fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin

Eyjan
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 15:41

„Der siegreich vordringende Hermann“, eða hinn sigursæli Hermann í orrustunni í Þjóðborgarskógi (þ. Schlacht im Teutoburger Wald) sem háð var það herrans ár 9. Hér í túlkun þýska málarans Peter Janssen frá árinu 1873.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir réttum mánuði kom út í Þýskalandi bók Ulf Poschardt, aðalritstjóra Welt, sem vakið hefur mikið umtal og ber þann miður fagra titil Shitbürgertum. Þar vandar Poschardt ráðandi öflum ekki kveðjurnar og ræðst að ýmsum helgum véum í þýskri þjóðfélagsumræðu. Það er tímanna tákn að hin hvassa samfélagsgagnrýni Poschardts kemur ekki frá vinstri heldur hægri. Íhaldsmennska og hin klassísku frjálslyndu gildi eru róttækni okkar tíma.

Útgáfa bókarinnar tafðist þar eð forleggjarinn sagði sig frá verkinu sem honum þótti „of pólitískt“. Blaðamaður Neue Zürcher Zeitung spurði Poschardt nýverið hverjum væri mögulega í nöp við að bókin kæmi út. Hann svaraði með þeim orðum að hann væri sonur vinstrisinna og gamli vinstriflokkurinn hefði jafnan spurt góðrar spurningar: „In wessen Interesse ist das?“ — Hver hefur hag af þessu? Ekki ósvipað og Lucius Cassius, hinn ráðvandi dómari í Róm, spurði forðum: „Cui bono?“ Staðan væri einfaldlega sú í Þýskalandi samtímans að stjórnkerfið, sem og öflug frjáls félagasamtök hefðu skapað umhverfi þar sem það væri þeim hagsmunamál að grundvallaratriði séu ekki vefengd. „Efasemdarmönnum“ sé mætt af fullri hörku. Sem dæmi varð Poschardt fyrir því að hlaðvarpsþáttastjórnandinn Micky Beisenherz líkti honum við Alexander Gauland, hinn öfgafulla forystumann þjóðernisflokksins Alternative für Deutschland (AfD). Slíkur samanburður sé vitaskuld fráleitur en endurspegli hvaða meðferð þeir fá sem þyrðu að spyrja spurninga sem kæmu við kaunin á valdhöfunum.

Pendúllinn sveiflast

Poschardt segir ráðandi öfl í Þýskalandi hafi komið sér upp varnarmenningu sem hafi það að markmiði að afstýra sundrungu samfélagsins, en sú menning eigi sér rætur í þeirri bælingu sem óhjákvæmilega hafi fylgt í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Í frumbernsku hins nýja sambandsríkis hafi þurft að birgja ótalmargt inni svo hægt væri að halda áfram og menning ráðandi stétta (fr. élite) væri mótuð af þessu. Bregði menn út af viðteknum þjóðfélagshugmyndum sé viðkomandi jafnvel brigslað um siðferðilegan vanþroska og þá sé stutt í ásakanir þar sem hörmungar nasismans eru dregnar fram, ellegar menn sjálfir kallaðir nasistar. Þessa sáust skýr merki á dögunum í kjölfar þess að Friedrich Merz, kanslaraefni kristilegu flokkanna, hlaut stuðning AfD á sambandsþinginu við tillögu um hertari innflytjendalöggjöf.

Poschardt segir menn verða að brjótast út úr meðvirkni með ráðandi öflum og þora að ganga gegn ýmsum helgum véum í umræðu samtímans, og nefnir hann þar sem dæmi gagnrýnisleysið á sóttvarnarráðstafanir og bólusetningar stjórnvalda á dögum farsóttarinnar ellegar þær óheyrilega kostnaðarsömu aðgerðir sem gripið hefur verið til svo sporna megi við hækkun hitastigs á jörðinni. Gagnrýnendur þessa hafi kallað yfir sig almenna fordæmingu. En umræðan taki nú hröðum breytingum og vitnar Poschardt í því sambandi til bresk-bandaríska sagnfræðingsins Niall Ferguson sem nýverið benti á að „vibe change“ væri að eiga sér stað í stjórnmálaumræðu samtímans. Undanfarin ár hafi til að mynda víðs vegar verið slakað á kröfum um hæfni og kunnáttu svo uppfylla mætti markmið um „fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu“. Þetta væri nú óðum að breytast og áherslan fremur á verðleika einstaklinganna. Á sama tíma kvæði við hvassari tón í stjórnmálaumræðunni og um leið yrðu skoðanaskipti hressilegri.

