fbpx
Þriðjudagur 25.mars 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa þurft að víkja – steinkast flokksmálgagna úr glerhúsinu er vandræðalegt

Eyjan
Sunnudaginn 23. mars 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa velt sér upp úr máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur nú um helgina. Hún víkur úr ríkisstjórninni að eigin ósk þó að margir telji að ekki hafi verið nauðsyn á því. Með ákvörðun sinni tryggir hún að ríkisstjórnin þurfi ekki að standa í innantómu orðaskaki við stjórnarandstöðuna og málgögn hennar sem leita stöðugt að hálmstráum.

Orðið á götunni er að Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Miðflokksmenn ættu að varast að halda of langt út á þunna ísinn þegar kemur að því að beina spjótum að þeim ráðherra sem sagt hefur af sér. Það er vandræðalegt þegar steinum er kastað úr glerhúsum. Ekki er betra þegar staksteinum er kastað úr glerhúsi. Menn ættu ekki að hætta sér of langt út á þunna ísinn því að listi stjórnarandstæðinga sem hafa hrökklast frá völdum er býsna skrautlegur. Skoðum nokkur dæmi:

Sigríður Andersen, nú þingmaður Miðflokksins, var hrakin út úr ríkisstjórn þegar hún gegndi embætti dómsmálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Henni urðu á margvísleg mistök og Vinstri græn kröfðust afsagnar hennar. Sjálfstæðisflokkurinn lét undan kröfum Vinstri grænna og Sigríði var fórnar. Síðar var henni hafnar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Í fyrra gekk hún í Miðflokkinn og var kosin á þing fyrir hann.

Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við stöðu innanríkisráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2013 en varð að segja af sér vegna „lekamálsins“ svokallaða sem var hið vandræðalegasta. Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður hennar, tók á sig sök, „féll á sverðið“ eins og sagt er og uppskar fangelsisdóm fyrir verknað ráðuneytisins. Hanna Birna varð samt að segja af sér og hvarf út úr íslenskum stjórnmálum, rétt eins og jörðin hefði gleypt hana.

Illugi Gunnarsson tók við embætti menntamálaráðherra árið 2013 og náði með herkjum að sitja fram eftir árinu 2016 þrátt fyrir persónuleg vandræðamál sem rændu hann öllum trúverðugleika. Málið snérist um tengsl við íslenskt fyrirtæki sem naut fyrirgreiðslu menntamálaráðuneytisins erlendis á sama tíma og eigandi þess reyndist vera eigandi þess íbúðarhúsnæðis sem Illugi bjó í og var af mörgum talinn fjárhagslega háður umræddum leigusala. Málið var fyrst og fremst vandræðalegt og framganga Illuga ótrúverðug. Hann reyndi ekki fyrir sér að nýju í framboði enda var staða hans talin vonlaus.

Jón Gunnarsson var mjög ósáttur þegar hann þurfti að víkja úr stóli dómsmálaráðherra árið 2023 fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Eftir það hafði hann allt á hornum sér og þótti ekki bæta veika stöðu Sjálfstæðisflokksins með því. Hann lagðist loks svo lágt að reyna að bregða fæti fyrir Guðrúnu daginn fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins og ætlaði með því að koma í veg fyrir að hún yrði kosin formaður flokksins. Það fór á annan veg eins og kunnugt er. Jóni skolaði inn á þing úr varamannssæti þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér þingmennsku í byrjun þessa árs.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að víkja úr sæti forsætisráðherra vorið 2016 þegar upp komst um leynireikninga fjölskyldu hans í skattaskjólum. Hann var þá formaður Framsóknarflokksins en er nú formaður Miðflokksins í stjórnarandstöðu þeirri sem reynir af veikum mætti að gera sér mat úr brotthvarfi Ásthildar Lóu Þórsdóttur vegna 35 ára gamals ástarmáls. Mál Sigmundar Davíðs árið 2016 var alveg nýtt og lifandi á þeim tíma.

Þessu til viðbótar má nefna farsann frá árinu 2023 er Bjarni Benediktsson varð að víkja sem fjármálaráðherra vegna afglapa í starfi og „axlaði ábyrgð“ með því að flytja sig í annan ráðherrastól.

Orðið á götunni er að forystumenn þessara þriggja stjórnarandstöðuflokka hafi afar veika stöðu til að býsnast yfir afsögn ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Í tilvikum allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna er auðvelt að benda á dæmi um afsagnir sem höfðu raunveruleg áhrif enda var þar um raunveruleg pólitísk mál að ræða.

Enn á ný er bent á hið augljósa: Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ásthildur Lóa fær hrós úr óvæntri átt – „Mér finnst við eiga að viðurkenna og segja það þegar vel er gert“

Ásthildur Lóa fær hrós úr óvæntri átt – „Mér finnst við eiga að viðurkenna og segja það þegar vel er gert“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Runólfur Ólafsson: Komið að skuldadögum – einkabíllinn niðurgreiðir þungaflutninga á þjóðvegunum

Runólfur Ólafsson: Komið að skuldadögum – einkabíllinn niðurgreiðir þungaflutninga á þjóðvegunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Trúir og treystir forsætisráðherra Trump og hans liði virkilega!?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Trúir og treystir forsætisráðherra Trump og hans liði virkilega!?