Nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins er óskað velfarnaðar í störfum sínum á komandi misserum, enda er mikilvægt að margvíslegar og ólíkar stjórnmálahreyfingar hér á landi hafi á að skipa góðu fólki og vel meinandi manneskjum.
Það var líka vel til fundið að til forystustarfa í þessum gamla, og á stundum karllæga valdaflokki, hafi valist kona, sem kemur þar að auki úr atvinnulífinu, og þekkir hvernig einkaframtakið á stundum erfitt uppdráttar í hagsmunagæsku íhaldsaflanna hér á landi, sem líta á völdin eins og hvert annað erfðagóss.
Konan sú hin sama óskar nú eftir því að flóttafólkið úr flokknum skili sér til baka. Hún væntir þess að gamli fjörutíu prósenta kjölfestuflokkurinn nái fyrri styrk sínum, með á að giska 25 manna traustum þingflokki. Hún unir auðvitað ekki nýjum veruleika; tuttugu prósenta fylgi og hartnær helmingi færri þingmönnum en flokkurinn hefur vanalega státað af.
Hún kallar á alla þá sem ýmist hafa flúið yfir í meira afturhald eða frjálsyndi en Sjálfstæðisflokkurinn stendur núna fyrir. Gott og vel.
En gæti vandi flokksins verið dýpri og sárari? Líklega, er stutta svarið. Og það langdregnara fjallar um stjórnmálaafl sem hefur afvegaleiðst um árabil. Það boðar eitt, en breytir á annan veg. Það er saga Sjálfstæðisflokksins, í það minnsta í hálfa öld.
Látum vera að hann hafi einmitt barist gegn einstaklingsfrelsi og frjálsi samkeppni um áratugaskeið. Og leyfum afkomendum Pálma í Hagkaupum og Jóhannesar í Bónus að botna þá söguna.
„Staðan er því svofarandi; fólkið fór ekki neitt, heldur flokkurinn, sem hafði ef til aldrei snefil af áhuga á því að haga sér í samræmi við stefnumál sín.“
En flokkurinn er líka svo áhugasamur um uppivöðslu báknsins að það er eins og ríkisforsjárhyggjan leki af honum. Sósíalistar og Vinstri grænir gætu ekki gert betur en Sjálfstæðisflokkurinn í því að breiða báknið út. Þeir hefðu einfaldlega ekki sama ímyndunarafl og D-listinn í þeim efnum.
Á síðasta valdaskeiði valdaflokksins fjölgaði ráðuneytum úr 8 í 12. Það er um helming, ef sá sem hér lemur lyklaborðið, kann eitthvað að reikna. Á þessum tíma, frá 2016, var Stjórnarráðið þanið út á alla vegu, jafnt að starfsmannafjölda og verkefnum, sem sum hver voru beinlínis búin til svo flokksgæðingar hefðu eitthvað við að vera á ráðherrakontór sínum.
Þá var afráðið að tvöfalda í hópi aðstoðarmanna ráðherra, og margfalda starfsmannafjölda allra þingflokkanna, svo gamlir þingmenn klóra sér í kollinum yfir útþenslunni.
Svo er það lýsandi fyrir blæti báknverjanna að fjölga ríkisstarfsmönnum um meira en 20 af hundraði á þessum tíma, á meðan starfsfólki á almennum vinnumarkaði fjölgaði innan við 5 prósent.
Loks er frá því að greina að á síðasta valdaskeiði Sjálfstæðisflokksins hefur launaskrið orðið svo ofboðslegt innan geira opinberra starfsmanna að venjuleg einkafyrirtæki hafa ekki roð við ríkinu hvað varðar kjör og þóknun. Á hefðbundnum verkfræðistofum úti í bæ gætir flótta fólks yfir til stofnana og opinberra hlutafélaga vegna hærri launa, minni vinnutíma, tryggara starfsumhverfis, betri eftirlauna og styttri starfsævi en einkageirinn getur boðið upp á.
Staðan er því svofarandi; fólkið fór ekki neitt, heldur flokkurinn, sem hafði ef til aldrei snefil af áhuga á því að haga sér í samræmi við stefnumál sín. Til þess var hagsmunavarslan í þágu innmúraðra og innvígðra bara alltof mikil.
Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins á þar af leiðandi ekki að biðja fólkið um að snúa aftur heim. Heldur flokkinn.