Hersir Aron Ólafsson og Steindór Emil Sigurðsson hafa verið ráðnir til Símans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en þar kemur fram að Hersir muni taka til starfa sem forstöðumaður samskipta og fjárfestatengsla. Auk þess verður hann aðstoðarmaður forstjóra og mun vinna með framkvæmdastjórn að innleiðingu nýrrar stefnu félagsins ásamt áframhaldandi þróun og vexti.
Steindór mun taka við starfi forstöðumanns viðskiptaþróunar og vörustýringar á fyrirtækjamarkaði og mun þar leiða uppbyggingu fyrirtækjalausna Símans. Deildin er ný innan félagsins, í samræmi við áherslu á að fjölga og bæta enn frekar framboð stafrænna lausna til fyrirtækja.
Hersir er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Undanfarin ár hefur hann starfað sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssoonar, forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra. Áður starfaði Hersir meðal annars sem lögfræðingur Ölmu íbúðafélags, hjá LOGOS lögmannsþjónustu og sem fréttamaður og þáttastjórnandi á Stöð 2 og mbl.is.
Steindór er með M.Sc. gráðu í verkfræði frá DTU í Danmörku og hefur 25 ára reynslu af sérfræði- og stjórnunarstörfum innan nýsköpunar og vöruþróunar. Steindór kemur frá Controlant þar sem hann var lengst af í hlutverki forstöðumanns þróunar, en áður starfaði hann hjá Marorku, Símanum, Industria og Nokia.
Í fréttatilkynningunni kemur enn fremur fram að Síminn sé í mikilli sókn um þessar mundir, en í fyrra var meðal annars gengið frá kaupum á Billboard, Noona Iceland og lánasafni Valitor. Líkt og fram kom í nýlega birtum ársreikningi fyrir 2024 jukust tekjur Símans um ríflega 8% frá liðnu ári og EBITDA um rúmlega 16%. Enn frekari áhersla verður lögð á vöru- og viðskiptaþróun í rekstri Símans á komandi misserum, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði.