fbpx
Fimmtudagur 27.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!

Eyjan
Fimmtudaginn 27. febrúar 2025 06:00

Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi hvatning hefur verið á vörum flestra leiðtoga Evrópuríkja að undanförnu, þar á meðal forsætisráðherra okkar og utanríkisráðherra.

Hvatningin kemur í kjölfar breyttrar stefnu Bandaríkjanna í varnarmálum og málefnum Úkraínu, auk öfgafullrar gagnrýni ráðamanna í Washington á lýðræðið í Evrópu og afskiptum þeirra af nýlegum kosningum í Þýskalandi.

Bandaríkin eru við það að einangrast í alþjóðaviðskiptum. Bandaríkjastjórn hótar minnkandi framlögum til NATO og Trump vill ganga til samninga við Rússa þar sem gengið er að flestum kröfum þeirra um yfirráð hertekins lands í Úkraínu og útilokun landsins frá NATO aðild.

Botninum var náð í vikunni þegar Bandaríkin kusu gegn ályktun í Öryggisráði SÞ um árás Rússa. Trump kaus með Rússum og Norður Kóreu!

Góðu fréttirnar eru þær að það eru aðeins 1425 dagar eftir af valdatíð Trumps.

Nýtt Evrópu-NATO?

Hörð ummæli næsta kanslara Þýskalands um helgina vöktu mikla athygli. Hann hvatti Evrópuríki til að sameinast um að verða óháð Bandaríkjunum í efnahags- og varnarmálum. Hann fullyrti að Bandaríkjastjórn væri alveg sama um framtíð og örlög Evrópu. Metz hvatti til þess að Evrópa myndi efla sínar eigin varnir og hugsanlega koma upp nýju Evrópsku varnarbandalagi sem kæmi í stað NATO.

„Forgangsverkefni nýrrar stjórnar í Þýskalandi verður að styrkja Evrópu eins fljótt og hægt er og verða smátt og smátt óháð Bandaríkjum,“ sagði Metz að lokum.

Þetta eru stór orð frá einum öflugasta leiðtoga í Evrópu í dag.

Sameinar Trump Evrópu?

Það eru að verða vatnaskil í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Sumir telja að þau veiki stöðu Evrópuríkja en aðrir segja að stefna Trump skapi mikil tækifæri fyrir Evrópulönd.

Írski þingmaðurinn Aodhán Ó Ríordáin hélt þrumandi ræðu á Evrópuþinginu nýlega sem vakti mikla athygli. Hann fordæmdi harðlega orðræðu, stefnu og aðgerðir Trumps. Hann sagði að sundrandi hugmyndafræði

og einræðishyggja Trumps og andstyggð hans á lýðræði, þróunaraðstoð, umhverfisvernd, frjálsum viðskiptum og samvinnu þjóða væri eitur sem mætti ekki breiðast út til Evrópu.

Ljóst væri að sögn Aodhán að Trump hefur engan áhuga á aðstoð við bágstadda og að lítilsvirðing hans á minnihlutahópum og flóttafólki væri einmitt það sem ESB var stofnað til að vinna gegn.

Hann hvatti íbúa Evrópu að verja gildi álfunnar og spyrna gegn Trump stjórninni, óhikað og án þess að hræðast hefndaraðgerðir hans.

Fleiri þingmenn tóku til máls og hvöttu áheyrendur til að íhuga hvað Trump stjórnin væri að gera – og gera nákvæmlega hið gagnstæða!

Þannig má segja að atburðir síðustu vikna skapi visst tækifæri fyrir Evrópu, tækifæri til að vera enn skýrari valkostur fyrir fólk sem styður lýðræði, mannréttindi, umhverfisvernd og alþjóðlegt samstarf.

Þéttum raðirnar á Íslandi

Hræringar í samskiptum Evrópuríkja við Bandaríkin hljóta að leiða til þess að við Íslendingar þurfum að taka skýra afstöðu um stöðu þjóðar okkar á alþjóðasviðinu í framtíðinni.

Að mínu mati eigum við að halla okkur enn meira að Evrópu og samvinnu þjóða í ESB. Það verður æ mikilvægara fyrir okkur að sitja við borðið í Brussel en með inngöngu í ESB fáum við sex þingmenn og einn ráðherra með neitunarvald í stórum málum.

Smáþjóðir hafa mikið vægi í ESB. Öll tungumál eru virt á Evrópuþinginu og þjóðir á jaðri Evrópu fá sérstakan stuðning við þróun menningar, viðskipta og velferðar. Vaxtalækkun í kjölfar upptöku evru mun lækka vaxtakostnað í landinu um allt að 500 milljarða á ári.

Með fullri aðild verðum við hluti af evrópsku velferðarkerfi sem tryggir lýðræði, mannréttindi, neytendavernd og viðskiptafrelsi.

Fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB. Við þurfum að íhuga hvort við ættum með hliðsjón af þróun mála síðustu vikna að flýta þessari atkvæðagreiðslu um eitt ár.

Vegferð til farsældar

Í lokin vil ég vitna í nýlega bók Vilhjálms Egilssonar „Vegferð til farsældar“.

Hann segir meðal annars um það hvers vegna þjóðir vilja ganga í ESB að „þörfin fyrir frið, öryggi, lýðræði og mannréttindi hafi skipt mestu máli.“

Í lok bókarinnar hittir Vilhjálmur naglann á höfuðið með hliðsjón af atburðum síðustu vikna þegar hann segir að tvennt gæti breytt viðhorfum Íslendinga til Evrópusambandsins.

Hið fyrra er þetta: „ef Bandaríkjamenn hverfa aftur til þeirrar stefnu að láta sig ekki varða málefni Evrópu og viðgang lýðræðisins og frelsis í álfunni. Í því tilviki er ekki víst að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að verja Ísland frekar en aðrar Evrópuþjóðir og að þröngt hagsmunamat vegna öryggismála ýti okkur inn í Evrópusambandið“.

Þetta eru orð töluð á réttum tíma í frábærri bók Vilhjálms Egilssonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti
EyjanFastir pennar
25.01.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps
EyjanFastir pennar
25.01.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur