fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Eyjan

Hvað snýr upp og hvað snýr niður í máli Ásthildar Lóu?

Eyjan
Þriðjudaginn 25. mars 2025 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, sagði af sér embætti á fimmtudaginn eftir að frétt birtist hjá RÚV um að Ásthildur hefði fyrir 36 árum, þá 22 ára, átt í ástarsambandi við pilt á unglingsaldri og eignast með honum barn. Fjölmiðlar hafa í kjölfarið verið gagnrýndir fyrir að hafa ekki stigið nógu varlega til jarðar og virðist töluverð upplýsingaóreiða ríkja um málið. Hér verður gerð tilraun til að koma skipulagi á óreiðuna hvað helstu atriði varðar.

Sjá einnig: Ásthildur Lóa segir af sér – Eignaðist barn með unglingspilti þegar hún var 23 ára

Var Ásthildur leiðtogi í trúarsöfnuði?

RÚV birti fyrstu fréttina í málinu klukkan 18:00 á fimmtudaginn. Fréttin var svo uppfærð í minnst þrígang, fyrst klukkustund eftir birtingu, aftur þremur tímum síðar og svo enn aftur skömmu fyrir klukkan 11 morguninn eftir. Upphaflega var því slegið fram í fyrirsögn að Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefði leitt unglingastarf í trúarsöfnuðinum Trú og Líf í Kópavogi, en þar kynntist hún barnsföður sínum. Fyrirsögninni var fljótlega breytt og þar aðeins tekið fram að Ásthildur og barnsfaðir hennar hafi kynnst í trúarsöfnuði. Enn má þó finna í meginmáli fréttar eftirfarandi fullyrðingu: „Hún kynntist piltinum þegar hún leiddi unglingastarf í trúarsöfnuði í Kópavogi.“

Morguninn eftir að fréttin birtist gaf Ásthildur út yfirlýsingu vegna málsins. Þar tók hún fram að hún hafi aldrei verið forstöðumaður eða leiðbeinandi hjá þessum söfnuði.  Hún var einfaldlega ein af hópnum sem mætti á samkomur. Það var svo eldra fólk en hún sem stóð fyrir starfinu, leiddi og starfaði. Vísir ræddi í framhaldinu við einn stofnanda Trúar og Lífs sem kannaðist ekki við að Ásthildur hefði verið leiðbeinandi hjá söfnuðinum, ungliðastarfið hafi í raun ekki haft neina leiðbeinendur. Ekki var um skráðan söfnuð að ræða heldur hóp sem varð til úr öðrum hópi sem kallaðist Ungt fólk með hlutverk. Samkomur hafi verið félagslegar þar sem fólk kom saman til að syngja, leika, biðja og annað.

Helgi Seljan, fjölmiðlamaður, vann að frétt RÚV um málið og sagði í Silfrinu í gær að þessir tilteknu fundir hafi verið auglýstir sem unglingasamkomur. Fullyrðing um að Ásthildur hafi verið leiðbeinandi byggði á viðtali við barnsföður og ekkert óeðlilegt að unglingur hafi upplifað það svo að 22 ára manneskja á samkomu ætluð unglingum væri einhvers konar leiðbeinandi fremur en óbreyttur þátttakandi.

Af þeim auglýsingum um starfið sem birtust árið 1989 má ekki ráða að um einhver aldursmörk hafi verið að ræða, en Ásthildur hafði tekið þátt í starfinu frá 13 ára aldri.

Hvað voru þau gömul?

Ein mesta upplýsingaóreiðan varðandi málið varðar aldur málsaðila þegar atvik máls áttu sér stað. Mögulega má rekja það til fyrstu fréttar þar sem segir í formála:„Barnamálaráðherra átti í ástarsambandi við 15 ára pilt þegar hún var 22 ára og þau eignuðust saman son.“

Margir drógu þá ályktun af þessari upphafslínu að barnið hefði verið getið þegar pilturinn var 15 ára gamall eða jafnvel að hann hafi verið 15 ára þegar barnið kom í heiminn. Hið rétta er að barnsfaðir var orðinn 16 ára þegar barnið var getið og var tæplega 17 ára þegar barnið kom í heiminn, barnið fæðist í júní og barnsfaðir á afmæli í ágúst. Ásthildur segir í yfirlýsingu sinni að þó þau hafi kynnst fyrst áður en pilturinn varð 16 ára hafi ástarsamband ekki hafist fyrr en eftir afmælið og barnið í raun komið undir strax í upphafi. Sambandið hafi í heildina varað í fáeinar vikur. RÚV hafði umorðað lýsingu á fyrstu kynnum með eftirfarandi hætti:

