Frá því var greint í liðinni viku að laun nýs borgarstjóra, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, næmu tæpum fjórum milljónum króna á mánuði. Þar af þiggur hún 762.921 krónu fyrir formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga en þær greiðslur hafa hækkað um 50 prósent frá byrjun árs 2023. Heiða Björg fær að auki 105.750 krónur vegna aksturs svo fyrir formennskuna þiggur hún samtals 868.671 krónu á mánuði. Um er að ræða einn til tvo fundi á mánuði sem haldnir eru á venjulegum dagvinnutíma og því illskiljanlegt hvers vegna fjárhæðin er jafn há og raun ber vitni.
Sjálfur var borgarstjóri ekki til svars um ofurlaun sín á borgarstjórnarfundi á dögunum en sú spurning vaknar eðlilega hvort ekki væri rétt að hann færi fram með góðu fordæmi og lækkaði laun sín myndarlega til að sýna vilja til hagræðingar — enda ekki vanþörf á. Í þessu sambandi er alls ekki ósanngjarnt að spyrja um prinsipp þeirra sem veljast til forystustarfa fyrir land og þjóð — eða hafa menn það beinlínis að markmiði að skara eld að eigin köku?
En hvort sem kjörnir fulltrúar skammta sér ofurlaun eða ekki er rétt að til þeirra séu gerðar ríkar kröfur. Sú var nefnilega tíð að sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni fóru ítrekað fram á að Reykjavík yrði skattlögð sérstaklega — enda nyti hún svo mikillar stærðarhagkvæmni og skaraði fram úr í hvers kyns þjónustu við íbúa. Nú gengur borgarstjóri með betlistaf á fund fjárveitingarnefndar Alþingis ár hvert og traust almennings til borgarstjórnar er farið veg allrar veraldar. Veldur hver á heldur.
Svo allrar sanngirni sé gætt þá glíma fleiri sveitarfélög en Reykjavík við rekstrarvanda og miklar skuldir. Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar nokkra áratugi aftur í tímann kemur í ljós að árin 1980 til 2023 var heildarrekstrarniðurstaða sveitarstjórnarstigsins neikvæð í 36 ár af 44. Í fyrra námu heildarskuldir sveitarstjórnarstigsins 574 milljörðum króna og uppsöfnuð neikvæð afkoma 602 milljarðar króna. Uppsöfnuð afkoma ríkisins var á sama tíma neikvæð um 1.233 milljarða svo sjá má hversu þungt afkoma sveitarfélaganna vegur í heildarsamhenginu.
Því mætti velta upp hvort ekki væri rétt að takmarka verulega heimildir sveitarfélaga til skuldsetningar — líkt og til að mynda gildir í Danmörku. Jafnvel þannig að samþykkja yrði skuldsetningu í íbúakosningu. Ef við berum þetta saman við húsfélag í fjölbýlishúsi þá þarf að leggja stærri ákvarðanir og skuldsetningar í atkvæðagreiðslu allra þeirra sem eiga hlutdeild í viðkomandi sameign — og sveitarfélag er eins konar húsfélag eða lóðafélag í sinni einföldustu mynd.
Ef rýnt er betur í tölur Hagstofunnar kemur í ljós að hallarekstur sveitarfélaganna jókst umtalsvert á fyrri hluta tíunda áratugarins — raunar nokkru áður en grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Síðan þá hafa sveitarfélögin tekið við ýmsum öðrum kostnaðarsömum verkefnum frá ríkinu og hallarekstur aukist með hverju ári. Bæjarfulltrúar gagnrýna oftlega að „fjármagn fylgi ekki“ nýjum verkefnum. Sjálfsagt er sitthvað til í því en sveitarfélögin hafa líka verið ötul við að taka að sér ólögboðin verkefni og jafnan lítt verið hugað að leiðum til sparnaðar í rekstri. Raunar þekkjast þess varla dæmi að menn gefi kost á sér til bæjarstjórna undir þeim formerkjum að þeir hyggist sýna ráðdeild og vilji lækka útsvar. Pólitíkin gengur öll út á það hvernig eyða eigi skattfé.
Sú spurning er líka áleitin hvort atgervisflótti hafi orðið úr sveitarstjórnum, hvort þar sitji nógu hæfir einstaklingar. Reykjavíkurborg er stærsta fyrirtæki landsins og borgarstjórnin á að hafa um margt áþekka stöðu og stjórn hlutafélags og því brýnt að fækka borgarfulltrúum, kannski niður í svona níu. En ætli margir núverandi borgarfulltrúa hafi reynslu af atvinnurekstri?
