu svona „temprun valds“, kerfið var ekki smíðað út frá því að þú værir með tvo flokka heldur bundið við einstaklingana sem færu með þessi völd, þannig að að það hefur áhrif …“
Og flokkarnir hafa hingað til ekki verið svona leiðitamir foringjum eins og við sjáum allavega hjá Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum. Það hefur verið aðhald innan úr flokki forsetans hingað til.
„Já, maður leyfir sér að vona – það er ekki eins og við höfum stjórn á því hvernig þetta þróast, en maður leyfir sér að vona að sú mótstaða, eða temprun, muni birtast vegna þess að þarna ertu með gríðarlega öfluga einstaklinga með mjög mikla reynslu og sem hafa mjög lengi verið með skýran áttavita á það hvað er rétt og rangt í þessum heimi. En síðan heyrir maður auðvitað líka að fólk bíður eftir „midterms“ og vonar að það myndi hafa í for með sér einhverjar breytingar, en þegar maður sér vikurnar líða þá eru tvö ár ansi langur tími vegna þess að það eru ekki liðnar nema nokkrar vikur síðan hann tók formlega við. Eins og ég sagði í ræðu minni á landsfundi þá hefur það örugglega verið í fyrsta sinn sem einhver í þessu ræðupúlti hefur vitnað í Lenín, þar sem stundum líða áratugir og stundum er á einhverjum vikum eins og áratugir hafi liðið og við erum bara að lifa þannig tíma núna.“