Ótti er söluvara og við erum viðskiptavinirnir. Í fréttum er áherslan neikvæð. Einblínt er á átök, eymd, hrun, hættur, hungur og hamfarir og slíkar fréttir eru í stanslausri endurspilun.
Dómsdagsbíómyndum er sömuleiðis mokað út þar sem yfirvofandi endalok heimsins eru söluvaran og sjónvarpsþáttaframleiðslan mörg sömuleiðis, hver þáttur einhverskonar masterclass í örvæntingu.
Þetta er ekki tilviljun heldur úthugsaður viðskiptaleikur til að fanga athygli okkar og græða á okkur í leiðinni.
Neikvæð umræða tekur sinn toll. Taugavísindin sýna að það að ef við erum stanslaust að verða fyrir neikvæðu áreiti þá flæða stresshormón um líkama okkar. Stórneytendur í vansæld og volæði eru í raunverulegri hættu á að missa svefn og þróa með sér þunglyndi.
Það er innbyggt í okkur að varast hættur og þá gömlu eðlishvöt nýta sölumenn vansældarinnar sér til hins ýtrasta. En af hverju erum við að bjóða okkur upp á þessa stöðugu streituhringrás í stað þess að velja heldur eitthvað sem nærir okkur og gleður?
Skoðum viðskiptamódelið. Þú sem neytandi/kaupandi færð enga ávöxtun fyrir ástundun þína eða áskrift. Þú situr fátækari, með heiminn á herðunum en engar lausnir. Jarðskjálfti eyðileggur borg á skjánum og næsta hörmungarfrétt er flutt áður en enduruppbygging í borginni hefst. Fréttir sýna óreiðu en sjaldan úrlausnir.
Okkar betri vitund krefst þess að við séum harðari í samningum. Hvað erum við að láta bjóða okkur? Vesældarsalar græða á grandaleysi okkar á meðan við græðum ekkert nema óróa og streitu.
Tölum aðeins um brenglaða framsetninguna. Miðlar ýkja það hörmulega, flugvél hrapar en 99,9% flugvéla lenda farsællega. Myndefni frétta er valið til að ná dramatískum og kvíðavaldandi áhrifum. Á meðan er margt gott og uppbyggilegt að gerast í veröldinni. Til dæmis hafa ofbeldisglæpir á heimsvísu minnkað síðustu áratugi en um það fáum við aldrei að heyra!
Okkur er seldur allra ljótasti bitinn af tilverunni. Af hverju eigum við að láta hann móta sýn okkar þegar raunveruleikinn býður upp á ótal margt annað?
En okkur er í lófa lagið að hafna vansældarviðskiptum til að halda hugarró.
Við höfum valdið til að velja og taka stjórnina í okkar hendur því valmöguleikarnir eru nægir.
Af hverju ekki að verja tíma okkar og fé í það sem nærir okkur og ávaxtar vellíðan okkar?
Að hafna vansældariðnaði er hvorki afneitun né barnaskapur – það er meðvituð sjálfsbjörg.
Vesældarkaupmenn þurfa meira á okkur að halda en við á þeim. Leitum heldur að því sem fræðir, menntar og endurspeglar stærri sannleika. Það er rökrétt og skynsamlegt val og umbunin er margfalt betri líðan.