Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að tryggja sanngjörn og réttlát auðlindagjöld sem endurspegla raunverulegt verðmæti náttúruauðlinda okkar og skila sanngjarnri hlutdeild til samfélagsins.
Veiðigjöld eru gjöld sem útgerðir greiða fyrir sérafnotarétt sinn af sameiginlegum fiskistofnum okkar allra. Núverandi reikningsaðferð veiðigjaldanna endurspeglar ekki raunverulegt aflaverðmæti nytjastofna og því er þörf á breytingum.
Reiknistofn veiðigjalda hefur hingað til byggst á verði sem Verðlagstofa skiptaverðs skráir en ekki raunverulegu markaðsverði. Þetta hefur leitt til þess að viðskipti með fisk innan samþættra fyrirtækja – þar sem sama aðili á bæði útgerð og vinnslu – hafa haft áhrif á verðmyndun. Oft hafa þessi viðskipti átt sér stað á undirverði, sem þýðir að veiðigjöld hafa verið of lág miðað við raunverulegt verðmæti aflans.
Þetta ætlum við að leiðrétta.
Með því að leiðrétta veiðigjöldin munu tekjur ríkissjóðs af þeim aukast um 10 milljarða króna, til viðbótar við þá 10,2 milljarða sem nú þegar eru greiddir. Þetta eru háar upphæðir, en vert er að hafa í huga að útgerðin er vel aflögufær.
Ef veiðigjöld hefðu verið reiknuð með réttum hætti fyrir árið 2023 hefði framlegð (EBITDA) útgerðarfélaga farið úr 93,8 milljörðum í 84,2 milljarða. Á sama tíma hefði samanlagður hagnaður fyrirtækjanna dregist saman úr 67,5 milljörðum í 59,9 milljarða.
Við viljum tryggja að þeir sem nýta auðlindir þjóðarinnar greiði eðlilegt gjald fyrir það, en um leið má minna á að veiðigjöld eru aðeins innheimt af hagnaði – það er, aðeins þegar vel gengur í greininni.
Samhliða þessu er mikilvægt að horfa til kostnaðar ríkisins við þjónustu við sjávarútveginn. Árið 2023 nam sá kostnaður um 11 milljörðum króna, en tekjur ríkisins af veiðigjöldum stóðu ekki einu sinni undir þeirri upphæð.
Með leiðréttingu á reikningsaðferð mun sjávarútvegurinn greiða sanngjarnt gjald fyrir auðlindina, sem tryggir réttláta skiptingu gæðanna og styrkir innviði þjóðarinnar. Við höldum áfram að styðja við atvinnugreinina, en jafnframt er eðlilegt að hún leggi sitt af mörkum til samfélagsins.
Einnig er rétt að árétta að ekki stendur til að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það hefur þjónað landinu vel og verður áfram grunnstoð í sjávarútvegi Íslands.
Höfundur er atvinnuvegaráðherra.