„Fréttastofa hafði samband við manninn, Eirík Ásmundsson, sem gaf ekki kost á viðtali en staðfesti hins vegar að þau hefðu átt í ástarsambandi, sem hafi hafist fljótlega eftir að hann leitaði í trúarsöfnuðinn. Barn kom undir fljótlega eftir kynni þeirra, þá var pilturinn nýorðinn sextán ára og Ásthildur Lóa 23 ára.“

Þar með er ekkert komið fram sem hrekur þá fullyrðingu Ásthildar að sambandið hafi byrjað í september, eftir að pilturinn varð 16 ára, þó þau hafi vissulega kynnst fyrst þegar hann hafði ekki fagnað afmælinu.

Hvað með lögin?

RÚV fjallaði í frétt sinni um skilgreiningu á því hvenær fólk telst barn sem og hvaða þýðingu samband fullorðins við barn hefur samkvæmt íslenskum refsilögum. Margir drógu þá ályktun af þeirri málsgrein fréttarinnar að Ásthildur hefði gerst sek um refsiverðan verknað. Hér stafar upplýsingaóreiðan frá því að fréttin tekur mið af núverandi lagaumhverfi frekar en því sem átti við árið 1989.

Fréttin fullyrðir að einstaklingar undir 18 ára aldri séu börn í skilningi laga. Það er alveg rétt, en það var þó ekki kveðið á um það í lögum árið 1989. Sjálfræðisaldurinn var 16 ára allt frá tímum Jónsbókar fram til ársins 1997. Á þessum tímum var gerður afgerandi greinarmunur á sjálfræði og fjárræði hvað aldur varðar. Sjálfræðisaldurinn hafði verið sá sami í hundruð ára en fjárræðisaldurinn hafði tekið töluverðum breytingum. Sem dæmi má nefna að menn urðu fjárráða 25 ára árið 1831, en þetta var lækkað í skrefum þar til staðar var numið við 18 ára. Þegar sjálfræðisaldurinn var hækkaður árið 1997 kom fram að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland undirritaði í janúar árið 1990, væru allir einstaklingar undir 18 ára aldri börn. Til að uppfylla kröfur samningsins þyrfti því að breyta íslenskum lögum þar sem skilgreining á barni væri þar á töluverðu reiki. Til dæmis var í lögum um börn og ungmenni frá árinu 1992 gerður greinarmunur á barni og ungmenni. Börn voru einstaklingar innan við 16 ára aldur og einstaklingar á aldrinum 16-18 ára töldust ungmenni.

RÚV tók eins fram að samkvæmt lögum sé óheimilt að hafa samræmi við manneskju undir 18 ára aldri ef viðkomandi er til dæmis kennari hennar eða leiðbeinandi. Þarna var miðillinn annars vegar að vísa í 201. gr. almennra hegningarlaga, en það ákvæði tók grundvallarbreytingum árið 1992. Áður var ákvæðið kyndbundið við stúlku sem væri kjördóttir eða fósturdóttir geranda sem var karlmaður. Ekki var þar að finna vísun til gerenda sem hefði verið trúað fyrir kennslu eða uppeldi þolanda. Hins vegar var vísað til 198. gr. almennra hegningarlaga en láðist miðlinum þó að nefna að lagagreinin áskilur að gerandi hafi freklega misnotað aðstöðu sína. Árið 1989 byggði þetta ákvæði á sjónarmiðum um fjárhagslega eða atvinnulega kúgun. Orðalag um trúnaðarsamband kom ekki inn í lögin fyrr en árið 1992. Hvorugt lagaákvæði var því til í þeirri mynd sem það er í dag árið 1989 og geta því ekki átt við um mál Ásthildar, auk þess sem lagatilvísunin byggir alfarið á því að Ásthildur hafi verið leiðbeinandi, sem eins og áður er rekið er umdeilt.

Hvað með tálmunina?

Barnsfaðir sagði RÚV að Ásthildur hefði tálmað umgengni. RÚV rekur í frétt sinni að blaðamenn hafi undir höndum gögn sem staðfesti að barnsfaðir leitaði á árum áður eftir umgengni fyrir tilstuðlan dómsmálaráðuneytisins. Sumir hafa túlkað þann hluta fréttarinnar sem svo að þarna sé um sannaða tálmun að ræða. Svo er þó ekki. Þarna liggja fyrir gögn sem sanna að umgengnismál fór í gang hjá yfirvöldum, þar gerði barnsfaðir ákveðnar kröfur sem Ásthildur hafnaði og í kjölfarið komst á samkomulag um umgengni.

