fbpx
Fimmtudagur 13.mars 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn

Eyjan
Fimmtudaginn 13. mars 2025 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ljósi þeirra hamskipta sem orðin eru í vörnum Evrópu hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hafið víðtæka endurskoðun á varnarstefnu Íslands. Að þeirri vinnu munu koma innlendir og erlendir sérfræðingar og fulltrúar allra stjórnmálaflokka.

Önnur Norðurlönd hafa þegar endurmetið varnarstefnu og varnaráætlanir sínar. Það var hins vegar pólitískur ómöguleiki í samstarfi fyrri ríkisstjórnarflokka þrátt fyrir skýra sýn þáverandi utanríkisráðherra á nýjan veruleika í þessum efnum.

Þetta verkefni staðfestir því með afgerandi hætti hversu brýn og mikilvæg stjórnarskiptin voru. Sterk ríkisstjórn getur átt samstarf við flokka í stjórnarandstöðu. Veikri og sundurlausri ríkisstjórn var það um megn. Umræðan ein var henni ofviða.

Ábyrg afstaða

Um alla Evrópu velta menn fyrir sér framtíð Atlantshafsbandalagsins. Hér heima spyrja margir hvort nægjanlegt hald sé í varnarsamningnum við Bandaríkin.

Utanríkisráðherra segir að samningurinn standi og ríkisstjórnin líti enn á Bandaríkin sem bandalagsþjóð. Það er ábyrgt viðhorf og mjög í samræmi við hófsaman málflutning leiðtoga annarra NATO-þjóða í Evrópu.

Bandaríkin tóku einhliða ákvörðun um að loka herstöðinni í Keflavík 2006. Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra segir frá því í ævisögu sinni að þær raddir hafi þá heyrst, jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins, að rifta ætti varnarsamningnum.

Á þær raddir var ekki hlustað og forsætisráðherrann tryggði með samningum við framkvæmdastjóra NATO loftrýmisgæslu nokkurra evrópskra aðildarþjóða. Þetta var ábyrg afstaða. Aukið samstarf við Evrópuþjóðir hefur reynst farsælt.

Fullveldið

Samkvæmt gildandi þjóðaröryggisstefnu er fullveldi landsins tryggt með varnarsamningnum og aðildinni að NATO.

Fram til þessa hafa aðstæður ekki kallað í dýpri umræðu um varnar- og öryggismál en að vísa í varnarsamninginn og NATO-aðildina.

En aðstæður hafa breyst. Þær kalla á dýpri umræðu.

Gildi varnarsamningsins ræðst fyrst og fremst af því trausti sem við berum til ríkisstjórnar Bandaríkjanna á hverjum tíma. En það ræðst ekki síður af hinu hvort hann hefur fælingarmátt gagnvart þeim sem okkur kann að stafa ógn af.

Undanþága?

Í þessu ljósi veldur mestum áhyggjum að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur lýst því yfir að hún hafi í hyggju að innlima grannlönd okkar Kanada og Grænland. Með öðrum orðum: Þótt þær séu bandalagsþjóðir virðir hún ekki fullveldi þeirra.

Þessi nýi veruleiki veikir þá fullvissu sem við höfum haft um þýðingu varnarsamningsins í varðstöðunni um fullveldi Íslands.

Bandaríkin hafa eðlilega kallað eftir aukinni hlutdeild Evrópuríkja NATO í vörnum álfunnar. Það merkir að Bandaríkin draga sig að hluta eða öllu leyti út úr vörnum Evrópu. Með þessu flytjast hervarnir til en aukast ekki.

Ekkert hefur komið fram um að Ísland sé eitt landa undanþegið þessari stefnubreytingu. Vel má vera að svo sé. En um það vitum við ekkert með vissu.

Efinn

Bent hefur verið á að sérstaða Íslands sé einmitt fólgin í því að vera með sérstakan varnarsamning. Við venjulegar aðstæður væru það fullgild rök. Þá þyrftum við ekki að hafa áhyggjur nema Bandaríkjastjórn rifti samningnum.

En þegar heimurinn horfir á Bandaríkin ganga á skítugum skónum yfir alþjóðlega samninga og skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum sækir efinn að.

Eins og sakir standa bendir ýmislegt til að Bandaríkin hafi hug á að semja um friðsamlega sambúð við Rússland fram hjá Evrópu. Sú spurning vaknar hvort það geti leitt til þess að Evrópu stafi áfram ógn af Rússlandi en Bandaríkin telji sig laus úr þeirri stöðu.

Þetta er að sönnu getgáta á þessu stigi, en ekki tilhæfulaus. Við slíkar aðstæður gætum við og aðrar Evrópuþjóðir litið svo á að hernaðarlegt mikilvægi Íslands væri óbreytt þótt Bandaríkin legðu á það annað mat.

Hugsanlegt næsta skref

Við eigum í lengstu lög að halda Bandaríkjunum við efnið. Hitt væri barnaskapur að loka augunum fyrir þeim hamskiptum, sem eru í gangi.

Stefnubreytingin sem Geir Haarde beitti sér fyrir 2006 fól í sér þátttöku Evrópuríkja í hernaðarlegu eftirliti hér á landi. Að því gæti komið á næstu árum að við yrðum að stíga nýtt skref og leita eftir varnarskuldbindingum af þeirra hálfu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hrægammarnir í bankakerfinu – græðgi á kostnað almennings

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hrægammarnir í bankakerfinu – græðgi á kostnað almennings
EyjanFastir pennar
09.02.2025

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin
Ekki missa afEyjanFastir pennar
08.02.2025

Sigmundur Ernir: Bláa viðvörunin yfir landinu

Sigmundur Ernir: Bláa viðvörunin yfir landinu
EyjanFastir pennar
01.02.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti
EyjanFastir pennar
01.02.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Handboltaharmur

Óttar Guðmundsson skrifar: Handboltaharmur