fbpx
Fimmtudagur 27.febrúar 2025
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Orðfæri

Eyjan
Fimmtudaginn 27. febrúar 2025 11:49

Ari Kr. Sæmundsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hlusta á fréttir og fylgist með umræðunni, þegar ég nenni. Tek eftir því að ákveðið orðfæri eða skilgreiningar ná fótfestu, verða yfirgnæfandi og síendurteknar, margtuggnar. Gott dæmi er „ólögmætt árásarstríð“ Rússa á hendur Úkraínu. Hvenær er stríð lögmætt? Í hvaða lög er verið að vísa? Hvað er „árásarstríð“? Er ekki stríð tilkomið vegna þess að ein þjóð gerir árás á aðra sem þá tekur til varna? Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Rússar og Úkraínumenn eiga í stríði. Er ekki bara hægt að lýsa þessum ömurlega atburði þannig? „Ólögmætt árásarstríð“ er orðaglingur.

Það er mikið talað um öfga hægri flokka í stjórnmálum. Helstu skilgreiningar á öfga hægrinu virðast vera þær að viðkomandi flokkar vilja reyna að koma böndum á hælisleitendamálin. Er þá Miðflokkurinn öfga hægri flokkur? Eru allir hinir flokkarnir á Alþingi að daðra við öfga hægrið? Þeir vilja jú koma böndum á þennan málaflokk. Leiðir Mette í Danmörku öfga hægri flokk? Ef það eru öfgar til hægri, eru þá ekki til öfgar til vinstri? Sósíalistar? Sósíalistar vilja félagslegar lausnir og áætlunarbúskap. Öfga vinstrið? Hættum þessu öfga tali. Þótt við séum ekki sammála pólitískum markmiðum eða stefnumálum einhvers flokks, er ekki sérlega málefnalegt að kenna hann við öfgar, og ef fólk hefur ekki enn gert sér grein fyrir því, þá er ekkert hægri og vinstri í íslenskri pólitík. Hér eru allir flokkar opnir í báða enda eins og Framsóknarflokkurinn.

Hef áður talað um það hvimleiða orðfæri ráðamanna að eitthvert álitamál sé í „skoðun“. Þetta þýðir í raun að menn geta ekki tekið ákvörðun. Af hverju ekki bara segja það hreint út: Þetta er leiðindamál og við getum ekki tekið ákvörðun. Ef mál eru ekki í „skoðun“, þá eru þau í „ferli“. Ef eitthvað bjátar á þá eru menn að setja mál í ferli, endurskoða eða uppfæra verkferla. Sem þýðir nákvæmlega það sama og „skoðun“, menn geta ekki tekið ákvörðun. Þá er mjög vinsælt núna að „taka samtalið“ og einum borgarfulltrúa varð tíðrætt um að „ávarpa“ mál. Allt ber þetta orðfæri að sama brunni, mönnum er fyrirmunað að taka ákvörðun. E.t.v. ættu íslenskir ráðamenn að gera eins og Bretar, þegar þarf að takast á við vondar fréttir eða erfiðar ákvarðanir, setjast niður og fá sér tesopa.

Eftir s.l. þingkosningar var stjórnmálafræðingum tíðrætt um „dauð atkvæði“. Hvað eru dauð atkvæði? Ef marka má þessa spekinga eru það atkvæði sem voru greidd t.d. VG, Pírötum, Sósíalistum og Lýðræðisflokknum. Af hverju eru þessi atkvæði dauð? Jú, vegna þess að þessir flokkar náðu ekki manni á þing, kjósendur þeirra eiga engan málsvara á þingi. En eru ekki allir þingmenn málsvarar okkar allra? Ætlar t.d. þingmaður Samfylkingar að segja við kjósanda VG: Ég vinn ekki fyrir þig, þú kaust mig ekki? Öllum hefði átt að vera það ljóst m.v. skoðanakannanir að þessir flokkar myndu ekki ná tilætluðum árangri og atkvæði greidd þeim væru því „dauð“ samkvæmt skilgreiningu spekinganna. Eiga þá kjósendur að kjósa eftir því hvernig vindar blása í skoðanakönnunum? Hefðum við þá öll átt að kjósa Samfylkinguna og tryggja þannig að atkvæði okkar væru „lifandi“, ekki „dauð“? Voru atkvæði greidd Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Miðflokki þá „dauð“ svona eftir á af því að þessir flokkar eru áhrifalausir utan stjórnar? Frambjóðendur til þings skora á kjósendur að nýta atkvæðisrétt sinn, það sé lýðræðisleg skylda þeirra. Sömu frambjóðendur sitja svo hjá, greiða ekki atkvæði í þinginu. Það eru hin einu sönnu „dauðu“ atkvæði.