Umræðan ristir ekki djúpt

Ulf Poschardt sætti hörðu ámæli fyrir að birta grein Elon Musk í Welt am Sonntag þar sem bandaríski auðjöfurinn hvatti Þjóðverja til að kjósa AfD í komandi kosningum. Poschardt segir í viðtalinu við Neue Zürcher Zeitung að Musk hefði auðsjáanlega lítið sem ekkert kynnt sér stefnumál AfD — líklega vissi hann til að mynda ekki að flokkurinn hafði reynt að koma í veg fyrir að reist yrði verksmiðja Teslu í Brandenburg. Poschardt kveðst raunar ekki skilja hvað Musk gangi til en fyrir honum sé AfD líklega dulmálslykill (þ. Chiffre) að mestu mögulegu upplausn þýskra stjórnmála — og einhvers konar uppbrot þurfi nauðsynlega að eiga sér stað á stöðnuðu stjórnmálakerfi.

Allt fór á annan endann í þýskri þjóðmálaumræðu vegna skrifa Musks en Poschardt spyr hversu einangraðir Þjóðverjar séu eiginlega í hugsunarhætti sínum ef jafn illa ígrunduð skrif útlendings geta valdið svo miklu fjaðrafoki sem raun bar vitni. En hann segir áhugavert að fylgjast með sparnaðarráðuneyti Musks vestanhafs — sem og tilburðum Javier Milei, forseta Argentínu, með keðjusögina. Hvarvetna um heiminn séu menn að vakna til vitundar um að ríkisvaldið hafi færst alltof mikið í fang — við höfum um langan aldur haft ofurtrú á getu hins opinbera til að leysa hvers kyns vanda en það hafi reynst tálsýn. Hann nefnir sem dæmi yfirlýsingu Angelu Merkel kanslara og Peer Steinbrück fjármálaráðherra í efnahagskreppunni árið 2008 um að allar innstæður almennings í bönkum væru tryggar. Það hefði ekki verið neitt annað en meiriháttar tölfræðiblekking (þ. grosser etatistischer Bluff).

Um fátt er meira rætt en innflytjendamálin nú í aðdraganda kosninga til þýska sambandsþingsins en Poschardt segir þá umræðu ekki rista djúpt. Á sama tíma og ólöglegir innflytjendur streymi til Þýskalands þá sé gríðarlegur atgervisflótti frá landinu en þegar menn nefni slíkar staðreyndir sé svarið umsvifalaust: Svona máttu ekki tala. Meðan slík þöggun ríki sé harla ólíklegt að tekist verði á við vandann.

Ljós við enda ganganna

Blaðamaðurinn spurði Poschardt því næst hvort hann teldi að AfD gæti farið sömu leið og flokkur Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, sem tókst að koma þjóðernisflokki sínum, Fratelli d‘Italia, inn í hlýjuna; öðlast viðurkenningu annarra flokka. Poschardt telur það nánast útilokað. Aðrir flokkar á þýska sambandsþinginu hafa sem kunnugt er reist um þá eldvegg (þ. Brandmauer) en meira að segja hugtakið eldveggur komi frá þeim sjálfum. AfD sé í reynd „hægri-woke“ flokkur, illa haldinn af fórnarlambakúltúr. Og heilt á litið er Poschardt ekki bjartsýnn á framtíð stjórnmálanna í Þýskalandi. Hann spyrji gjarnan frumkvöðla, fjárfesta og forstjóra sem hann hitti hvort þeir haldi að hægt verði að rétta þjóðfélagið við áður en einhvers konar hrun verði. Svarið sé undantekningarlaust neitandi.

En það sé ljós við enda ganganna, hratt dragi úr dagskrárvaldi ráðandi afla, stjórnmálastéttin sé óðum að glata valdi sínu til að skilgreina hvað sé lýðræði og hvað ekki, hvað megi segja og hvað ekki. Sjálfur hafi hann sneitt hjá þessum skoðanahliðvörðum með því að gefa bók sína út sjálfur og hvetur menn til að tjá sig frjálslega — því það sé raunverulega hægt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Ósanngjörn gagnrýni á kjarasamninga – ábyrgðin er allra!

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Ósanngjörn gagnrýni á kjarasamninga – ábyrgðin er allra!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að vera sinn eigin böðull

Steinunn Ólína skrifar: Að vera sinn eigin böðull
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Staksteinar beita Albaníuaðferðinni gegn varaformanni Sjálfstæðisflokksins

Svarthöfði skrifar: Staksteinar beita Albaníuaðferðinni gegn varaformanni Sjálfstæðisflokksins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
EyjanFastir pennar
09.01.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
EyjanFastir pennar
04.01.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
29.12.2024

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills
EyjanFastir pennar
28.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið