Sementsframleiðandinn Heidelberg Materials hyggst nú skoða hvort að forsendur séu fyrir því að reisa verksmiðju fyrirtækisins á iðnaðarsvæði Bakka við Húsavík eftir að íbúar Þorlákshafnar felldu tillögu um slíka verksmiðju í útjaðri bæjarins í íbúakosningu. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð Byggðarráðs Norðurþings en þar kemur fram að Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og talsmaður Heidelberg Materials, hér á landi hafi mætt á fund ráðsins og kynnt hugmyndir fyrirtækisins sem felast í vinnslu móbergs á svæðinu, sem er íblöndunarefni í sement.
Í greinargerð frá Heidelberg sem fylgir fundargerðinni kemur fram að forsvarsmenn fyrirtækisins telji Norðurþing meðal annars ákjósanlegan stað út af því að sveitarfélagið þekkir af reynslu hvað felist í uppbyggingu slík stóriðnaðarfyrirtækis. Er þá vísað í iðnaðarsvæði á Bakka norðan Húsavíkur þar sem fyrir er kísilver PCC Bakka Silicon.
„Möguleiki er á samnýtingu strauma í glatvarma frá PCC Bakki Silicon við þurrkun á móbergi. Einnig gæti verið hagkvæmni í hafnaaðstöðu og samnýtingu skipakosts við inn- og útflutning af svæðinu. Góðar tengingar eru við raforku en tengivirki Landsnets frá Þeistareykjum er á Bakka. Nægt iðnaðarvatn er á svæðinu sem þarf í framleiðsluna, til að þvo hráefni sem tekið er úr sjó áður en það er þurrkað,“ segir í greinargerðinni.
Þar kemur ennfremur fram að Heidelberg telji að mikil tækifæri til móbergsvinnslu í framburði Jökulsár á Fjöllum, út af Austur- og Vestursandi í Öxarfirði. Þá væri efnið tekið úr sjó og flutt sjóleiðis að Bakka til þvottar
og þurrkunar. Einnig hafi Heidelberg áhuga á að rannsaka efni í landi Norðurþings, t.d. í nágrenni Bakka en líklegt móberg er ofan þjóðvegar 85 sem og í Grísatungufjöllum.
Verkefnið er umhverfisskylt og kemur fram í greinagerðinni að það ferli geti tekið allt að tvö ár. Áætluð fjárfesting félagsins í verkefnið yrði á bilinu 80-90 milljarðar og er gert ráð fyrir að um 80 störf fylgi starfseminni, bæði almenn og sérfræðistörf sem og 80 afleidd störf. Myndi það þýða umtalsverðar tekjur fyrir ríki og sveitarfélagið.
Í niðurlagi greinargerðarinnar segir að verkefnið með Norðurþingi sé á frumstigi og verið sé að kynna það fyrir helstu hagsmunaraðilum. Þá séu hafnar viðræður milli Heidelberg og PCC um skoðun á hagkvæmniþáttum varðandi starfsemi fyrirtækjanna auk þess sem fyrirtækið standi fyrir rannsóknum, til að mynda sýnatökum á efni úr framburði Jökulsár á Fjöllum, til að kanna hvort aðstæður séu hagstæðar til framleiðslu á þurrkuðu móbergi.
„Ef almenn jákvæðni og sameiginlegir hagsmunir eru til staðar verður gerð viljayfirlýsing á milli Heidelberg og Norðurþings um verkefnið. Ef til þess kemur verður verkefnið nánar kynnt íbúum Norðurþings á íbúafundi,“ segir í greinargerðinni.