Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa krafist þess að Kópavogsbær fresti því að loka endurvinnslustöðinni á Dalvegi en að óbreyttu mun stöðin loka í september. Borgarfulltrúarnir segja ljóst að þessu muni fylgja aukið álag fyrir endurvinnslustöðvar í Reykjavík. Þetta kom fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í gær.
Borgarfulltrúar bókuðu að lokuninni muni fylgja aukið álag á endurvinnslustöðvarnar við Jafnasel og Sævarhöfða. Þessar stöðvar ráði ekki við meira nú þegar. Þess er krafist að Kópavogsbær klári fyrst að reisa nýju endurvinnslustöðina við Glaðheima áður en Dalvegi verður lokað.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, spyr á Facebook hver sé ábyrgð sveitarfélaganna á sínu eigin rusli. Það sé ábyrgðarleysi og hrein og bein frekja að ætla að loka endurvinnslunni án þess að koma nýrri í gagnið.
„Hver er ábyrgð sveitarfélaganna á eigin dóti? Sú ákvörðun að loka endurvinnslustöð í Kópavogi án þess að ný hafi verið byggð er fullkomið ábyrgðarleysi að mínu mati og í raun hálfgerð frekja og yfirgangur gagnvart nágrannasveitarfélögum og íbúum.“
Dóra segir að lokuninni mundi fylgja stóraukið álag á endurvinnslustöðvar í Reykjavík og gæti haft í för með sér skerta þjónustu við íbúa t.d. í Breiðholti auk þess sem þessu muni fylgja aukinn akstur með tilheyrandi mengun.
„Við í Reykjavík erum að undirbúa lokun stöðvar hjá okkur og aðferðafræðin er allt önnur þar sem hönnun er komin langt á nýrri stöð nú þegar. Ég fagna því að það standi til að byggja nýja stöð við Glaðheima en vonast til að Kópavogur sjái að sér með þessa tímalínu og hinkri um stund með að loka við Dalveginn enda væri það eðlilegri og nærgætnari leið.“
Með bókuninni á fundinum í gær hafi borgarfulltrúar þvert á flokka tekið afstöðu með Reykvíkingum. Bókunin var eftirfarandi og kom frá fulltrúum Pírata, Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins:
„Kópavogsbær hefur farið fram á skil lóðar endurvinnslustöðvar Sorpu við Dalveg þann 1. september nk. Heimsóknir á endurvinnslustöð Sorpu við Dalveg eru um 180.000 á ári. Telja má nokkuð víst að þær heimsóknir flytjist á stöðvarnar við Jafnasel og Sævarhöfða í Reykjavík. Þær eru nú þegar mjög ásettar. Til að mæta auknu álagi er m.a. til skoðunar að fækka úrgangsflokkum við Jafnasel, sem þýðir þjónustuskerðing við íbúa Breiðholts. Við fögnum því að til standi að reisa nýja endurvinnslustöð við Glaðheima í Kópavogi, en förum jafnframt fram á að Kópavogsbær fresti skilum á lóð endurvinnslustöðvar við Dalveg þar til reist hefur verið ný endurvinnslustöð við Glaðheima. Lokun við Dalveg þann 1. september nk. myndi valda verulegri þjónustuskerðingu fyrir íbúa Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar.“