Fjölskyldan í Vestmannaeyjum hefur eignast heildverslun sem ræður mörgum þekktustu vörumerkjunum í dagvöru sem Íslendingar kaupa flestir nánast í hverri viku. Ísam & ÓJ&K selur einnig sígarettur, vindla, sterkt áfengi, léttvín og bjór þannig að fólk er trúlega að versla við Guðbjörgu Matthíasdóttur og fjölskyldu miklu oftar en það gerir sér grein fyrir. Þá er heildverslunin stór í sölu á helstu snyrtivörum og það er ekki einu sinni hægt að kaupa sér góðar golfvörur án aðkomu þeirra því heildverslunin er með umboð fyrir PING og Titleist. Undir hatti heildverslunarinnar er einnig stórhýsið Korputorg sem er eitt stærsta verslunarhús landsins.
Orðið á götunni er að þú getir ekki gert venjuleg vikuinnkaup af neysluvörum til heimilis án þess að versla við fjölskylduna í Vestmannaeyjum því að umboð heildverslunar þeirra eru svo víðtæk. Sem dæmi má nefna: Myllan, Ora, Findus, Del Monte, Colgate, Ariel, Frón, Gillette, Kims, Orkla, Palmolive, Rúbín, Santa María, Sacla, Vilko og þannig mætti lengi telja. Vestmannaeyjafjölskyldan á matvælafyrirtækin Mylluna, Ora, Frón og fleiri.
Til viðbótar við rekstur á neysluvörumarkaði á Vestmannaeyjafjölskyldan fyrirtækið Fastus sem selur vörur til hótela og veitingahúsa, auk þess að hafa haslað sér völl í sölu á heilsutengdum varningi. Meðal annars er um að ræða rekstrar-og fjárfestingarvörur sjúkrahúsa. Fjölskyldan kemur einnig við sögu í iðnaði og er stórtæk í fasteignarekstri með útleigu á mikilvægum fasteignum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er hún talin eiga ráðandi hlut í Árvakri sem hefur útgáfu Morgunblaðsins með höndum. Trúlega er það eini rekstur fjölskylduna sem skilar engum peningalegum arði.
Þessar miklu fjárfestingar hafa orðið mögulegar vegna mikils og langvarandi hagnaðar Ísfélags Vestmannaeyja sem hefur með höndum myndarlegan rekstur í Vestmannaeyjum, á Þórshöfn og nú síðast á Ólafsfirði og Siglufirði eftir að hafa sameinast sjávarútvegsfyrirtækinu Þormóði Ramma. Fjölskyldan hefur haldið vel á sínum spilum og á hrós skilið fyrir það. Ekkert er í sjálfu sér gagnrýnisvert annað en það að reynt er að telja landsmönnum trú um að verið sé að gera atlögu að fyrirtækjasamsteypu þeirra muni afnotagjald að gjafakvótakerfinu nú hækka í átt að sanngjarnari leigu fyrir afnotin. Það er fjölskyldunni til lítils sóma að hrópa núna í angist að útlitið sé svart þótt leigugjaldið hækki.
Orðið á götunni er að vitanlega þurfi að beina sjónum að mörgum öðrum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum en Ísfélaginu. Fyrir umframhagnað vegna afnota af gjafakvótakerfi Íslendinga hafa þessi fyrirtæki fjárfest grímulaust í öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi og eru sum þeirra á góðri leið með að koma sér þannig fyrir í atvinnulífi landsmanna að veruleg hætta stafar af.
Ætla má að innan skamms verði birt samantekt um þær miklu fjárfestingar sem þessi fyrirtæki hafa ráðist í á undanförnum árum og ráðið vel við vegna afbragðsgóðrar afkomu í greininni sem er ekki í neinu samræmi við afkomu almennt í viðskiptum á Íslandi. Fyrirtækin hafa fyrir utan margvíslegar fjárfestingar í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum keypt upp fasteignir og eignarhluti í flutningafyrirtækjum, vátryggingafélögum, iðnfyrirtækjum, stórmörkuðum, heildverslunum og almennri verslun. Á þeirra vegum hafa meira að segja risið myndarlegustu nautgripabú landsins.
Orðið á götunni er að upphrópanir og hræðsluáróður vegna fyrirhugaðrar hækkunar veiðileyfagjalda séu forsvarsmönnum þessara fyrirtækja og gjallarhornum þeirra til minnkunar.