fbpx
Mánudagur 31.mars 2025
Eyjan

Framsóknarmenn sárir og svekktir á Alþingi – „Vera ekki að hreykja sér af verkum annarra“

Eyjan
Fimmtudaginn 27. mars 2025 13:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluvert var deilt á Alþingi fyrr í dag en þingmenn Framsóknar lýstu yfir mikilli óánægju með umræðu um orkuöryggi garðyrkjubænda sem fram fór á milli Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis-, orku og loftslagsráðherra og samflokkskonu hans Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Sökuðu Framsóknarmenn Ásu Berglindi um að hafa að farið yfir mörk kurteisinnar með því að eigna sér þingmál þeirra um orkuöryggi en því neitaði Ása Berglind alfarið.

Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins hóf umræðuna. Hún sagði að þær spurningar sem Ása Berglind beindi til ráðherrans hafi verið mjög skyldar áherslum í þingmáli Framsóknarmanna um orkuöryggi almennings:

„Það vekur upp alvarlegar spurningar þegar sömu stjórnarþingmenn sem hafa hingað til verið lítt sýnilegir í þessum málaflokki leitast nú við að eigna sér forgangsmál annarra. Þá er einfaldlega verið að stíga yfir hin almennu kurteisismörk að mínu mati og maður spyr sig hvað segja þessi vinnubrögð um heilindin?“

Ása Berglind kom þá upp í ræðustól og harðneitaði að hafa eignað sér þingmál Framsóknar. Sagðist hún ekki hafa lesið umrætt þingmál:

„Ég verð að játa það þó ég sé ekki stolt af því.“

Sagðist Ása Berglind hafa byggt sínar spurningar til ráðherrans á samtölum sínum við garðyrkjubændur enda væru það þeir sem væru að glíma við skort á orkuöryggi:

„Þannig að ég ætla að frábiðja mér svona málflutning.“

Samhljómur

Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins furðaði sig á því hvers vegna þingmenn væru ekki að fagna því að samhljómur væri í málflutningi þeirra og að málefni sem þeim lægi á hjarta væru rædd og þeir fengju þannig hugsjónum sínum farveg í þinginu.

Ingibjörg kom þá aftur upp í pontu og lagði áherslu á að hennar athugasemdir sneru ekki að sjálfu málinu:

„Þetta snýst hér um verklagið hjá stjórnarþingmönnum … Þetta snýst um heilindin, þetta snýst um heiðarleika.“

Vildi Ingibjörg meina að venjan væri sú á Alþingi að þingmenn væru ekki að leggja fram mál sem væru samhljóða málum annarra þingmanna. Um þetta hefði ríkt heiðursmannasamkomulag.

Að eiga málið

Guðmundur Ari Sigurjónsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði umræðuna óneitanlega sérstaka og benti Framsóknarmönnum á að það væri einfalt mál fyrir þá að óska eftir sérstakri umræðu um orkumál við Jóhann Pál. Hann sagði að þingstörf virkuðu ekki eins og Framsóknarmenn væru að halda fram:

„Þingstörf virka ekki þannig að sá sem er fyrstur til að vekja athygli á einhverju máli eigi það mál.“

Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrum orkumálastjóri hefur farið fyrir þingflokknum í orkumálum á þessu kjörtímabili og er fyrsti flutningsmaður þessa þingmáls um orkuöryggi sem flokkssystir hennar Ingibjörg Isaksen var að vísa til. Ljóst er á orðum Höllu Hrundar að hún er ekki sátt við framgöngu Ásu Berglindar:

„Mér leiðist það sem nýr þingmaður sama hvort það er í þessu máli eða öðrum þegar þingmenn eru að tala um verk annarra, sem eru kannski búin að vera lengi í undirbúningi, eins og sín eigin verk. Eru ekki langmestu heilindin að hrósa vinnu sem gerð hefur verið á síðasta kjörtímabili, bæta við hana.“

Lagði Halla Hrund áherslu á að þingmenn hrósuðu vinnu hvers annars:

„Þetta snýst um það að vera ekki að mynda skotgrafir. Vera ekki að hreykja sér af verkum annarra.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Barnaskapur á Alþingi

Svarthöfði skrifar: Barnaskapur á Alþingi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna