fbpx
Sunnudagur 23.mars 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Eyjan
Laugardaginn 22. mars 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaflaskil hafa orðið í varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Bandaríkjastjórn, með einleikarann Donald Trump í forsæti, talar ekki lengur fyrir gildum alþjóðasamstarfs – og fer gegn þeim ákvæðum og reglum sem gilda innan Atlantshafsbandalagsins.

Hér er vert að hafa í huga að frá upphafi NATÓ-sáttmálans hefur efnahagssamstarfið verið svo samofið varnarsamvinnu aðildarþjóðanna að tala má um sömu hlið á sama peningi. Til þess var raunar samningurinn gerður; að þétta raðirnar á þeim sviðum sem mestu skipta. Sáttmálinn byggir því á sameiginlegri hugmyndafræði um fullveldi og frelsi, en jafnvel meiri athygli vekur, í ljósi nýjustu vendinga í heimsmálum, að áður en komið er að ákvæðum sem lúta að hervörnum í samningnum, er fjallað um mikilvægi efnahagslegrar samvinnu.

NATÓ-samningurinn styður sumsé afdráttarlaust við þjóðarrétt og viðskiptavild á milli aðildarríkja.

Það er í þessu ljósi sem augljóst er að nýir valdhafar í Washington hafa sagt skilið við sáttmála ríkjanna við norðanvert Atlantshaf. Þeir eru reiðubúnir að sölsa undir sig frjálsar nágrannaþjóðir, sem alla tíð hafa litið á Bandaríkin sem bandamann, og hafa þess utan reist áður óþekkta tollamúra til að verjast gömlum samherjum sínum. Skýrari geta vinslitin ekki verið.

Alvarleiki málsins er slíkur – og kaflaskilin sömuleiðis – að þær raddir heyrast að Kanada muni sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu. Og sjálfstætt Grænland muni gera það sömuleiðis á endanum.

Á meginlandi Evrópu eru viðbrögðin á einn veg. Lýðfrjálsar þjóðir álfunnar geta ekki lengur reitt sig á stuðning stórveldisins í vestri, og þurfa raunar miklu heldur að slást við hana, að minnsta kosti efnahagslega, og verjast að öðru leyti ágangi hennar í ofsóknarríku afturhaldi og alvarlegu bakslagi í mannréttindum.

„ … stærstu skilaboð Merz frá því í vikunni sem er að líða, eru auðvitað þau, að stóraukin útgjöld til hernaðaruppbyggingar merki ekkert annað „en fyrsta stóra skrefið í átt að nýju evrópsku varnarbandalagi.“

Nýir og áhrifaríkir leiðtogar Evrópu á borð við Friedrich Merz, kanslaraefni Kristilegra demókrata í Þýskalandi, tala fyrir vikið enga tæpitungu. Af orðum hans má ráða að gerbreyttir tímar séu runnir upp í álfunni. Hún geti ekki lengur reitt sig á aðra en sjálfa sig. Hún verði að taka til varna, og standa svo sterk saman, þjóð með þjóð, að hún hafi eitthvert roð við ógnum samtímans, jafnt í austri og vestri.

Þess vegna boðar hann að afnema „skuldabremsuna“ svonefndu í Þýskalandi, sem einhvern tíma hefði þótt óhugsandi í sögulegu ljósi, en ekkert lát verði á fjárframlögum næstu ára til uppbyggingar innviða og vígbúnaðar. Og til að það gangi eftir, samþykkti þýska sambandsþingið fyrr í vikunni umtalsverða breytingu á stjórnarskrá landsins, sem heimilar Þjóðverjum að skuldsetja sig meira í þágu varnarmála en þeim hefur nokkru sinni verið heimilt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þá verður settur á fót fimm hundruð milljarða evra sjóður til að bæta fjarskipti og samgöngur í landinu, svo það sé sem best undirbúið fyrir komandi ógnir og yfirgang.

En stærstu skilaboð Merz frá því í vikunni sem er að líða, eru auðvitað þau, að stóraukin útgjöld til hernaðaruppbyggingar merki ekkert annað „en fyrsta stóra skrefið í átt að nýju evrópsku varnarbandalagi.“ Hér er talað hispurslaust og ekkert dregið undan. En umrætt bandalag innifæli „lönd sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu, en hafi mikinn áhuga á að byggja upp þessa sameiginlegu evrópsku vörn okkar,“ og nefnir Merz þar til sögunnar Bretland og Noreg.

Og til að taka af öll tvímæli, og senda tóninn vestur um haf, segir Merz að nýja varnarbandalagið muni ekki nota nokkur önnur vopn en evrópsk.

Það er umhugsunarvert, að þegar ný Evrópa blasir við, heyrast hjáróma raddir heima á Íslandi, sem gjalda varhug við nánara samstarfi við Evrópusambandið. Einmitt núna sé ekki tímabært að treysta böndin austur um haf. Og spurningin er auðvitað sú hvort nesjamennskan geti verið meiri.

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu

Thomas Möller skrifar: Ræðum meira um Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Draga þarf úr umsvifum sveitarfélaga

Björn Jón skrifar: Draga þarf úr umsvifum sveitarfélaga
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Hlustið á Þorgrím Þráinsson

Björn Jón skrifar: Hlustið á Þorgrím Þráinsson
EyjanFastir pennar
22.02.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískasta þversögnin á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískasta þversögnin á Íslandi
EyjanFastir pennar
16.02.2025

Björn Jón skrifar: Stórauka þarf íþróttakennslu í skólum

Björn Jón skrifar: Stórauka þarf íþróttakennslu í skólum
EyjanFastir pennar
15.02.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Þetta kostar krónan okkur

Sigmundur Ernir skrifar: Þetta kostar krónan okkur