Það flækir vandamálið að í Reykjavík eru allir borgarfulltrúarnir 23 (og átta varaborgarfulltrúar að auki) í fullu starfi sem pólitíkusar. Við erum komin með hálft Alþingi í Ráðhúsinu. Þetta er séríslensk vitleysa og þekkist ekki einu sinni í milljónaborgum Skandinavíu að allir borgarfulltrúar séu pólitíkusar í fullu starfi. Þessir borgarfulltrúar Reykvíkingar drýgja síðan tekjurnar með nefndarsetum. Áðurnefnd Heiða Björg þiggur sem dæmi 229.151 kr. á mánuði fyrir setu í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hún er sjálfsagt mjög hæf til þeirrar setu, en almennt er samt litlu sem engu skeytt um kunnáttu við val á fólki til setu í nefndum og ráðum borgarinnar — enda nefndarsetan eingöngu hugsuð sem bitlingur. Vanhæfnin verður líka æ oftar hrópandi eins og nýlega sást í tilfelli stjórnar Sorpu vegna misheppnaðrar jarðgerðarstöðvar eða hvernig skóla- og frístundaráð borgarinnar var ófært um að bregðast við alvarlegum agavanda í Breiðholtsskóla. „Skýrari verkferlar“ geta nefnilega aldrei leyst af hólmi raunverulega þekkingu á málum.
Í stað þess að búa sveitarfélögum fleiri skattstofna má velta því fyrir sér hvort ekki væri hreinlega rétt að færa verkefni aftur frá sveitarfélögum til ríkis, mætti í því sambandi nefna grunnskólann og málefni fatlaðra. Hvað grunnskólann varðar blasir við að árangurinn er engan veginn sem skyldi þrátt fyrir gríðarmikinn kostnað. Þar mætti hvort tveggja í senn draga úr kostnaði og á sama tíma bæta árangur nemenda mikið sé tekið mið af skólakerfum hinna Norðurlandanna. Með því að færa þessi verkefni á ný til ríkisins hefðu sveitarfélögin færri og afmarkaðri verkefnum að sinna. Gleymum heldur ekki að í norrænum samanburði er Ísland eins og fylki, amt eða fremur stórt bæjarfélag. Danir eru 16 sinnum fleiri en við, Svíar 27 sinnum.
Þetta leiðir líka hugann að sameiningu sveitarfélaga — en ég hygg að menn hafi um sumt gengið of langt í þeim efnum. Það er eðlilegt að íbúar stjórni sem mest sjálfir einfaldari málum í sínu nærumhverfi, sér í lagi á strjálbýlli svæðum en kauptún með þrjú hundruð íbúa mun aldrei geta sinnt vel allri þeirri þjónustu sem nú er ætlast til af sveitarfélögum svo dæmi sé tekið. Sú spurning vaknar hvort hreinlega sé sanngjarnt að gera nákvæmlega sömu kröfur til allra sveitarfélaga. Í tilfellum minnstu sveitarfélaganna getur þjónusta við einn fjölfatlaðan einstakling verið sligandi svo dæmi sé tekið. Er ekki skárra að ríkið beri þann kostnað en að viðkomandi sé slíkur baggi á sveitarfélaginu?
Eitt eru lögboðnu verkefnin annað gæluverkefnin. Ég kynntist því vel þegar ég sat sem varaborgarfulltrúi að ýmsir kjörnir fulltrúar virtust ekki sjá nein takmörk á viðfangsefnum hins opinbera. Einhverju sinni sat ég sem varamaður á fundi í menningarmálanefnd borgarinnar þar sem meirihlutinn var að skipuleggja málfund um kosningarétt kvenna, ákveða lit á dúkum og munnþurrkum og þar fram eftir götunum og virtist skemmta sér konunglega. Ég spillti gleðinni með því að greiða atkvæði á móti og lét bóka að viðburðahald af þessu tagi væru á verksviði frjálsra félagasamtaka — ekki hins opinbera. Gæluverkefnin verða þeim mun ámælisverðari í ljósi þess hversu slælega sveitarfélögin sinna oft grunnþjónustunni.
Af því að hér var í upphafi fjallað um ofurlaunaða sveitarstjórann í stærsta sveitarfélaginu þá er raunar talað um framkvæmdastjóra í sveitarstjórnarlögunum. Þar segir að sveitarstjórn ráði framkvæmdastjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélags. Þar er líka gert ráð fyrir því að framkvæmdastjóri geti sinnt rekstri fleiri en eins sveitarfélags. Ein leið út úr þeim vanda sem við er að etja er að það verði fremur regla að sveitarfélögin ráði hæfa rekstrarmenn til að reka sveitarfélögin. Hinir kjörnu fulltrúar geta þá einbeitt sér að pólitískri stefnumörkun. Allt um það þarf að hverfa frá þeirri öfugþróun að borgarfulltrúar í Reykjavík séu í fullu starfi, draga úr umsvifum sveitarfélaga og takmarka möguleika þeirra til skuldsetningar. Við þurfum að horfast í augu við það öngstræti sem opinber rekstur er lentur í og þar standa sveitarfélögin sýnu verr en ríkið.