fbpx
Fimmtudagur 13.mars 2025
Eyjan

Trausti getur ekki þagað lengur og lýsir framkomu Gunnar Smára í sinn garð – „Þegar ég lít til baka sé ég hvernig þetta virkaði“

Eyjan
Fimmtudaginn 13. mars 2025 14:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Trausti Breiðfjörð Magnússon tilkynnti í september að hann hefði sagt af sér sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands. Hann sagðist hafa glímt við erfið veikindi og þyrfti að setja heilsuna í forgang. Nú hefur hann þó greint frá því hvernig framkoma Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar flokksins, hafði áhrif á ákvörðun hans.

Allt er á suðupunkti meðal sósíalista eftir að Karl Héðinn Kristjánsson, forseti ungliðadeildar flokksins, sagði af sér úr kosningastjórn og sakaði Gunnar Smára um ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot. Fjöldi flokksmanna tók undir gagnrýni Karls og í kjölfarið boðaði Gunnar Smára til umræðufundar í húsnæði flokksins í Bolholti til að svara fyrir ásakanirnar. Eins birtu formenn stjórna flokksins sameiginlega yfirlýsingu þar sem ásökunum Karls var vísað á bug. Þrátt fyrir fundinn gætir enn mikillar óánægju sem sést skýrt í Rauða þræðinum – Facebook-hópi flokksins. Þar hefur Trausti Breiðfjörð nú birt færslu þar sem hann segist ekki lengur getað þagað yfir sinni eigin upplifun af framkomu Gunnars Smára.

Trausti segist lengi hafa haldið sig til hlés í von um að staðan innan flokksins myndi batna. Sú von hefur ekki ræst.

„Það sem gerðist í gær var bara enn ein staðfestingin á mynstri sem margir hafa reynt að benda á: óheilbrigð menning, þöggun og valdníðsla sem á sér stað undir yfirskini baráttu fyrir réttlæti. Ég get ekki lengur þagað.“

Tók eftir mörgu undarlegu

Trausti segist kannast við margt í ávirðingum Karls Héðins. Sjálfur gekk Trausti til liðs við sósíalista því hann hafði trú á Gunnari Smára.

„Þegar ég ákvað að taka þátt í starfi Sósíalista var það meðal annars vegna Gunnars Smára. Ég leit upp til hans og trúði ekki orði af því sem fólk sagði um hann á neikvæðan hátt. Þetta var allt í mínum eyrum einhver áróður auðvaldsins eða afbrýðisamra aðila. Ég var yngri en ég er nú, þá um 25 ára en hefði samt kannski átt að vita betur.“

Fljótlega var Trausti kominn á fullt í þáttagerð á Samstöðinni og ekki leið á löngu þar til honum bauðst sæti á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum. Trausti segir starf borgarfulltrúa jafngilda um 200% starfi. Engu að síður hafi Gunnar Smári haldið áfram að hlaða á hann verkefnum. Trausti upplifði vanþakklæti og að starfið byggði fremur á persónulegum valdtökum en lýðræði og samvinnu. Kröfurnar til hans héldu áfram að aukast og loks fór Trausti í kulnun á líkama og sál. Hann var borgarfulltrúi í fullu starfi, var að vinna fyrir Samstöðina og hafði eins verið fenginn flókin verkefni innan flokksins án nokkurrar leiðsagnar. Hann gat ekki meir.

„Stuttu seinna var ég farinn í algjöra kulnun á sál og líkama. Ég gat ekki meir. Ég upplifði að ég gæti ekki talað við neinn um þetta. Ég sagðist hafa hætt vegna veikinda, sem þetta var auðvitað í raun. Það var fleira sem spilaði inn í, eins og ónýt mjöðm og miklir verkir. En ég velti því fyrir mér hvort ég hefði getað haldið út þetta kjörtímabil í flokki þar sem maður hefði fundið fyrir stuðningi en ekki menningu þar sem fólki finnst það eiga rétt á að ráðskast með aðra. Ég hálfskammaðist mín fyrir að vera ekki að gera nóg. Þannig var stemmingin og pressan sem maður var undir.“

Ég veit ég er ekki einn

Nú veit Trausti hvernig flokkurinn starfar í raun og veru. Gunnar og aðrir formenn stjórna fá þangað inn duglegt fólk. Þetta fólk er svo keyrt í þrot með látlausum kröfum. Gagnrýnin er svo þögguð niður í skjóli meðvirkra flokksmanna sem þora ekki að vagga bátnum. Hann veit að fleiri hafa upplifað þetta sama og vonar að þessir einstaklingar stígi fram.

„Þegar ég lít til baka sé ég hvernig þetta virkaði: fólk sem var duglegt og vildi leggja sitt af mörkum var keyrt út og þaggað niður ef það gagnrýndi eitthvað eða hafði aðrar áherslur. Þeir sem bentu á vandamál voru annaðhvort hundsaðir eða látnir líða eins og þeir væru sjálfir vandamálið. Ég upplifði þetta sjálfur – og ég veit að ég er ekki einn um það.

En það sem er kannski enn alvarlegra er sú meðvirkni sem leyfir þessu að viðgangast. Það eru of margir sem vita hvernig þetta virkar en kjósa að þegja. Sumir af ótta við að missa áhrif eða stöðu, aðrir af því þeir telja að flokkurinn sé stærri en einstaklingarnir sem hann særir og brýtur niður.
Þess vegna tala ég núna.

Því flokkur sem á að berjast gegn kúgun og óréttlæti þarf að geta tekið á innanbúðarkúltúr. Það er ekki hægt að krefjast réttlætis út á við en beita kúgun inn á við.

Ég vona að þeir sem hafa svipaða sögu og ég hætti að þegja. Við skuldum okkur sjálfum það – og baráttunni sem við trúum á. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður