Við verðum að átta okkur á því að vegirnir eru hluti af okkar varnarkerfi, hluti af okkar öryggiskerfi. Samt setjum við bara brot í uppbyggingu þeirra samanborið við lönd í þriðja heiminum. Ein afleiðingin er mikill fjöldi slysa, ekki síst á erlendum ferðamönnum. Slysins kosta gríðarlega mikla fjármuni og setja pressu á aðra innviði eins og t.d. heilbrigðiskerfið. Það voru skelfileg mistök í hruninu þegar tæki til vegagerðar voru seld úr landi í stað þess að þau væru nýtt til viðhalds innviða. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Runolfur 6
Það er ekki nóg bara að fjárfesta í því að fólk fari um landið, þú verður líka að undirbyggja að það sé hægt og að það sé gert með hagkvæmum hætti. Þessu hafa líka fylgt slys …“
Já, er þetta ekki mikið útlendingar? Við erum kannski vanari þessum vegum.
„Það er eins og hann sagði, viðgerðarmaðurinn í Búðardal: Ég er meira að fá útlendingana. Þeir eru nefnilega ekki vanir þessum svigakstri. Það segir sig sjálft og við höfum því miður fengið óeðlilega hátt hlutfall af umferðarslysum sem tengjast erlendum ferðamönnum þannig að þetta er mjög mikill ábyrgðarhluti. Hvert slys kostar þjóðfélagið óhemju fjármuni og heilbrigðiskerfið okkar er undirlagt út af þessu líka. Það má ekki líta fram hjá því.“
Runólfur segir vanrækslu vegakerfisins hafa áhrif inn í mjög marga geira. „Fjárfesting í þessum innviðum skilar sér mjög fljótt. Það er ekki eins og menn séu að henda peningum í eitthvað heldur eru menn að byggja til framtíðar og þú ert að mynda eign. Það býr gríðarleg eign í þessum vegum sem við höfum byggt upp.“
Já, og ef ekki verður spyrnt við fæti núna þá fer þetta að hafa verulega áhrif á verðmætasköpun og tekjuöflun í hagkerfinu.
„Já, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu höfum við látið allt of lítið til vegauppbyggingar og innviðauppbyggingar. Menn eru að tala núna um nýtt heimsástand og að menn þurfi jafnvel, sum samfélög í kringum okkur þurfi að fara að stórauka framlög til varnarmála …“
Já, við líka.
„Við líka. Og við verðum líka að horfa á það að vegirnir eru hluti af okkar varnarkerfi, hluti af okkar öryggiskerfi. Við erum að bera okkur saman við jafnvel við lönd í þriðja heiminum sem fjárfesta kannski þrjú prósent af landsframleiðslu til uppbyggingar vega á meðan við erum að taka kannski eitt prósent. Þetta bara gengur ekki. Svo erum við með öflugasta atvinnuveg landsins sem byggir að hluta til á vegunum.“
Já, það má kannski bara segja tveir öflugustu atvinnuvegirnir.
„Þessari lífæð verður að vera viðhaldið og eytt þeim fjármunum í það sem hægt er að eyða. En við höfum því miður séð að þegar eitthvað ástand kemur upp, eins og t.d. í hruninu, hvað gerðu menn þá? Menn meira að segja seldu tæki og græjur úr landi í stað þess þó alla vega að tryggja atvinnu í hinum dreifðu byggðum. Við fórum með átak þá. Við fórum og heimsóttum ráðamenn og töluðum um það að í staðinn fyrir að selja jarðýtuna úr héraðinu og flytja hana af landi brott að nýta hana á svæðinu t.d. til viðhalds á innviðum og nýta vinnuaflið. Þetta er bara eins og hagsýn húsmóðir myndi segja: Bara nota þau tækifæri sem voru til staðar.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.