fbpx
Mánudagur 31.mars 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?

Eyjan
Laugardaginn 1. mars 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það verður einkar athyglisvert að sjá hvaða leið gamli Sjálfstæðisflokkurinn velur sér upp úr þeim pólitíska afdal sem hann hefur ráfað um á síðustu árum og áratugum, en þar hefur hann sem kunnugt er tapað erindi sínu og uppruna í íslenskum stjórnmálum, ásamt náttúrlega kjósendum sínum.

Um þetta eru báðir frambjóðendur flokksins í komandi formannsslag sammála, en af orðum þeirra má jafnframt ráða að merkisberar fálkans hér á landi verði að fara að róta til í gömlum gildum, ef þeim er á annað borð umhugað um að verða aftur burðarflokkur sem höfði til breiðs hóp kjósenda.

En þá er auðvitað spurningin sú, hverju nýja flokksforystan verður nær, eftir að hún hefur gramsað í hirslum tapaðs fundið. Og hvað mun hún taka þaðan með sér?

Tvennt er mögulegt í þeim efnum. Hún getur haldið áfram að elta skottið á Miðflokknum eins og hún gerði svo feimnislaust í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, ellegar slitið sig frá honum og reynt að rísa aftur undir nafni.

Því líklega er komið að ögurstundu þessa gamla íslenska hægriflokks, sem lengst af lýðveldissögunni hefur haldið um valdataumana og varðað þjóðleiðina fram á nýja öld, en hann þarf öðru fremur að fara að velja sér álfu, öðru hvoru megin Atlantshafsins.

„Því þegar Evrópa stendur ein eftir, breytist líka svo margt.“

Á næstu vikum og mánuðum – og eftir því verður hlustað á Alþingi Íslendinga – munu fara að heyrast hrifningarstunur úr stöku þingmanni vegna talibanskra tilburða Trumps í vestri. Það eru enda raddir hér á landi sem hafa myndað óþol gagnvart lýðfrelsi, mannréttindum og mannúð. Og tala gegn fjölþættri menningu og hafa þaðan af minni áhuga á að verða þjáðum þjóðum að liði, en allra síst flóttafólkinu þaðan.

Þeir leiðtogar Evrópu sem nú eru að rísa til valda og vilja verja vestræn grunngildi, klassískir hægrimenn á borð við Þjóðverjann Friedrich Merz, sem hefur leitt Kristilega demókrata í forustusæti þýskra stjórnmála, tala enga tæpitungu um nauðsyn varðstöðu um lýðréttindi. Enginn afsláttur verði gefinn á þeim lagabótum sem barist hefur fyrir í heilan mannsaldur frá síðustu einræðistilburðum í álfunni. Nú sé komið að síðasta tækifæri lýðræðissinna í okkar heimshluta að sanna sig í verki – og Evrópa verði að standa saman sem aldrei fyrr. Trúverðugleiki hennar sé í húfi.

Endurreistur Sjálfstæðisflokkur getur auðvitað áfram setið hjá, og skilað auðu í álfunni. En hann getur líka tekið undir með öllum öðrum hefðbundnum hægriflokkum í Evrópu og lagt samstöðunni lið með orðum og gjörðum. Þar myndi hann í öllu falli vitja uppruna síns. Varðbergsins sjálfs.

Því þegar Evrópa stendur ein eftir, breytist líka svo margt. Og það minnir á nýfallin orð eins helsta leiðtoga Hægri flokksins í Noregi, Ine Eriksen Söreide, sem líklega endurheimtir utanríkisráðuneytið fyrr en síðar: „Sú framsókn og þær breytingar sem eru að eiga sér stað í ESB og Evrópu, gerast mjög hratt. Greinilega má skynja hvernig kraftur evrópskrar samvinnu og samstöðu magnast, sem leiðir til þess að þeir sem standa utan sambandsins, missa meir og meir af lestinni. Þess vegna er það þýðingarmikið að við, sem erum með skýra já-afstöðu til ESB-aðildar, tökum þátt, eða miklu fremur, leiðum nýja umræðu um fulla aðild Noregs.“

Sjálfstæðisflokkurinn var víðsýnn og frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur í eina tíð þegar aðrir öfunduðu hann. Hann hefur prófað sitthvað annað á seinni árum.

Það hefur aðeins verið andstæðingum hans til uppdráttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Í fangi friðsællar Evrópu

Steinunn Ólína skrifar: Í fangi friðsællar Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna

Björn Jón skrifar: Mikilvægi öflugra forystumanna
EyjanFastir pennar
27.02.2025

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!
EyjanFastir pennar
25.02.2025

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð