Orðið á götunni er að formaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri þingmenn hans hafi orðið sér til minnkunar með því að þrástagast í gær á rangfærslum úr fréttaflutningi Morgunblaðsins, RÚV og fleiri miðla um málið sem kennt er við frá farandi barnamálaráðherra löngu eftir að fram voru komnar upplýsingar sem hröktu þær rangfærslur. Vinnubrögð fréttamanna á þessum miðlum í þessu máli eru raunar svo hroðvirknisleg að með réttu mætti kalla eftir rannsókn á þeim.
Í útvarpsviðtali í hádeginu í dag afgreiddi Ólafur Harðarson, stjórnmálaprófessor emeritus, þær ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Kristrúnu Frostadóttur í þessu máli sem tilhæfulausar með öllu. Fátítt er að sá orðvari maður tali svo afdráttarlaust.
Orðið á götunni er að athyglisvert sé að einn mesti orðhákur í þingliði Sjálfstæðismanna hefur ekkert látið heyra frá sér opinberlega um mál Ásthildar Lóu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem fyrir þremur vikum var hársbreidd frá því að ná kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins, geystist fram á völlinn í síðustu viku og gagnrýndi Ásthildi Lóu harðlega fyrir ummæli hennar um dómstóla svo athygli vakti, ekki síst í því ljósi að ferill Áslaugar sem dómsmálaráðherra er í besta falli blettóttur.
Nú bregður hins vegar svo við að Áslaug Arna, sem sjaldan sleppir tækifæri til að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum, er þögul sem gröfin um þetta mikla hitamál. Orðið á götunni er að það sé ekki tilviljun ein.
RÚV birti í gær stórfurðulegt viðtal við fyrrverandi tengdamóður barnsföður Ásthildar Lóu. Einhvern veginn tókst fréttamanni ríkismiðilsins að horfa fram hjá því að þegar fyrrverandi tengdamóðirin lét þess sérstaklega getið í fundarbeiðni til forsætisráðherra að í lagi væri að barnamálaráðherra sæti fund þeirra var fundarbeiðandi sérstaklega búinn að aflétta trúnaði um erindið gagnvart barnamálaráðherra.
Látum það liggja milli hluta. Furðuviðtalið við tengdamóðurina fyrrverandi er ekki hið eina sem varpar skugga á vinnubrögð fréttastofu RÚV í þessu máli. Í tengslum við viðtalið birti RÚV tímalínu málsins út frá sjónarhorni tengdamóðurinnar fyrrverandi. Þar kemur fram að föstudaginn 14. mars sl., eftir að forsætisráðuneytið hafði tjáð tengdamóðurinni fyrrverandi að ekki yrði af fundi með forsætisráðherra vegna málsins, sendi tengdamóðirin fyrrverandi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, tölvupóst. Áslaug Arna hafði því vitneskju um erindi tengdamóðurinnar fyrrverandi minnst sex dögum áður en RÚV birti fyrstu frétt sína um málið á fimmtudagskvöld.
Orðið á götunni er að þessi tengsl Áslaugar Örnu kunni að skýra margt í þessum máli og hvernig árásum fjölmiðla á hendur Ásthildar Lóu og Kristrúnar Frostadóttur hefur verið háttað. Áslaug Arna var formannskandídat skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins í nýliðnum formannskosningum og margir hafa talið sig nema handbragð skrímsladeildarinnar í aðförinni gegn Ásthildi Lóu og ríkisstjórninni.
Áslaug Arna hefur mikil og bein tengsl við Morgunblaðið, sem er heimkynni skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins, og ef fréttaflutningur um þetta mál hefði hafist þar hefði það verið óþægilega nálægt þingmanninum. Orðið á götunni er að af þeim sökum hafi málinu verið lekið til Ríkisútvarpsins, til þess að búa til fjarvistarsönnun fyrir Morgunblaðið sem síðan var ekki lengi að hoppa á vagninn og básúna og magna upp allar rangfærslurnar sem komu fram í fréttaflutningi RÚV.
Orðið á götunni er eitthvað sé undarlegt við það að fyrrverandi tengdamóðir barnsföður barnamálaráðherra skuli skyndilega hafa fundið sig knúna til að flagga 40 ára ástarævintýri fyrrverandi tengdasonarins næstum þremur mánuðum eftir að Ásthildur Lóa settist í stól barnamálaráðherra. Og ansi er það skondið hve vel þetta fellur að hagsmunum valdamikilla og fjársterkra afla sem leynt og ljóst vilja þessa ríkisstjórn feiga.
Orðið á götunni er að í samanburði við afglöp Bjarna Benediktssonar í embætti fjármálaráðherra við söluna á Íslandsbanka sé hlægilegt að Ásthildur Lóa skuli nú þurfa að gjalda fyrir næstum 40 ára ástarævintýri með því að afsala sér ráðherrastól. Bjarni færði sig í annað ráðuneyti er hann hefði með réttu átt að víkja úr ríkisstjórn. Gilda aðrar reglur fyrir aðra ráðherra, sem ekki eru Sjálfstæðismenn?