Við Íslendingar búum yfir gríðarlegum styrkleikum í samanburði við margar aðrar þjóðir, m.a. í því að traust til grunnstofnana hér á landi er mikið í alþjóðlegum samanburði. Þegar traustið þverr er erfitt að viðhalda lýðræði. Einræði byggir á því að grafa fyrst undan traustinu. Raunveruleg hagsmunagæsla er að vera verðugur bandamaður sinna bandalagsríkja, hafa hlutina í lagi heima fyrir og leggja svo meira af mörkum, sérstaklega á óvissutímum eins og nú. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Þórdís - 5
„Þetta frelsi, sjálfstæði þjóðar – þetta er meira virði en allur heimsins auður. Tími þægindanna, hann er bara liðinn. Við getum bara ekki gert ráð fyrir því að hlutirnir breytist ekki, við getum ekki gert ráð fyrir því að frelsið kosti ekki neitt. Við getum ekki gert ráð fyrir því að Ísland þurfi ekki að færa neinar einustu fórnir, við munum þurfa að færa fórnir. Sú vinna er í gangi í kerfinu að meta viðnámsþrótt, áfallaþol. mér finnst viðnámsþróttur meira lýsandi og líka meira uppbyggjandi en áfallaþol,“ segir Þórdís Kolbrún létt í bragði.
Hún segir Ísland búa yfir nokkrum gríðarlega miklum styrkleikum í samanburði við önnur lönd. „Almannavarnakerfið okkar, viðnámsþróttur okkar þegar kemur að móður náttúru sem fer ekki neinar diplómatískar leiðir, gerir bara sitt. Þar erum við mjög öflug. Við erum öflug í því þegar kemur bara að samfélagsgerðinni og trausti gagnvart grundvallarstofnunum. Það er mjög gott. Ég segi oft: Fyrsta varnarlínan er í rauninni þetta – að hér sé nægilegt traust til þess að geta tekist á við erfiða tíma vegna þess að lýðræði byggir í rauninni á trausti. Ef það er ekki traust geturðu eiginlega ekki viðhaldið lýðræði, á meðan einræði er svona þessi ógnarstjórn, og til þess að koma á einræði þá þarftu að taka traustið – aðeins þannig geturðu komið því á. Í öllum samanburði erum við með gríðarlega verðmæta og mikilvæga styrkleika.
Hún segir okkur berskjölduð að öðru leyti og að við þurfum að átta okkur á því hvar við séum raunverulega stödd, hvernig sé hægt að efla viðnámsþróttinn. Einnig þurfum við að átta okkur á því hvernig við getum komið með viðbótarframlag sem verðugur bandamaður, það sé hin sanna hagsmunagæsla. „Það er ekki hagsmunagæsla að ætla bara að vera súkkulaði og gera ekki neitt og ætlast svo til þess að hitt bara reddist og allir fórni sínu til þess að passa upp á þig. Hin raunverulega hagsmunagæsla í mínum huga er að vera verðugur bandamaður þar sem þú ert í góðu sambandi, samskiptum við þínar bandalagsþjóðir. Það sé sameiginlegur skilningur og þú leggir eitthvað af mörkum. Og það er enginn að biðja um eða gera kröfu um að við hér stofnum her og setjum 150 milljarða í varnarútgjöld. En við erum í 0,14 prósentum.“
Þórdís Kolbrún segir þetta ekki snúast um eingöngu fjármagnið. „Það eru ríki sem hafa aukið útgjöld til varnarmála með því að hækka eftirlaunagreiðslur til fyrrum hermanna. Það þarf auðvitað að horfa á hvað er raunverulega verið að gera. en hin raunverulega hagsmunagæsla í mínum huga er á þessum tímum fyrst og síðast að vinna heimavinnuna, gera það sem við þurfum að gera, vita hvar við stöndum, gera úrbætur þar sem þarf og vera verðugur bandamaður.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.