Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins krafði Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra svara um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Guðrún telur að breytingarnar hafi verið unnar í flýti og án samráðs við þau samfélög og fólk sem eiga allt sitt undir útgerðinni. Hún vildi vita hvernig það samræmist vandaðri stjórnsýslu og réttlætissjónarmiðum að fara í þessar breytingar án betri undirbúnings og án samráðs.
Hanna Katrín svaraði Guðrúnu og tók undir að sjávarútvegurinn sé ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og vissulega skipti máli að vanda til verka. Það skipti líka máli að það ríki sátt um sjávarútveginn en sú hafi raunin ekki verið lengi. Það hefur verið gap milli þjóðar og útgerðar hvað varðar réttlátan arð þjóðarinnar af nýtingu þessarar auðlindar. Nú sé ætlunin að leiðrétta veiðigjöldin til að ná fram þeim vilja sem Hanna Katrín telur að löggjafinn hafi haft þegar lögin voru sett „að einn þriðji af áætluðum hagnaði, tekið tillit til tekna, raunverulegs aflaverðmætis og útgjalda, rynni til þjóðarinnar og tveir þriðju til útgerðarinnar. Þessi leiðrétting er einfaldlega til þess gerð að það raungerist“.
Hvað varðar áhrif á útgerðina þá hafi frítekjumark eins verið hækkað og eins sé frumvarpið nú í samráðsgátt. Það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna eða ráðherra að svara fyrir um viðbrögð útgerðarinnar, verði viðbrögðin þau að loka vinnslum úti á landi og færa jafnvel erlendis.
„Það er algerlega, og ég ætla bara að leyfa mér að segja það, það er galin framkvæmd í atvinnugrein sem malar gull.“
Guðrún sagði þetta svar ekki draga úr áhyggjum hennar. Veruleg hækkun veiðigjalda geti haft veruleg áhrif á umsvif og afleidd umsvif í sjávarútvegi og þar með á aðrar tekjur ríkissjóðs. Engin greining hafi verið gerð á þessum áhrifum og ekki einu sinni á því hvort þessi hækkun muni virkilega skila sér í meiri tekjum fyrir hið opinbera til lengri tíma. Eins sé ekki tekið tillit til yfirvofandi tollastríðs. Guðrún spurði því hvort ráðherra þætti forsvaranlegt að ráðast í þessar breytingar án þess að meta áhrif þeirra fyrir ríkissjóð. „Er það ábyrgt að taka slíka áhættu með almannafé bara til þess að slá pólitískar keilur?“
Hanna Katrín sagði Guðrúnu full svartsýna í þessu og „ég vona að það þýði ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé að skipta sér í sveit með stórútgerðinni í því að það séu eðlileg viðbrögð við þessari eðlilegu leiðréttingu að láta það koma niður á fólkinu á landsbyggðinni og hóta lokun á vinnslu umfram það sem efni standa til. Við skulum hafa það í huga að hér hefur vinnslum fækkað jafnt og þétt síðustu ár án þess að eðlileg veiðigjöld komi til“
Hanna segist vera vongóð um að tollastríð muni ekki ná til fisksins okkar en slík áhrif hafi þó augljóslega áhrif til lækkunar veiðigjalds þar sem veiðigjald er reiknað af hagnaði. Þegar vel ári hækki því gjöldin sem þjóðin fær og þegar illa ári komi minna. Þannig eigi það að vera. Svo sé það þannig að veiðigjöld séu frádráttarbær frá tekjuskatti þannig ekki sé um fulltvöföldun á veiðigjöldum að ræða.