Borgarstjórinn í Reykjavík stýrir 14 þúsund manna fyrirtæki og þiggur fyrir það tæpar 3 milljónir á mánuði í starfskjör þegar talin eru saman laun og hlunnindi. Borgarstjóri sinnir auk þess launaðri formennsku í Samtökum sveitarfélaga. Samtals skila þessi störf starfskjörum sem nema 3,8 milljónum króna á mánuði. Ýmsir hafa býsnast yfir þessu, einkum þó Morgunblaðið og fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir urðu þó fyrir nokkru áfalli nú um helgina þegar upplýst var að greiðslur til formanns Samtaka sveitarfélaga höfðu hækkað um 50 prósent en ekki 170 prósent eins og fjölmiðlar höfðu staglast á.
Orðið á götunni er að fullkomlega sé eðlilegt að borgarstjóri Reykjavíkur njóti mjög góðra starfskjara fyrir að stýra stærsta fyrirtæki landsins sem hefur 14 þúsund starfsmönnum á að skipa. Forstjórar fyrirtækja sem eru með nokkur hundruð starfsmenn í þjónustu sinni bera tvöföld eða jafnvel þreföld þessi starfskjör úr bítum án þess að það þyki ástæða til neinna upphlaupa.
Morgunblaðið hefur haft sérstaklega mikinn áhuga á að fjalla um starfskjör borgarstjóra og hneykslast á þeim. Blaðið ætti frekar að líta sér nær. Ritstjóri blaðsins, sem væntanlega ákveður að siga vikapiltum sínum á borgarstjórann með þessum hætti, hefur sogað til sín hærri starfskjör á ferli sínum en nokkur annar opinber starfsmaður á Íslandi hefur gert. Samkvæmt tekjublaði Frjálsar verslunar frá árinu 2024, sem birtir upplýsingar um skattskyldar launatekjur nokkur þúsund Íslendinga, námu tekjur Davíðs Oddssonar frá árinu 2023 rúmlega 6,1 milljón króna á verðlagi frá miðju ári 2023. Framreiknað til verðlags núna eru það um 7 milljónir króna. Af þeirri fjárhæð nema starfskjör hans hjá Morgunblaðinu um 2 milljónum króna en 5 milljónir króna eru ellilaun hans einkum frá ríki, Reykjavíkurborg og Seðlabanka Íslands. Enginn Íslendingur hefur komið sér upp slíkum eftirlaunum með ákvörðunum á valdaferli sínum eins og Davíð. Hann ætti því að fara varlega í að hneykslast á starfskjörum ráðamanna því að steinkast úr glerhúsinu er aldrei skynsamlegt.
Davíð Oddsson kallaði Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra, „orlofssugu“ í fyrra þegar hann fékk uppgert ótekið orlof frá borginni. Við nánari skoðun kom á daginn að sjálfur Davíð Oddsson hafði fengið stærri fjárhæð uppgerða vegna orlofs þegar hann lét af störfum sem borgarstjóri og sumir aðrir borgarstjórar Sjálfstæðisflokksins höfðu fengið enn meira greitt vegna þessa. Þarna var því slegið vandræðalegt vindhögg sem hefði mátt læra af.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur einnig stigið fram full vandlætingar vegna starfskjara núverandi borgarstjóra og hrópað hátt. Hildur ætti einnig að fara varlega. Starfskjör hennar hjá borginni í valdalausum minnihluta eru um 2,5 milljónir króna á mánuði með þeim stjórnarstörfum sem hún gegnir á vegum borgarinnar. Hún hefur m.a. átt sæti í stjórn Faxaflóahafna sem er eitt best borgaða embættið sem völ er á í borgarkerfinu. Ef valdalaus minnihlutafulltrúi fær 2,5 milljónir á mánuði fyrir innihaldslaust garg í minnihluta, er engin ástæða til að hneykslast á starfskjörum borgarstjóra fyrir alla þá miklu vinnu og þungu ábyrgð sem því starfi fylgir.
Orðið á götunni er að meginástæða þess að sjálfstæðismönnum er umhugað um að borgarstjóri segi af sér formennsku í Samtökum sveitarfélaga er sú að þeir sjá ofsjónum yfir því að formennsku þar skuli gegna manneskja sem ekki er flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum eins og allir forverar hennar hafa verið. Flokkurinn telur sig „eiga“ þetta embætti. Forystu flokksins sárnaði mjög þegar Heiða Björg var kjörin formaður Samtaka sveitarfélaga við síðustu kosningu en ekki Rósa Guðbjartsdóttir fulltrúi flokksins. Rósa var þá bæjarstjóri í Hafnarfirði (og var tilbúin að bæta þessu við starf sitt þar) en er nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Sumir atburðir fyrirgefast seint! Engin ástæða er fyrir Heiðu Björg að segja af sér formennskunni enda eru verkefni Samtaka sveitarfélaganna nátengd störfum sveitarstjórnarmanna.
Hitt er svo annað mál að starfskjör almennra borgarfulltrúa, að ekki sé talað um varaborgarfulltrúa, í Reykjavík eru úr öllum tengslum við raunveruleikann. Eðlilegt að þeir sem bera mesta ábyrgð eins og borgarstjórinn njóti góðra launa. En að almennir borgarfulltrúar beri 1,5 milljónir króna úr bítum á mánuði og upp í 2,5 milljónir er vitanlega galið. Þar á meðal fólk sem er með öllu valdalaust og kemur ekki að neinum mikilvægum ákvörðunum en gerir helst vart við sig með marklausu nöldri. Þá er vandséð að stjórnsýsla borgarinnar hafi batnað við að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23. Full ástæða er til að fækka þeim aftur niður í 15. Við það myndu sparast verulegir fjármunir og trúlega ætti stjórnsýslan að batna við það.
Orðið á götunni er að úr því að kastljósi er beint að starfskjörum borgarstjóra sé ástæða til að skoða starfskjör sveitarstjóra á landinu. Í fyrrnefndri samantekt Frjálsrar verslunar frá í fyrra kom m.a. fram að fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ og bæjarstjóri Hafnarfjarðar höfðu fengið hærri laun en þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur en hann hafði svipuð laun og bæjarstjórar Akureyrar, Kópavogs og Reykjanesbæjar sem eru vitanlega litlar og einfaldar rekstrareiningar saman borið við höfuðborgina þar sem nærri 40 prósent landsmanna búa.
Orðið á götunni er að stundum sé vert að telja upp að tíu áður en steinum er kastað úr glerhúsunum.