Bæði Ásthildur og sonur hennar neita því að um tálmun hafi verið að ræða. Þarna hafi barnsfaðir óskað eftir helgarumgengni eftir að hafa ekki hitt barn sitt í um það bil tvö ár. Ásthildur var að eigin sögn ekki tilbúin að samþykkja næturgistingu þar sem faðir og barn þekktust ekki. Málinu var því lokið með samkomulagi um stuttar heimsóknir. Ásthildur segir að ekki hafi svo komið til álita að auka umgengni þar sem barnsfaðir hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins. Feðgarnir eru ekki í sambandi í dag.

Á sama tíma segir í fréttinni að Ásthildur hafi á sama tíma og hún tálmaði krafist meðlags allt þar til drengurinn varð 18 ára. Þarna virðist barnsfaðir misskilja eðli meðlags. Meðlag er ekki gjald sem forsjárlaust foreldri borgar forsjárforeldri til að fá að hitta barn sitt. Árið 1989 var skýrt kveðið á um að framfærslueyrir, eða meðlagið, tilheyri barninu. Barnið er eigandi meðlagsins og talað um meðlagsskyldu því lögin gerðu ekki ráð fyrir því að þetta væru valfrjálsar greiðslur, og gera það ekki heldur í dag. Einu skiptin sem ekki þarf að semja um hver greiði meðlagið er í tilvikum þar sem foreldrar eru með sameiginlega forsjá og barn með skipta búsetu, en sú lagaheimild var nýmæli sem var lögfest árið 2022.

Var Ásthildur beitt þrýstingi?

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur skipt um gír síðan málið kom fyrst upp og fer nú mikinn út af afsögn Ásthildar. Er því haldið fram að oddvitar stjórnarflokkanna hafi ekki staðið við bak hennar í málinu heldur þrýst á hana að segja af sér. Ekki liggur fyrir hvaðan sá grunur kemur en Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær að þetta mætti lesa úr orðum Ásthildar þegar hún kallaði málið ósanngjarnt.

Ásthildur talaði um ósanngirni í framhaldi af ummælum um fréttaflutninginn sem slíkan. „Við vitum það hvernig fréttir eru í dag og við vitum að svona mál, ef að ég væri áfram ráðherra, væri dregið upp aftur og aftur og aftur og aftur og það yrði í rauninni aldrei neinn vinnufriður fyrir ríkisstjórnina og ekki heldur í málefnunum sem ég brenn fyrir í menntamálaráðuneytinu,“ sagði Ásthildur en þá spurði blaðamaður Vísis hvort henni þætti þetta ósanngjarnt og hún svaraði því játandi.

Forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, sem og utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sögðu báðar á þingi í gær að hér væri um ákvörðun að ræða sem Ásthildur tók sjálf. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði við blaðamenn á föstudag að málið væri harmleikur og gagnrýndi hún harðlega framgöngu fjölmiðla. „Við feng­um að upp­lifa hvernig við fáum að sjá einn ein­stak­ling mul­inn mél­inu smærra,“  sagði Inga.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málin enn frekar má benda á fréttir Vísis  og Mannlífs þar sem farið er yfir það sem er vitað og ekki vitað um málið.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Heiða Björg Hilmisdóttir: Kannski er mér kennt um að Sjálfstæðisflokkurinn komst ekki til valda

Heiða Björg Hilmisdóttir: Kannski er mér kennt um að Sjálfstæðisflokkurinn komst ekki til valda
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Tengdamóðirin var í sambandi við Áslaugu Örnu

Orðið á götunni: Tengdamóðirin var í sambandi við Áslaugu Örnu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Könnun – Hver tekur við af Ásthildi Lóu sem mennta- og barnamálaráðherra?

Könnun – Hver tekur við af Ásthildi Lóu sem mennta- og barnamálaráðherra?
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Höfnum vansældarviðskiptum og veljum vellíðan

Steinunn Ólína skrifar: Höfnum vansældarviðskiptum og veljum vellíðan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Hólmar skrifar: Kerfið sem knésetur foreldra langveikra barna

Sigurður Hólmar skrifar: Kerfið sem knésetur foreldra langveikra barna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ekki sama Jón og séra Jón hjá Sjálfstæðismönnum – sjá ekki bjálkann í eigin auga

Orðið á götunni: Ekki sama Jón og séra Jón hjá Sjálfstæðismönnum – sjá ekki bjálkann í eigin auga