Styrkjamál Flokks fólksins hafa verið áberandi í umræðunni, hamrað á því að flokkurinn sé ekki stjórnmálasamtök, heldur félagasamtök. Á heimasíðu Skattsins stendur m.a.: Almenn félagasamtök teljast vera þau félög þar sem hópur manna kemur saman til að ná fram ófjárhagslegum markmiðum þess… Sem dæmi um almenn félög má nefna stjórnmálaflokka… Þá vitum við það, Flokkur fólksins er ekki bara félagasamtök heldur líka stjórnmálaflokkur samkvæmt skilgreiningu Skattsins. Hver er þá munurinn á flokki og samtökum. Kíkjum aðeins í Íslenska orðabók: Flokkur = hópur manna (t.d. vinnuflokkur), stjórnmálasamtök. Samkvæmt þessu má færa rök fyrir því að flokkur Fólksins sé ekki aðeins félagasamtök, heldur einnig stjórnmálaflokkur og -samtök. Já, íslenska er skrítið mál. Reyndar tel ég að stærsti bófinn í þessu máli sé sjálfur löggjafinn sem samþykkti þá moðsuðu sem lög nr. 162/2006 um starfsemi stjórnmálasamtaka eru, með síðari tíma breytingum. Ætla ekki að blanda mér frekar í þessa umræðu en sakna þess hve fáir hafa bent á fáránleika þess að skattgreiðendum skuli gert skylt að standa undir rekstri stjórnmálasamtaka, jafnvel samtaka sem þeir hafa engan áhuga á að styrkja með framlögum. Tillaga:  Ef sú kvöð verður ekki aflögð, legg ég til að skattskýrslunni fylgi listi yfir skráð stjórnmálasamtök og fólk geti hakað við þau samtök, sem það vill styrkja með sínu skattfé. Haki fólk ekki við nein stjórnmálasamtök, renni sambærileg upphæð til góðgerðasamtaka að eigin vali.

Að lokum eru það þau sem „brenna fyrir“ ákveðnum málefnum. Málefnin eru þeim ekki aðeins hugleikin, snerta þau sérstaklega, eða teljast afar brýn. Þau eru hreinlega að fuðra upp. Ég t.d. „brenn fyrir því“ að ráðamenn taki ákvarðanir, séu sjálfum sér samkvæmir, tali við okkur tæpitungulaust (ekki gegn betri vitund) og lofi ekki upp í ermina á sér, eða eins og segir í vísunum um nafna minn: Þið eigið að segja mér satt.

Kær keðja úr óbærilegum léttleika tilverunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Kóngurinn er sestur að í Hvíta húsinu

Kóngurinn er sestur að í Hvíta húsinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Ekki vera undirsáti – vertu skapandi þátttakandi

Steinunn Ólína skrifar: Ekki vera undirsáti – vertu skapandi þátttakandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hjördís María skrifar: Fasteignafélög og leigumarkaður

Hjördís María skrifar: Fasteignafélög og leigumarkaður
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna: Sjálfstæðisflokkurinn gamaldags og þungur – ég er rétta manneskjan til að takast á við krísuna

Áslaug Arna: Sjálfstæðisflokkurinn gamaldags og þungur – ég er rétta manneskjan til að takast á við krísuna