Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist ekki eftir því að verða formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann greinir frá ákvörðun sinni í Kastljósi í kvöld. Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi og margir skorað á hann að taka slaginn. Hann hafi vissulega langað að bjóða sig fram en það sé flokknum fyrir bestu að finna leiðir til að sameina hópinn, verða aftur breiðfylking og þá sé ekki við hæfi að aðili leiði hópinn sem hafi tekið þátt í ákveðnum átökum eða núningi undanfarin misseri.
Flokkurinn sé tól utan um hugsjón og hugmyndafræði og nú þurfi Sjálfstæðismenn að snúa bökum saman til að nýta krafta sína í það sem skiptir máli.
Á þessum tíma segist Guðlaugur ekki lýsa yfir stuðningi við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem er sem stendur ein í framboði til formanns. Hann telur að frambjóðendurnir verði fleiri og því ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi.
Aðspurður um hvort hann sé að horfa til borgarinnar segir Guðlaugur að hann sé ekkert að hugsa umfram landsfundinn og hvað það sé það besta sem hann og Sjálfstæðisflokkurinn geti gert til að endurheimta fyrri stöðu.
Hann telur þó nauðsynlegt fyrir Reykvíkinga að fá nýjan meirihluta
„Mitt hlutverk er náttúrlega að standa mig fyrir mína umbjóðendur og þannig hefur það alltaf verið og í þessu tilviki þurfti ég að taka afstöðu til áskorana og svo það sé líka alveg sagt þá er þetta erfið ákvörðun að því leytinu til að ég velti fyrir því hvort maður væri að bregðast þeim sem voru að hvetja mann áfram sem mér þykir afskapalega vænt um, og fólk sem var tilbúið að leggja mikið á sig. Ég er ekki að því, ég er bara að stíga skref núna til þess að gera hvað ég get til að sýna gott fordæmi því það er holur hljómur ef menn segja að þeir séu tilbúnir að sameina og efla, en það snúist allt bara um að maður verði sjálfur formaður. Verkefnin mín núna og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins er að veita þessari ríkisstjórn málefnalegt og gott aðhald og sömuleiðis koma með tillögur um það hvað betur megi fara, og það er bara verkefni sem ég hef alltaf unnið að í hinum ýmsu embættum og mun halda því áfram.“
Guðlaugur var spurður hvort að Áslaug yrði ekki líklega næsti formaður. Við því sagði hann:
„Það verður auðvitað bara að koma í ljós, það er nú alveg furðu langt í landsfund og ég geri ráð fyrir, án þess að vita, að það verði fleiri framboð öryggilega í öll embætti og svo getur auðvitað ýmislegt gerst á fundinum. Aðalatriðið er þetta – að við setjum okkur það mark að vinna málefnalega og vel fram að fundi og ganga þannig fram að við komum sameinuð sem ein sterk heild sem að muni nýtast þjóðinni vel í komandi framtíð. Það væri besta niðurstaðan, ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir þjóðina.“
Fréttin hefur verið uppfærð