Við upphaf borgarstjórnarfundar í Reykjavík síðastliðinn þriðjudag fóru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram á að tillaga þeirra sem tengist hinu umdeilda vöruhúsi sem er í byggingu við Álfabakka í Breiðholti yrði færð framar á dagskrá fundarins. Borgarfulltrúar meirihlutans höfnuðu því og sögðu að sitthvor beiðnin um dagskrá fundarins hefði komið frá Sjálfstæðismönnum og hefðu þessar beiðnir stangast á. Sögðu þeir forseta borgarstjórnar stjórna dagskránni, tillöguna ekki passa við efni fundarins og báðu Sjálfstæðismenn að kljást við sinn innri ágreining.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Marta Guðjónsdóttir, hafði krafist þess á fundi forsætisnefndar, síðastliðinn föstudag að tillagan yrði færð framar í dagskránni. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar hafnaði því en ásakaði Marta hana þá um að beita valdi sínu samkvæmt eiginn geðþótta og að brjóta sveitarstjórnarlög. Því vísaði Þórdís alfarið á bug:
Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot
Á borgarstjórnarfundinum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem þeir lýstu óánægju sinni með að fá sínu ekki framgengt. Vísuðu þeir í sveitarstjórnarlög og samþykktir um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og sögðu að samkvæmt þessu öllu eigi borgarfulltrúar rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni sem varði hagsmuni sveitarfélagsins. Það sé eðlilegt að flokkur ráði í hvaða röð mál hans séu tekin fyrir. Töldu borgarfulltrúarnir svo ljóst að tillagan um vöruhúsið umdeilda væri svo aftarlega á dagskránni að henni yrði örugglega frestað. Sökuðu þeir meirihlutaflokkana um að reyna að þagga niður umræðu um málið sem væri þeim bersýnilega óþægilegt.
Meirihlutinn; Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn svöruðu í sinni bókun með því að bersýnilega hafi gagnstæðar fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins ekki talað saman í aðdraganda fundarins:
„Beiðni barst frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að raða málum á eina vegu og ákveðið var að verða við því. Í kjölfarið barst beiðni frá öðrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að raða málum á aðra vegu. Erfitt getur talist að verða við beiðnum allra fylkinga innan Sjáfstæðisflokksins á einum og sama tímanum og er flokkurinn vinsamlegast beðinn um að kljást við innri ágreining með uppbyggilegri aðferðum.“
Sagði meirihlutinn það skýrt að samkvæmt samþykktum um stjórn borgarinnar væri það forseti borgarstjórnar sem stjórnaði dagskrá borgarstjórnarfunda, í samráði við borgarstjóra og forsætisnefnd. Í sveitarstjórnarlögum væri ekkert um að einstaka flokkar gætu breytt því. Allt sem Sjálfstæðismenn hefðu beðið um hefði verið tekið á dagskrá og því hefði einnig verið komið á framfæri að fundurinn ætti að snúast um atvinnumál og dagskráin því skipulögð í samræmi við það.
Það fór eins og Sjálfstæðismenn áttu von á. Þegar loks kom að tillögunni á fundinum var henni frestað.
Tillagan gengur út á að borgarstjórn feli fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið, að kostnaðarmeta mögulegar sviðsmyndir tengdar framtíð hins umdeilda stálgrindarhús við Álfabakka.
Eins og kunnugt er hefur húsið verið umdeilt einkum vegna þess hversu nálægt fjölbýlishúsi það er.
Þær sviðsmyndir sem Sjálfstæðismenn vilja að verði kostnaðarmetnar eru helst þær að húsið verði flutt á aðra hentuga lóð, sem ekki er í miðri íbúðabyggð, ásamt öllum tilheyrandi kostnaði, svo sem bótagreiðslum, byggingarréttargjöldum, flutnings- og lögfræðikostnaði.
Einnig vilja Sjálfstæðismenn að kannaður verði kostnaður við að finna vöruhúsinu næst íbúðablokkinni annan stað. Sömuleiðis kostnaður við óbreytt ástand þar sem húsið stendur áfram á núverandi stað, með tilliti til málaferla og lögfræðikostnaðar tengdum þeim, hugsanlegra bótagreiðslna og áhrifa á umhverfið og nágrenni.
Loks vilja Sjálfstæðismenn kanna kostnaðinn við breytingar á húsnæðinu sem miða að því að lágmarka áhrif þess á umhverfið og lífsgæði íbúa í nágrenninu og svo aðrar sviðsmyndir sem unnt er að leggja fram til lausnar málinu.