fbpx
Föstudagur 18.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði
Miðvikudaginn 26. mars 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú mun vera fimbulvetur fram undan á Íslandi, hungursneyð vofir yfir hringinn í kringum landið, búbrestur inn til sveita, aflabrestur og hráefnisskortur í sjávarplássum og messufall líklegt, jafnvel í stærstu sóknum. Innviðir munu grotna og fjárfesting þurrkast upp. Eftirhreyturnar verða móðuharðindunum harðari og landið óbyggilegt til lengdar.

Lýsingin hér að ofan er samantekt Svarthöfða á spádómum talsmanna útgerðarinnar um afleiðingar þess að veiðigjaldið verði leiðrétt þannig að eftirleiðis verði miðað við raunverulegt verð á fiskinum úr sjónum þegar veiðigjöld þiggjenda þess, sem hingað til hefur verið réttnefndur gjafakvóti, eru reiknuð út. Fram til þessa hefur verið miðað við eitthvert málamyndaverð sem kvótakóngar kokka upp þegar fiskvinnslan sem þeir eiga kaupir aflann af skipinu sem þeir eiga líka.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, bendir á að öll áhrifin af leiðréttingu veiðigjalda séu nú ekki meiri en svo að í stað þess að kvótagreifarnir fái um 95 milljarða beint í vasann á hverju ári verði það í kringum 85 milljarðar. Engu að síður veinar þá útgerðin og sérstök sérhagsmunasamtök hennar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, eins og stungnir grísir og spá hér landauðn.

Svarthöfði veit ekki hvort hann á að hlæja eða gráta yfir viðbrögðum þessarar helstu forréttindastéttar landsins, sem í fjörutíu ár hefur þegið ríkulegar gjafir þjóðarinnar í formi nánast ókeypis einkaréttar til nýtingar á sameiginlegri þjóðarauðlind. Því er haldið fram að verði veiðigjöldin leiðrétt muni það hafa þær afleiðingar að fjárfesting í sjávarútvegi hrynji með ófyrirséðum afleiðingum fyrir land og þjóð. Á milli línanna má lesa að útgerðarmennirnir okkar séu í raun að fórna sér fyrir land og þjóð með því að standa í þessu basli, blessaðir öðlingarnir sem aldrei fái nema skít og skömm fyrir.

Svarthöfði veltir því fyrir sér nákvæmlega hvaða fjárfesting það er sem talsmenn gjafakvótahafa hafa áhyggjur af því að muni hrynja þegar vasinn léttist úr 95 milljörðum í 85. Þýðir það kannski að ríkustu útgerðarmennirnir muni ekki lengur geta keypt upp helstu heild- og smáverslanir landsins. Þarf Guðbjörg í Eyjum kannski að selja frá sér Ora grænar baunir og Myllubrauðin? Og hvað með Íslensk-ameríska og Ó. Johnson & Kaaber? Á þetta veldi kannski bara allt að hrynja til grunna? Já, og hvað með fasteignafélögin sem kvótagreifarnir hafa af góðmennsku sinni séð fyrir fjármagni til að þau geti keypt upp íbúðir og haldið uppi bæði fasteignaverði og leigu? Gerir fólk sér almennt fyrir því hvað gerist ef yfirspennan á húsnæðismarkaði gufar upp eins og hendi væri veifað?

Talsmaður gjafakvótagreifanna sá eina mögulega smugu fyrir ofsótta gjafakvótagreifa til að bjarga því sem bjargað verður. Jú, það verður bara siglt með aflann óunninn til Póllands og hann unninn þar. Þá líður íslensk fiskvinnsla undir lok. Allt ríkisstjórninni að kenna, segir talsmaðurinn og glittir í tár í hvarmi. Svarthöfði ímyndar sér að mótleikur ríkisstjórnarinnar yrði einfaldlega sá að innkalla aflaheimildir frá slíkum og koma þeim í hendur þeirra sem treysta sér til að vinna fisk hér á landi. Þar með væru hrjáðir greifarnir lausir úr baslinu

Óneitanlega er samt hugur Svarthöfða hjá köldum og hrjáðum útgerðarmönnum, sem fórna sér ár eftir ár af fórnfýsi fyrir land sitt og þjóð á sultarlaunum – 95 milljarðar á ári er vitaskuld ekki upp í nös á ketti – og fá ekkert fyrir annað en vanþakklæti og rógburð öfundarradda sem vaða uppi í samfélaginu. Hver á núna að halda uppi húsnæðisverði í landinu þegar búið er að skera kvótagreifana niður við nögl?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Þjóðarátak í ofbeldi

Steinunn Ólína skrifar: Þjóðarátak í ofbeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
15.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn
EyjanFastir pennar
15.03.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur