Fjártæknifyrirtækið Kríta hefur gengið frá fjögurra milljarða króna fjármögnunarsamningi við evrópska sjóðinn WinYield General Partners. Samningurinn styrkir lánabók Kríta og opnar dyr fyrir hraðari vöxt og aukna markaðssókn. Jafnframt verður evrópski sjóðurinn hluthafi í félaginu.
,,Kríta er fjártæknifyrirtæki sem brýtur upp gamaldags lánakerfi bankanna og setur hraða og stafrænan einfaldleika í forgrunn. Fjármagn sem annars myndi sitja fast í ógreiddum reikningum er sett í umferð, sem skapar aukinn sveigjanleika og tækifæri fyrir fyrirtæki,“ segir Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður Kríta í tilkynningu.
„Íslensk fyrirtæki hafa of lengi þurft að sætta sig við ósveigjanleika í hægfara lánaferlum bankanna. Kríta snýr þessu við og höfum við fengið framúrskarandi viðtökur hjá íslenskum fyrirtækjum með okkar þjónustu, en nú þegar hafa 1.000 fyrirtæki skráð sig hjá Kríta. Frá stofnun höfum við veitt þrjá milljarða í útlán til fyrirtækja og með stærri lánabók höfum við tækifæri til að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur.“
Viðskiptavinir Kríta eru fjölbreyttir og koma úr öllum atvinnugreinum að sögn Stefáns. Þar á meðal eru fyrirtæki í ferðaþjónustu, heildverslun, matvælaframleiðslu, sem og fyrirtæki í innflutningi, ráðgjöf og byggingastarfsemi.
Fyrirtæki geta fengið allt að 100 milljón króna fjármögnun hjá Kríta með því að breyta ógreiddum reikningum í laust fé fyrir reksturinn. Fyrirtæki senda reikninga á viðskiptavini eins og venjulega sem birtast um leið á þeirra vefsvæði á Kríta.is. Þar eru einn eða fleiri reikningar valdir til fjármögnunar og innan 24 klukkustunda berst lánstilboð sem stjórnandi getur samþykkt eða hafnað. Þá geta fyrirtæki einnig fengið hefðbundið fyrirtækjalán.
„Okkar sérstaða liggur í hraða og gagnadrifnu lánsmati. Við horfum ekki bara á lántakann heldur einnig endanlega greiðandann og þeirra viðskiptasamband. Þetta gerir okkur kleift að vera fljótari og sveigjanlegri í þjónustu en hefðbundnir bankar, hvort sem það eru yfirdráttarlán eða aðrar lánavörur. Við erum hraðvirkt og sveigjanlegt fjártæknifyrirtæki og viljum vera áskorandi í hefðbundinni bankaþjónustu til fyrirtækja,“ segir Stefán.
Hann bætir við að sú ákvörðun að sjóðurinn WinYield General Partners verði hluthafi í Kríta undirstriki traust þeirra á rekstrarlíkani Kríta og vegferðinni.
Fabricio Mercier, meðeigandi hjá WinYield General Partners, segir að Kríta hafi sterka stöðu á Íslandi og því hafi sjóðurinn tryggt fyrirtækinu fjármögnun. ,,Kríta hefur farsæla sögu sem fjártæknifyrirtæki og fjármögnunin frá WinYield mun hjálpa fyrirtækinu að vaxa enn frekar og verða leiðandi lánafyrirtæki fyrir fjölda fyrirtækja á Íslandi.“