Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 70 prósent landsmanna samkvæmt nýrri Gallup könnun þar sem ellefu þúsund voru spurðir og helmingur svaraði. Niðurstaða þessarar könnunar gefur nýrri ríkisstjórn byr undir vængi þrátt fyrir linnulausar árásir á sérstaklega Flokk fólksins.
Orðið á götunni er að þegar Samfylkingin, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn bæta aðeins við sig fylgi frá síðustu kosningum samkvæmt þessari könnun sé það vel af sér vikið.
Flokkur fólksins tapar fylgi eins og Miðflokkurinn og Framsókn sem skapaði botninn í kosningunum, fékk 7,8 prósent fylgi, en mælist nú með 6,7 prósenta fylgi. Ekkert lát virðist ætla að verða á niðurlægingu Framsóknar.
Kjarni máls er sá að ríkisstjórnin nýtur fylgis 70 prósenta þjóðarinnar. Ríkisstjórnarflokkarnir mælast með 49 prósenta fylgi þrátt fyrir að Flokkur fólksins hafi tapað vegna linnulausar árása á Ingu Sæland, formann flokksins, sem er loksins farin að bíta frá sér. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa samtals 49 prósenta fylgi, stjórnarandstöðuflokkarnir eru með 39 prósent og aðrir, sem eru utan þings, með samtals 12 prósent.
Þegar Alþingi kemur loks saman eftir að fyrri ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum getur ný ríkisstjórn verið bjartsýn og gengið án hiks til starfa. Í nýju þingliði eru margir sterkir fulltrúar sem eiga eftir að gagnast þjóðinni vel á nýjum vettvangi – eins og þeir hafa gert úti í þjóðlífinu. Sem dæmi um það má nefna Dag B. Eggertsson, Ölmu Möller, Jón Gnarr, Grím Grímsson, Eirík Björn Björgvinsson, Guðmund Ara Sigurjónsson, Ingibjörgu Davíðsdóttir og Ólaf Adolfsson svo einhverjir séu nefndir.
Fram undan er spennandi tími í þinginu og einnig úti í þjóðlífinu þar sem hagsmunaaðilar eru þegar teknir til við að brýna ryðguð vopn sín.
Á sama tíma er mikil óreiða í flokkum stjórnarandstöðunnar. Bjarni Benediktsson flytur kveðjuræðu sína í lok febrúar og skýrir þá væntanlega fylgistap flokksins úr 37 prósentum niður í 19 prósent í formannstíð hans. Með Bjarna fer mikið. Einnig varaformaðurinn sem gerir ekki kröfu um formannsstólinn.
Allra augu hafa verið á Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem nú hefur kveðið upp úr með að hann sækist ekki eftir formennsku í hinum sökkvandi flokki. Lái honum hver sem vill.
Djammdrottningin Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gefur kost á sér til formennsku í þessum flokki. Orðið á götunni er að nái hún kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins verði dagar flokksins senn taldir.
Vitað er að Áslaug hefur mikið fylgi á Facebook hjá ungu fólki sem hefur áhuga á að fylgjast með því þegar hún fær sér kampavín (gleymir vonandi tölvunni ekki aftur), fer á hestbak, fær sér skó eða fer í megrun.
Vænta má fleiri formannsframboða í Sjálfstæðisflokknum þar sem 1.000 manns munu mæta í Laugardalshöllina á hið risastóra ættarmót sem þar fer fram.
Orðið á götunni er að flokkurinn muni á endanum velja trausta fjölskyldumanneskju með bakgrunn í atvinnulífinu.